Hlutverk menntaskóla hefur umfram allt verið fólgið í því að búa nemendur undir háskólanám. Þetta hefur ekki breytzt. Sú breyting hefur hins vegar orðið á undanförnum áratugum hérlendis að auk menntaskólanna útskrifa ýmsir aðrir framhaldsskólar stúdenta. Um skeið hefur það verið stefna stjórnvalda að koma sem flestum í hverjum árgangi í gegnum stúdentspróf. Þetta hefur ekki endilega leitt til þess að menntun þjóðarinnar hafi batnað. Miklu fremur hefur það haft gengisfellingu stúdentsprófsins í för með sér. Í þokkabót hefur svo framhaldsskólinn verið styttur um fjórðung með alvarlegum afleiðingum. Í ljós hefur komið að aukið álag á nemendur veldur meiri streitu en áður en hún hefur aftur í för með sér minnkandi námsánægju og vaxandi andlega og líkamlega vanlíðan. Öfugt við það sem Hvítbók menntamálaráðherra boðaði veldur styttingin því að fleiri nemendur flosna upp frá námi.
Mesta ábyrgð á styttingu framhaldsskólans bera Samtök atvinnulífsins sem um nokkurt skeið hafa barizt fyrir henni. Reyndar hafa samtökin einnig þrýst á um styttingu grunnskólans, og gera enn, þannig að nám til stúdentsprófs verði tveimur árum styttra en áður var. Því hefur verið haldið fram að styttingin feli í sér mikinn þjóðhagslegan ávinning sem m.a. komi fram í meiri þjóðarframleiðslu og auknum ævitekjum þeirra sem ljúka fyrr stúdentsprófi. Rætt hefur verið um að samfara styttingu námstíma skuli skólaárið nýtt betur og meiri kröfur gerðar til kennara og nemenda.
Helzti baráttumaður fyrir þessari stefnu Samtaka atvinnulífsins var menntamálaráðherra síðustu ríkisstjórnar. Hann treysti sér þó ekki til að stíga skrefið til fulls og berjast fyrir styttingu beggja skólastiga heldur beindi hann öllum kröftum sínum að framhaldsskólanum. Hann fékk því til leiðar komið að þetta námsstig yrði stytt úr fjórum árum í þrjú án nokkurra undantekninga. Þetta voru alvarleg mistök.
Taka má undir það sjónarmið að skynsamlegt hafi verið að stytta nám til stúdentsprófs um eitt ár en rangt skólastig varð fyrir valinu. Auðvitað átti miklu fremur að stytta hið tíu ára langa grunnskólanám. Þar var miklu meira svigrúm til styttingar en í framhaldsskólanáminu. En það var ekki gert sökum þess að grunnskólarnir eru reknir af sveitarfélögunum en framhaldsskólarnir af ríkinu. Með styttingu framhaldsskólans var sem sé stefnt að sparnaði í ríkisrekstri eins og nú hefur komið á daginn.
Þegar menntamálaráðherra og stuðningsmenn hans ráku áróður fyrir styttingu framhaldsskólanámsins reyndu þeir að gera sem minnst úr því að hún hefði kennslusamdrátt í för með sér og þar með minni menntun. Nei, með því að færa hluta námsefnisins niður á grunnskólastig og taka upp nútímalega og bætta kennsluhætti yrði vegið á móti styttingunni. En eins og bent hefur verið á eru grunnskólakennarar almennt ekki í stakk búnir til að taka að sér kennslu í námsefni sem áður tilheyrði framhaldsskólastiginu. Stafar það fyrst og fremst af því að í námi grunnskólakennara er megináherzla lögð á kennslu- og uppeldisfræði en faggreinar sitja á hakanum. Þá var aldrei útskýrt í hverju hinir bættu kennsluhættir ættu að vera fólgnir. Ekki er óhugsandi að sumir kennslufræðingar hafi ímyndað sér að innleiðing spjaldtölva og snjallsíma í kennslu væri ráð til að gera allt nám miklu áhugaverðara og betra en áður.
Nú verður sífellt fleirum ljóst hve mikið ólán stytting framhaldsskólans var fyrir íslenzkt menntakerfi. Það er með endemum að stjórnendur framhaldsskóla skuli ekki hafa veitt henni meira viðnám en raun ber vitni. Spurzt hefur að einungis rektorar Menntaskólans í Reykjavík og Menntaskólans við Hamrahlíð hafi beitt sér gegn styttingunni. Meðvirkni nokkurra skólameistara var svo mikil að þeir virtust trúa því að við styttingu yrði námið betra. Flestir létu þó glepjast af vilyrðum um að eftir styttinguna héldust fjárveitingar til framhaldsskóla óbreyttar þannig að framlag fyrir hvern nemanda hækkaði. Framganga þessara skólameistara er skýr vitnisburður um afstöðu þeirra til menntunar. Í stað þess að verja nám á framhaldsskólastigi eins og þeim bar að gera voru þeir ginnkeyptir fyrir hærri fjárframlögum frá ríkinu. Nú barma þeir sér yfir því að stjórnvöld lækki fjárveitingar til framhaldsskóla í samræmi við þá fækkun nemenda sem hlýzt af styttingu námsins og tala um svikin loforð. Þó höfðu margir bent á að stytting framhaldsskólans væri fyrst og fremst sparnaðarráðstöfun af hálfu ríkisins. Þeir skólameistarar sem greiddu fyrir styttingunni hafa gerzt sekir um alvarleg mistök svo ekki sé dýpra í árinni tekið. Þá ber einnig að gagnrýna að alltof fáir háskólamenn vöruðu við styttingunni (hér má þó lesa nokkur varnaðarorð). Þar er trúlega sinnuleysi um að kenna fremur en því að þeir hafi ekki áttað sig á afleiðingunum.
Um allnokkurt skeið hafa háskólakennarar kvartað yfir því að margir nemendur sem hefja háskólanám á Íslandi séu alls ekki nógu vel búnir undir slíkt nám. En þar sem háskólar hérlendis eru magndrifnir, þ.e. fjárveitingar til þeirra fara eftir höfðatölu nemenda, verða þeir eiginlega að taka við öllum þeim sem þar vilja stunda nám. Ef dregið yrði úr fjölda nemenda, t.d. með almennum inntökuprófum, leiddi það til lægri fjárveitinga til einstakra sviða, deilda og námsgreina. Því kjósa margir að loka augunum fyrir þeirri staðreynd að töluverður hluti þeirra sem hefja háskólanám hefur í raun ekki þá menntun og færni sem krefjast ætti af þeim.
Það gefur augaleið að stytting framhaldsskólans leiðir til enn verri undirbúnings þeirra sem ætla í háskólanám að loknu stúdentsprófi. Hér verður að hafa í huga að íslenzkir menntaskólar og aðrir framhaldsskólar sem útskrifa stúdenta eiga ekki aðeins að búa nemendur undir háskólanám á Íslandi heldur einnig í útlöndum þar sem meiri kröfur eru gerðar. Fyrir styttingu framhaldsskólans kom það stundum fyrir að nemendur sem sótt höfðu um inngöngu í erlenda háskóla fengu synjun vegna þess að þeir höfðu ekki lokið nógu mörgum einingum í ákveðnum grunngreinum. Eftir styttinguna mun fleirum reynast erfitt að komast í góða háskóla erlendis.
Óskandi væri að menntamálayfirvöld snéru af villu síns vegar og endurreistu fjögurra ára framhaldsnám og mörkuðu um leið þá stefnu að stytta grunnskólann. Sú stytting gæti verið liður í uppstokkun grunnskólastigsins sem nú er í mikilli kreppu eins og niðurstöður PISA-kannana sýna.
Í tengslum við þá ósk að framhaldsskólanám verði aftur lengt í fjögur ár má benda á hliðstæða lengingu í Þýzkalandi. Fyrir rúmum áratug réðust stjórnvöld þar í landi í að stytta menntaskólanám úr níu árum í átta án þess að skerða námsefni. Var það gert að kröfum atvinnulífsins líkt og hér – gegn vilja nemenda og foreldra. Afleiðingin var sú að álag jókst á nemendur og fleiri flosnuðu upp frá námi en áður. Baráttan fyrir því að námið yrði aftur lengt um eitt ár hefur nú skilað því að í langflestum vestur-þýzku sambandslöndunum (þ.e. öllum nema Saarlandi og borgunum Brimum og Hamborg) hefur námið ýmist verið lengt í níu ár eða nemendur hafa val um að ljúka því á átta eða níu árum (um þetta sjá frétt á Spiegel Online frá 6. apríl 2017). Nemendur sem ljúka menntaskóla á 9 árum útskrifast 19 eða 20 ára eftir því hvort þeir eru fæddir á fyrri eða síðari hluta árs. Eins og hér kemur fram hafa Þjóðverjar áttað sig á að almenn stytting menntaskólanáms var misráðin – og þeir bættu ráð sitt. Hvað gera menntamálayfirvöld á Íslandi?
Vart verður um það deilt að íslenzkt menntakerfi er í lægð um þessar mundir. Almenn stytting framhaldsnámsins er vissulega ekki til þess fallin að bæta ástandið heldur gerir hún það þvert á móti miklu verra. Enn er ekki orðið of seint að leiðrétta mistökin.
Höfundur er prófessor á hugvísindasviði Háskóla Íslands.