Í næstu sveitastjórnarkosningum stefnir í að húsnæðismálin verði efst á dagskrá. Skorturinn er þvílíkur að félagsmálaráðherra hefur lýst yfir neyðarástandi á húsnæðismarkaðnum. Fast hefur verið skotið á milli pólitískra aðila undanfarið og er hinum og þessum kennt um ástandið. En hver er hin raunverulega ástæða fyrir því að húsnæðismarkaðurinn er eins og hann er í dag? Í raun er mjög auðvelt að svara því. Hrunið 2008 er meginástæðan fyrir því að skorturinn er eins og hann er í dag þannig að ef einhverjir vilja leita að einhverjum skúrk í þessum málum þá er best að lesa Rannsóknarskýrslu Alþingis. Ég ætla ekki að fara benda á einhverja einstaklinga í þeirri skýrslu enda er hún viðamikil og margt sem varð til þess að allt hrundi hér með stórum hvelli.
Eftir haustið 2008 fraus öll fjárfesting í landinu og þar með byggingariðnaðurinn. Mestur tíminn fór í að endurskipuleggja ríkisfjármálin og komaríkinu til bjargar með aðstoð AGS. Á þessum tíma fóru margir verktakar í gegnum endurskipulagningu á sínum fyrirtækjum sem varð til þess að þeir þurftu að losa um fastafjármuni til þess að greiða skuldir. Fastafjármunir og dýrir veltufjármunir voru seldir úr landi og mikið af vinnuaflinu hvarf til annarra landa í leit að vinnu, og þá helst til Noregs. Það er því ekki að undra að nýbyggingastarfsemin var í algjöru lágmarki á árunum eftir hrun enda voru einungis byggðar um 5.018 íbúðir á höfuðborgarsvæðinu frá árinu 2009 – 2015 eða um 717 íbúðir á ári.
Þegar ég gerði mína mastersritgerð í fjármálahagfræði, þar sem ég bar saman framleiðni á íslenskum byggingamarkaði samanborið við Noreg, þá tók ég saman þessar tölur og sýndi aðilum vinnumarkaðarins og benti á í hvað stefndi. Þeir sýndu þessu lítinn áhuga og því hélt ég bara mínu striki ásamt leiðbeinanda mínum, Dr. Þórólfi Matthíassyni en gagnaöflunin var mjög erfið. En þetta hafðist þó að lokum og útkoman kom mér dálítið á óvart þar sem mikill munur var á framleiðni okkar Íslendinga samanborið við Noreg.
Ég tók árið 2014 til samanburðar en á þeim tíma var byggingamarkaðurinn að mestu leyti mannaður af íslenskum iðnaðarmönnum. Þegar kreppir að í atvinnugrein þá er þeim sem hafa minnstu þekkinguna og minnstu reynsluna sagt upp fyrst eða þeir hverfa sjálfkrafa úr atvinnugreininni. Þannig að árið 2014 var byggingariðnaðurinn skipaður að mestu leyti okkar færustu mönnum fyrir utan þá sem hurfu af landi brott. Þrátt fyrir þetta þurftum við allt að helmingi meiri tíma til þess að klára hvern fermeter samanborið við Noreg.
Ég skipti verkferlinu í tvennt. Að steypa upp blokkirnar og á hinn bóginn að klára íbúðirnar innandyra. Athygli vakti að við þurftum allt að 80% meiri tíma til þess að ganga frá íbúðum innandyra samanborið við Noreg. Helstu ástæðurnar fyrir þessu voru að mínu mati eftirfarandi:
- Skipulagning á vinnustað
- Stærðarhagkvæmni og sérhæfing
- Örar og djúpar hagsveiflur
- Starfsmannavelta
- Lengd vinnuviku
- Hár fjármagnskostnaður verktaka
Ég tiltek fleiri atriði í ritgerðinni minni og skýri þetta nánar þar. En eins og við sjáum hér að ofan þá eru þetta breytur sem koma mjög illa við byggingariðnaðinn og þetta er eitthvað sem þarf að skoða til langs tíma litið.
Staðan í dag
Mikill skortur er á faglærðum og reynslumiklum iðnaðarmönnum sem þekkja íslenska byggingastarfsemi. Þegar svo ber við eru miklar líkur á því að framleiðnin versni enda liggur það ljóst fyrir að þeir sem hafa mikla reynslu á byggingamarkaði eru að eyða tíma í að kenna hinum sem eru ekki vanir og í sumum tilfellum að leiðrétta mistök eftir þá. Þetta er allt eðlilegt enda þurfa menn einhvers staðar að byrja og reka sig á. Þetta á bæði við um innlennt og innflutt vinnuafl. Við aðstæður sem eru á byggingamarkaði í dag þar sem þolinmæðin er lítil og mikil pressa frá aðalverktökum að klára á tilteknum tíma þá lendir mesta pressan á þeim sem eru reynslumiklir og eru þeir farnir að vinna langa vinnudaga sem dregur enn frekar úr framleiðninni.
Árin fyrir hrun voru um 18.500 iðnaðar– og verkamenn við vinnu hér á landi samkvæmt Samtökum iðnaðarins. Á þeim tíma náðum við að byggja metfjölda íbúða eða um 2.000 íbúðir á ári. Í dag samkvæmt Samtökum iðnaðarins eru um 11.500 iðnaðar- og verkamenn við vinnu hér á landi sem er langt undir því sem var fyrir hrun. Auk þess voru ekki nein ruðningsáhrif að ráði vegna hótelbygginga á árunum fyrir hrun. Þess vegna er það mjög hæpið að framboð á húsnæðismarkaði nái jafnvægi við eftirspurnina á næstunni. Auk þess telja Samtök iðnðaðarins að um 3.000–4.000 erlendir verkamenn munu koma til landsins á næstunni. En eins og staðan er í dag er mjög erfitt að manna verkefnin.
Svo er líka stóra spurningin. Hvar munu þeir búa? Það er vitað að margir eru í ósamþykktum íbúðum eða herberjum í dag hvort sem það eru Íslendingar eða erlendir starfsmenn. Munum við taka áhættuna á þessu til þess að flýta fyrir uppbyggingu á húsnæðismarkaði? Staðan er því mjög erfið og ekki til nein galdralausn á þessu vandamáli eða eins og unglingarnir segja „Shit happens“.
Lausnir til langs tíma
Það er leiðinlegt að segja það við fólk sem er að reyna að komast inn á íbúðamarkaðinn en uppbyggingin tekur tíma og ekkert annað í stöðunni en að bíða. Byggingageirinn var botnfrosinn eftir hrun og við erum að glíma við afleiðingarnar í dag. Það er ekki til neins að lofa einhverju sem ekki er raunhæft að standa við. Þetta er bara ein afleiðing fjármálahrunsins sem við vonandi lærum af í framtíðinni.
Þó svo margt af þessu sé ekki á valdi stjórnmálamanna, og þá sérstaklega til skamms tíma litið, þá er margt sem við getum lært af þessu og sett okkur markmið til framtíðar. Stjórnmálamenn geta ekki mannað byggingariðnaðinn og geta ekki galdrað upp íbúðir á núll-einni. Við erum í samkeppni á evrópska efnahagssvæðinu um vinnuafl og því ræður bara markaðurinn þar. En það er eitt sem stjórnmálin geta gert og það er að búa til stefnumótun og setja sér ákveðin markmið til framtíðar þannig að þetta gerist ekki aftur. Þetta eru atriði sem snúa að framleiðslugetu hagkerfisins eða eins og ég vil nefna það, að auka framleiðni á byggingamarkaði. Vil ég nefna nokkur dæmi:
- Auka iðnmenntun. Menntastefna Samtaka iðnaðarins var staðfest þann 16. febrúar 2015 og bind ég miklar vonir við að hún nái að eflast. Þessi stefna þarfnast stuðnings stjórnvalda enda er húsnæði ein af grunnþörfum mannsins.
- Búa til iðnviðasjóð í erlendri mynt. Við megum ekki við því á næstu árum að langt hlé verði á uppbyggingu íbúða. Ef einkageirinn lendir í vandræðum þurfa stjórnvöld að grípa inn í.
- Stöðugleiki og lækkun raunvaxta. Þetta er lykilatriði til þess að byggingariðnaður nái að blómstra. Fjármagnskostnaður verktaka er á bilinu 12–15% sem gerir verktökum erfiðara fyrir að safna upp eigið fé.
- Samfélagslegt viðhorf til iðngreina. Í réttu umhverfi eru iðngreinar spennandi störf og það er nauðsynlegt fyrir samfélagið að iðngreinar blómstri. Það eru ekki allir krakkar sem hafa áhuga á bóknámi og sumir eiga jafnvel erfitt með bóknám en auðvelt með að vinna með höndunum. Þessir krakkar þurfa hvatningu og samfélagið þarf að veita iðnnámi ákveðna virðingu. Því hvar eiga lögfræðingar, hagfræðingar- og viðskiptafræðingar að búa ef engin byggir húsin þeirra.
Með þessum pistli vonast ég til þess að karpi um sökudólga á ástandinu ljúki og við förum að snúa bökum saman og byggja upp til framtíðar.
Höfundur er fjármálahagfræðingur og iðnaðarmaður