Ég varð vitni að sorglegri, skammarlegri og ólögmætri atburðarás í dag þegar nígerískum hælisleitanda var vísað úr landi þrátt fyrir að eiga hér þrjú börn. Atburðarás sem íslenskir embættismenn hefðu getað stöðvað hefði viljinn verið fyrir hendi. Þetta veit ég fyrir víst hafandi starfað sem lögmaður í málefnum hælisleitenda árum saman. Alltaf er hægt að fresta íþyngjandi ákvörðunum sé útlit fyrir að þær standist ekki lög og reglur. Ég hef margoft séð opinbera starfsmenn stíga fram fyrir skjöldu og hafa hugrekki til að grípa í taumana og segja: „Nei, bíðum við, skoðum þetta betur áður en við höldum áfram“. Þegar réttindi barna eru í húfi er það raunar skylda yfirvalda skv. meginreglu barnaréttar sem kveður á um að hafa skuli hagsmuni barna að leiðarljósi þegar teknar eru ákvarðanir sem varða börnin. Það var ekki gert í dag.
Ég mætti ásamt nokkrum tugum mótmælenda fyrir utan lögreglustöðina á Hverfisgötu kl. 11 til þess að mótmæla því að þessum manni yrði brottvísað úr landi. Ég sá barnsmóður hans stara tómum augum niður í gangstéttina og yngsta barnið hvíla sallarólegt í barnavagni, nokkurra mánaða fagureygð stúlka sem vissi sem betur fer ekki hvað var að gerast. Ég gaf mig á tal við hana og hún sagði lágum rómi: „Ég bara get þetta ekki ein“.
Með lögum nr. 19/2013 lögfestum við Íslendingar Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Í fyrstu grein segir að markmið laganna sé að styrkja stöðu mannréttinda barna. Gott og vel. Það er alltaf svo gaman þegar við eyjaskeggjarnir setjum okkur lög í göfugum tilgangi. Víkur þá næst að 9. gr. Sáttmálans sem segir:
„Aðildarríki skulu tryggja að barn sé ekki skilið frá foreldrum sínum gegn vilja þeirra, nema þegar lögbær stjórnvöld ákveða samkvæmt viðeigandi lögum og reglum um málsmeðferð að aðskilnaður sé nauðsynlegur með tilliti til hagsmuna barnsins enda sé sú ákvörðun háð endurskoðun dómstóla. Slík ákvörðun kann að vera nauðsynleg í ákveðnum tilvikum, svo sem ef barn sætir misnotkun eða er vanrækt af foreldrum sínum, eða þegar foreldrar búa ekki saman og ákveða verður hver skuli vera dvalarstaður þess.“
Ég fullyrði að það þarf ekki próf í lögfræði til að skilja hvað þessi lagaregla segir. Hún segir það er bannað að skilja foreldra og börn að nema slíkt sé nauðsynlegt vegna hagsmuna barnsins. Í dag var þessi einfalda regla brotin af íslenskum yfirvöldum. Ekki síst í ljósi þess að skv. 71. gr. stjórnarskrár er óheimilt að takmarka rétt einstaklinga til fjölskyldu nema með lögum og ef brýna nauðsyn beri til vegna réttinda annnarra.
Yfirvöldum bar að vernda þennan rétt barnanna en þess í stað brutu þau hann með augljósri ákvörðun sem varð ekki við snúið þrátt fyrir að þeim væri bent á brotið áður en brottvísunin átti sér stað. Slíkt nefnist brot af ásetningi í mínum bókum.
Ég vildi óska þess að ég dag sæti ég stolt af minni þjóð eins og ég er mjög oft en í staðinn sit ég uppi með tilfinningu um skömm. Skömm sem er ekki mín og ég skila hér með til þeirra sem þessa ákvörðun tóku. Ég vil jafnframt spyrja þá aðila sem ábyrgir eru fyrir þessari ákvörðun einnar spurningar í lokin: Hefði ykkur þótt jafn sjálfsagt að skilja móður barnanna frá þeim og senda hana út í óvissuna í fjarlægu landi vitandi það að faðirinn yrði þá að axla ábyrgðina sem einstætt foreldri? Mér þætti gríðarlega vænt um að fá opinbert svar frá þeim sem er ábyrgur fyrir þessari framkvæmd. Þar til það svar berst, með viðeigandi rökstuðningi sem sýnir fram á hið gagnstæða, fullyrði ég að í dag gerðust íslensk yfirvöld brotleg gegn mannréttindum þessara barna sem og meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar sem kveður á um að aldrei skuli fara strangar í sakir en nauðsynlegt er.
Höfundur er mannréttindalögfræðingur