Efnahags- og framfarastofnunin (OECD) birti nýverið skýrslu um Ísland sem að hluta til var helguð ferðamálum vegna áhrifa þeirra á endurreisn landsins eftir hrunið. Í skýrslunni eru misgóðar ábendingar um áherslur á þessum vettvangi. Sumar eru gamlar, heimabakaðar lummur svo sem um handstýringu ferðamanna en aðrar veigameiri og frumlegri! eins og þörfina á þver-ráðuneytalegri stefnumörkun þrátt fyrir tilvist Stjórnstöðvar ferðamála og ábending um þörf á samræmi í skipulagi samgöngumála og stefnu í ferðamálum sem væntanlega vísar fyrst og fremst til skorts á innanlandsflugi frá Keflavík.
Skýrslan er áfellisdómur yfir stefnu- og aðgerðaleysi stjórnvalda í málefnum ferðaþjónustunnar. Sú niðurstaða er ekki óvænt en það sem vekur athygli er að einu viðbrögð ferðamálaráðherra eru þau að ráðlegt sé að setja á stofn eins konar „mini” Hafró til þess að segja stjórnvöldum hvað gera þurfi. Ráðherranum virðist ekki kunnugt um Rannsóknarmiðstöð ferðamála við HA né um hátimbraða Stjórnstöð ferðamála sem átti að iðka rannsóknir og afla áreiðanlegra gagna um ferðaþjónustuna. Svona viðbrögð eru vottur um stefnuleysi og ráðleysi og var mælirinn þó ekki fylltur í þeim efnum eins og rakið verður hér á eftir.
Fram kom á Alþingi skömmu fyrir þinglok fyrirspurn til ráðherra ferðamála um viðhorf hans til lögverndunar á starfsheiti leiðsögumanna. Í fyrirspurninni kemur fram að um sé að ræða starfsheiti leiðsögumanna með starfsundirbúning sem uppfyllir staðlinn IST EN 15565:2008, sem gilt hefur hér á landi síðan á árinu 2008. Var ekki eingöngu átt við þá sem aflað hafa sér formlegrar menntunar í leiðsöguskóla sem starfa í samræmi við þann staðal heldur einnig þá sem aflað hafa sér þekkingar á því sviði með öðrum hætti í öðrum skólum eða sýnt fram reynslu og hæfni í raunfærnimati. Viðfangsefni lögverndunar starfsheitisins, sem t.d. gæti verið faglærður leiðsögumaður væri m.a. að skilgreina þá menntun, þær gæðakröfur og/eða þá reynslu sem til þyrfti til að nota það og gætu verið mismunandi eftir hinum ýmsu sviðum leiðsagnar.
Svar ráðherra er rýrt og rökstuðningur hans óljós. Vísað er til Vegvísis í ferðaþjónustu og stofnunar Hæfniseturs ferðaþjónustunnar sem ku vinna að uppbyggingu þrepaskipts náms þótt athugun á verkefnum þessara aðila leiði fátt í ljós sem snertir leiðsögn ferðamanna. Þá er í svarinu bent á að í endurskoðun á lögum um skipan ferðamála gefist færi á að fara yfir málefni leiðsögumanna sérstaklega. Í drögum að frumvarpi um breytingar á lögunum sem kynnt hefur verið á heimasíðu ráðuneytisins er ekkert um leiðsögumenn annað en það að félagi þeirra er ætlað að tilnefna fulltrúa í Ferðamálaráð sem er hið besta mál en hefur ekkert með lögverndun starfsheitisins að gera. Þessar tilvísanir í svarinu eru til þess eins fallnar að drepa umræðunni á dreif og gefa í skyn að eitthvað sé um að vera sem augljóslega er þó ekki.
Til þess að undirbyggja afstöðu sína gefur ráðherrann í skyn að verndun starfheitis leiðsögumanna feli í sér að leyfi yfirvalda þurfi til að sinna leiðsögn, sem er rangt, og hleypur síðan í smiðju Viðskiptaráðs sem segir að lögverndun starfsheita sé af hinu vonda. Í samræmi við þann boðskap klikkir hann út með því að segja það mat sitt „að almennt séð eigi lögverndun starfsheita við í greinum þar sem hún skilar sannarlega ávinningi." Ekki kemur fram hvernig þessi ávinningur skuli metinn eða hvers hann sé: Fyrirtækjanna sem selja þjónustuna, leiðsögumannanna sem inna hana af hendi, ferðamannanna sem kaupa hana eða orðspors ferðaþjónustu í landinu.
Í framhaldi af þessu kemur síðan önnur tilraun til að afvegaleiða umræðuna þegar sagt er: „Hafa ber í huga að lögverndun starfsheitis leiðsögumanna mundi leiða til þess að ófaglærðir einstaklingar, sumir með áratugalanga reynslu í leiðsögn, þyrftu leyfi frá stjórnvöldum til að geta titlað sig leiðsögumenn og álitaefni hvort slíkur ávinningur lögverndunar á starfsheiti leiðsögumanna vegi upp þann samfélagslega kostnað sem af slíkri löggjöf mundi hljótast.” Hið rétta er að lögverndunin, sem fyrirspurnin snýst um, nær með sama hætti til allra þeirra sem aflað hafa sér þeirrar menntunar, hæfni og reynslu sem skilgreind yrði í lögunum. Gildir þá einu hvort það hafi að öllu leyti verið gert með sérstöku leiðsögunámi, námi í öðrum skólum og háskólum hérlendis eða erlendis eða hafi verið áunnið með hæfni í starfi sem staðfest hafi verið með raunfærnimati. Kemur þetta reyndar glöggt fram í fyrirspurninni þannig að það jaðrar við útúrsnúning að tala um þetta sem „samfélagslegan kostnað sem af slíkri löggjöf mundi hljótast”. Lögverndun starfsheitis faglærðra leiðsögumann er í þágu allra þeirra sem með námi eða starfi hafa áunnið sér þá þekkingu og færni sem þarf til að til að sinna leiðsögn ferðamanna með sómasamlegum hætti og hún er þágu þeirra fyrirtækja sem hafa metnað til að selja faglega þjónustu á þessu sviði með gagnsæjum hætti.
Sú fullyrðing að lögverndun starfsheitisins feli í sér skerðingu á atvinnufrelsi sem kemur fram í orðunum: „Þannig ætti löggjöf um lögverndun starfsheita að miðast við að skerða ekki atvinnufrelsi nema sýnt hafi verið fram á ávinning þeirrar lögverndunar” er einfaldlega röng. Lögverndun starfsheitis faglærðra leiðsögumanna skerðir ekki atvinnufrelsi eins eða neins. Eftir sem áður væri hverjum sem er heimilt að starfa við leiðsögn ferðamanna og þeim sem selja leiðsöguþjónustu væri eftir sem áður heimilt að ráða hvern sem þeir óska eftir til slíks starfs. Það sem breyttist með löggildingu starfsheitisins er að ekki væri lengur unnt að selja þessa þjónustu undir fölsku flaggi. Fram kæmi hvort þeir sem leiðsögnina inna af hendi hafa þann starfsundirbúning, menntun og reynslu sem talin er nauðsynleg fyrir starfið samkvæmt alþjóðlega viðurkenndum staðli eða ekki. Lögverndunin yrði þannig til að auka gagnsæi á þessum markaði og gera kaupendum auðveldara að vita að hverju þeir ganga á sama hátt og hún myndi torvelda þeim fyrir sem selja vilja þjónustu sem ekki stenst mál.
Eftir að tilgangi lögverndunar á starfsheitinu hefur verið fundið flest til foráttu í svari ráðherra koma í lokin eins og skrattinn úr sauðarleggnum heldur ruglingslegar bollaleggingar um „að skoða leiðir til að ná markmiðum löggildingar með öðrum leiðum.” Eru þá nefnd til leiks ýmis þau atriði sem reyna myndi á við hina fordæmdu löggildingu en eru nú orðin sakleysisleg og líklega þjóðhagslega hagkvæm.
Á grundvelli þess sem að framan greinir er það niðurstaða ráðherra ferðamála að „á þessu stigi” sé ekki rétt að lögvernda starf leiðsögumanna. Það eru kannske ítrekuð pennaglöp fremur en misskilningur að rugla öðru sinni saman lögverndun starfs og lögverndun starfsheitis, sem er tvennt ólíkt, og verður ekki dvalið við þau. Hitt vekur spurningar hvað átt er við með orðunum „á þessu stigi”. Þeir sem til þekkja vita að í mikilli þenslu á þessum markaði er margur pottur brotinn. Ferðaþjónustufyrirtækin hafa ráðið marga leiðsögumenn til starfa, sem ekki hafa neinn undirbúning til slíkra starfa og valda starfinu misvel. Stundum hefur þetta verið gert af illri nauðsyn vegna þess að ekki hefur verið kostur á faglærðum leiðsögumönnum en í öðrum tilvikum virðist þetta gert til að draga úr kostnaði og greiða ekki laun samkvæmt gildandi kjarasamningum leiðsögumanna, sem eru þó ekki ýkja há, auk þess sem að ekki er farið að lögum og samningum um greiðslu félagsgjalda. Þessir aðilar eru í samkeppni við fyrirtæki sem leggja metnað sinn í að tefla eingöngu fram menntuðum og/eða reyndum leiðsögumönnum. Þá er einnig alkunna að erlend fyrirtæki selja ferðir hér með leiðsögn sem nægir ekki einu sinni til að rata sæmilega um þjóðvegi landsins.
Það er vonandi að orðin „á þessu stigi” hafi bara verið gamall handhægur orðaleppur sem ráðherra hefur gripið til í vandræðum en sé ekki vísbending um að hann telji þetta ástand í lagi eða að æskilegt sé að bíða með aðgerðir eftir því að ástandið versni enn og fagleg leiðsögn ferðamanna á Íslandi heyri sögunni til.
Höfundur er leiðsögumaður.