Snemma í janúar sat ég í Hannesarholti að bíða eftir því að vera hvað úr hverju kölluð upp á svið í fullum sal þegar maður nokkur vék sér að mér og spurði í kurteisum spurnartón: Ert þú Auður Jónsdóttir?
Já, sagði ég skelfd og gerði samstundis ráð fyrir að hann væri óeinkennisklæddur lögreglumaður að færa mér váleg tíðindi af syni mínum.
Geturðu komið með mér afsíðis? spurði maðurinn þá – sem ég og gerði og vissi ekki fyrr til en hann hafði afhent mér stefnu. Það var lítið annað að gera en að setjast upp á svið með stefnuna í fanginu og vona að áhorfendur myndu ekki eygja vandræðaganginn.
Hrossabóndi nokkur var búinn að stefna mér fyrir meint meiðyrði í pistli sem ég hafði skrifað hér í Kjarnann sumarið áður og krefja mig um milljón í skaðabætur, auk málskostnaðar og töluverðrar upphæðar í viðbót til að kosta einhvers konar hneisutilkynningar í Fréttablaðinu þar sem ég yrði að auglýsa það opinberlega ef ég myndi tapa málinu.
Tilfinningasöm skrif
Sem betur fer hafði ég haft rænu á að eyrnamerkja pistilinn sem aðsenda grein frekar en fastan pistil þar sem ég hafði í honum lýst yfir stuðningi við Andra Snæ Magnason í forsetakosningunum og því lenti fjölmiðill sem þarf á sínum lífskrafti óskertum að halda ekki í þessum bobba. Það var svosem enginn að stefna mér fyrir skoðun í forsetakosningunum en pistillinn fjallaði um náttúruvernd og náttúruspjöll og tilfinningasöm skrif út af því síðarnefnda höfðu leitt til þessa.
Reyndar hafði dóttir eiginkonu hrossabóndans hringt í systur mína og beðið hana að skila til mín að karlinn myndi ekki stefna ef ég bæðist afsökunar en þar sem ég hafði minna en engan áhuga á því þá fór sem fór, enda hafði sonur hrossabóndans ekkert verið að skafa utan af því þegar hann sendi mér tölvupóst sem endaði á þessum orðum: ... en í þetta sinn góða kemur það til með að kosta.
Bæ bæ parmesanostur
Allt þetta kom upp í hugann þar sem ég stóð úti á svölum áðan að borða gulrót og minna sjálfa mig á að kaupa parmesanost. Þá fór ég að spá í af hverju parmesanoststykki í íslenskri matvörubúð kostar álíka og vel úti látin máltíð á góðum ítölskum veitingastað í Berlín, þaðan sem ég er nýflutt heim, og í kjölfarið hvarflaði að mér að sennilega yrði ég að neita mér um parmesanost næstu misserin færi svo að ég þyrfti að borga hrossabónda alla þessa peninga út af einhverju sem ég skrifaði á hlaupum fyrir meira en ári síðan.
Lögfræðileg sálfræðihjálp
Um leið og lögsóknin kom upp í hugann byrjaði ég ósjálfrátt að stika um svalirnar í tilraun til að hugsa um hana í víðara samhengi og komast þannig hjá því að fyllast kvíða. Sjálf trúi ég því að áreiðanleg gögn bendi til þess að hrossabóndinn hafi farið átakanlega illa með land sem mér þykir vænt um, enda spölkorn frá æskuheimili mínu. En ég bý svo vel að eiga vinkonu sem er þaulreyndur lögfræðingur og meðeigandi í þungavigtar lögfræðistofu og þegar hún var búin að gefa mér nokkur ókeypis ráð (lesist sálfræðihjálp) varaði hún mig við að vera of bjartsýn, sama hversu góð gögn ég væri með í höndunum, því fólk hefði tilhneigingu til að trúa svo á eigin rökstuðning að það hætti að gera ráð fyrir því að málflutningur þess mætti sín minna og þá yrði sjokkið svo mikið.
Kvíðnir viðskiptakarlar
Þessi orð voru ekki beinlínis hjartastyrkjandi en hjálpuðu mér samt að sættast við tilhugsunina um að lifa í hugsanlega parmesanostalausri framtíð. Þessi góða vinkona mín hafði einnig ráðlagt mér að hringja frekar í sig en lögfræðing með taxtaklukku ef ég fyndi skyndilega til kvíða og óþæginda út af þessu.
Ég er ekkert kvíðin, hafði ég sagt, nokkuð kokhraust, og þóttist bara forvitin að prófa að upplifa ferlið, að vera stefnt, og vita hvernig það fúnkeraði.
Vinkona mín setti upp furðulegt samúðarglott og sagði að harðsvíruðustu viðskiptakarlar ættu til að finna fyrir kvíða við að fá stefnu.
Þá er ég bara ennþá harðsvíraðri en þeir, sagði ég og glotti líka. En það var þá. Og allt í einu, þarna úti á svölunum, fann ég fyrir óþægindum. Hvað ef ... ég þyrfti að borga allt þetta og kannski meira en ég gæti ímyndað mér? Þyrfti ég að hætta öllum sjálfstæðum skrifum og fara að vinna á auglýsingastofu? Hanna sölutexta fyrir karla eins og hrossabóndann. Einhvern tímann þurfti ég að skrifa kynningarefni (duldar auglýsingar) fyrir tímarit og það var um það bil það leiðinlegasta sem ég hef gert, hvort sem ég stóð í því að þjarka við einhvern snyrtivöruheildsala úti í bæ um að maður gæti ekki talað um nakið hár eða reyna að telja treglæsum veitingastaðaeiganda trú um að ég gæti hnoðað saman skárri setningu en hann.
Málsvörn mannorðsmorðingja
Strax í upphafi hafði ég spurt lögfræðinginn minn hvort ég gæti ekki bara fengið að sitja dóminn af mér, ef allt færi á versta veg. En það er víst ekki lengur í boði. Mig rámaði í að Gunnar Smári Egilsson hefði setið inni í Hegningarhúsinu fyrir einhver skrif um það leyti sem hann skrifaði bókina Málsvörn mannorðsmorðingja. Ég vann á ritstjórn hjá honum þegar ég var unglingur og rámaði líka í að hann hefði sagt alveg upptendraður að enginn væri alvöru blaðamaður fyrr en hann hefði fengið á sig stefnu. Þá fannst mér það mjög eftirsóknarvert.
Ekki lengur.
Hinn fullkomni glæpur
Lögfræðingurinn minn hafði talað um þöggun. Að stefnur og kröfur um skaðabætur væru talsvert notaðar til að þagga niður í óþægilegum röddum og það mætti ekki vanmeta sálfræðileg áhrif þeirra. Einhver annar, kannski vinkona mín, hafði sagt mér að það væri sérstaklega áberandi þegar þagga þyrfti niður í þolendum kynferðisofbeldis og talsmönnum náttúruverndar.
Ef ég hef sagt eitthvað glannalegt axla ég að sjálfsögðu ábyrgð og fæ mér vinnu á auglýsingastofu. Og í rauninni verður forvitnilegt að vita hvort sé talið glæpsamlegra að eyðileggja jörð, eins og ég trúi að hafi verið gert, eða skrifa eitthvað tilfinningaþrungið um slíka eyðileggingu. Ég er alin upp við að það sé rangt að rífa upp mosa, hvað þá að beita fjölda hesta á hann til lengri tíma, enda mosinn svo lengi að vaxa að ég læt mig alveg hafa það að fórna parmesanostinum fyrir hann.
En það þýðir samt ekki að ég ætli að þegja. Mér hafði verið ráðlagt að segja sem minnst meðan málið er í farvegi. Reyndar rámar mig í að einhver hafi haldið því fram að dómari hafi þyngt dóm yfir Ingvari Þórðarsyni þegar hann hafði tekið þátt í bankaráni og skrifað um það bókina Hinn fullkomni glæpur (sel það ekki dýrar en ég keypti það). Geðpillan mín er að þegja ekki. Því tilhugsunin um að hafa stefnu vomandi yfir mér gerir mig taugaveiklaða og til þess er leikurinn kannski gerður. En þegar ég verð taugaveikluð þarf ég að skrifa ...