Á dögunum kynnti Menntamálastofnun niðurstöður lesfimiprófa sem voru lögð fyrir íslenska grunnskólanemendur í fyrsta skipti skólaárið 2016–2017. Rannsóknir og miðlægar stöðukannanir á námsgetu ungmenna eru þarfaþing fyrir skóla og kennara til þess að geta mætt nemendum á þeirra forsendum en þeim má ekki ofgera. Leshraði nemenda er vissulega mikilvægur en þegar upp er staðið er það lesskilningurinn sem skiptir mestu máli og honum fer aftur. Ljóst er að orðaforði ungmenna hefur dvínað, orðaforðinn breytist með tímanum og mörg ungmenni skilja ekki algeng orð þá sýna rannsóknir einnig að þeim fækkar sem lesa sér til gagns og gamans. Eftir sem áður er það þó alltaf lestur sem skiptir höfuðmáli.
Hvetjandi lestrarumhverfi
Lykilinn að bættu og hvetjandi lestrarumhverfi barna og ungmenna er að finna bæði í skólum og inni á heimilum. Í skólum eru skólabókasöfn sem þurfa að búa yfir æði fjölbreyttu lesefni en það kostar fé sem virðist, einhverra hluta vegna, af skornum skammti í menntakerfinu öllu. Það er því fagnaðarefni að Reykjavíkurborg hyggst leggja fé til bætts bókakosts skólasafna og vonandi að sveitarfélög veiti styrki til hins sama. Yndislestur, þar sem nemendur velja sér bækur sem hæfa þeim og vekja áhuga, þarf að efla og ætti hann að vera eðlilegur hluti alls grunn- og framhaldsskólanáms. Enn fremur skipta ýmsar uppákomur innan skóla miklu máli. Lestrarátak Ævars vísindamanns r gott dæmi um vel heppnaðan viðburð og frábært framtak einstaklings. Stóra upplestrarkeppnin í 7. bekk skiptir hér einnig máli sem og sú Litla sem haldin er víða um land í 4. bekk á vegum Radda, samtaka um vandaðan upplestur og framsögn. Allir viðburðir sem snerta lestur skipta máli.
Heima skipta foreldrar og forráðamenn öllu máli. Lestrarþjálfun fer fram heima og það er á ábyrgð okkar foreldranna að börnin séu vel læs, hafi lesskilning og nægan orðaforða. Börn og ungmenni verða að lesa heima sér til gagns og gamans að minnsta kosti fimm daga vikunnar. Foreldrar þurfa líka að lesa fyrir ungmenni og ættu ekki ekki hætta því eftir að börnin verða læs. Þannig eykst orðaforði þeirra og gæðastundum fjölgar. Vissulega er bakgrunnur nemenda misjafn og þarf skólinn að gæta að því að allir nemendur standi jafnfætis þegar kemur að bókakosti og lestri.
Vafasamt Evrópumet
Við Íslendingar erum kappsöm þjóð og eigum ýmis vafasöm met. Eitt þeirra er Evrópumet í netnotkun. Netnotkun barna og ungmenna er víða hömlulaus og ekki settar um hana reglur. Netnotkun okkar fullorðna fólksins er líka mikil og það er okkar að setja sjálfum okkur og börnunum mörk og vera þeim fyrirmynd. Skjágláp ungmenna er tímaþjófur sem bitnar á ýmsum námsþáttum. Efnið sem flestir horfa á er ekki á íslensku og hefur það því bein áhrif á orðaforða og lesskilning. Það er því sannkallað kappsmál að tapa forystunni í netnotkun.
Munaðarvara
Undanfarin ár hafa sprottið upp fjölbreytt og spennandi bókaforlög sem sérhæfa sig í útgáfu bóka sem henta mismunandi aldri. Líklega er úrval lesefnis á íslensku meira núna en það hefur verið áður en stóra spurningin er: Hve lengi varir það? Um daginn barst sú sorgarfrétt að bóksala hefði hrunið. Margar hindranir standa í vegi íslenskra bóka en sú sem ráða má best við eru álögur á bækur. Á Íslandi eru bækur munaðarvara sem fólk með meðaltekjur veigrar sér við að kaupa. Ráðamenn, sem á hátíðarstundum tala um gildi íslenskrar tungu og gefa út læsissáttmála ættu að sjá sóma sinn í því afnema álögur af bókum og auðvelda almenningi að nálgast það sem skiptir lesfimi allra mestu máli, bækur.
Höfundur er framhaldsskólakennari og formaður Samtaka móðurmálskennara.