Flest fólk í nútímasamfélagi nýtir sér fréttir og miðla til að auka þekkingu sína og fræðast um hvað sé á döfinni í samfélaginu, nær og fjær. Á tölvuöld nýtum við fjölmiðla einnig til afþreyingar og er framboðið meira en venjuleg manneskja getur nokkru sinni neytt á heilli ævi. Hlutverk fjölmiðla er einnig gríðarlega mikilvægt í lýðræðisríkjum og ber öllum saman um að þeir séu grundvöllur fyrir lýðræðislegri umræðu og veiti stjórnvöldum aðhald. Þeim ber einnig skylda til að upplýsa almenning um hin ýmsu mál og að rýna dýpra í mál sem skipta máli fyrir samfélagið. Engum blöðum er um það að fletta að öflugir fjölmiðlar eru mikilvægir fyrir lýðræði hvers ríkis og er ekki ofsagt að þeir séu fjórða valdið.
En í hraða vefmiðlanna þar sem hver miðill keppist um „klikkin“ þá eru meiri líkur á að eitthvað skolist til eða fari úrskeiðis. Hraðunnar fréttir eru daglegt brauð og eru það ekki síst blaðamennirnir sem líða fyrir ástandið með miklu álagi í starfi. Ekkert pláss er fyrir mistök og þeim er refsað á samfélagsmiðlum fyrir vikið. En ábyrgð þeirra er einnig mikil. Ábyrgð þeirra til að starfa faglega og vinna vinnuna sína án þess að særa aðra að óþörfu. Hér glyttir í skuggahlið fjölmiðla þar sem óafturkræft tilfinningaleysi gerir líf fólks óbærilegt og er ákveðin tegund af ofbeldi.
Slegið á fingur blaðamanna
Í æsingnum við aðalmeðferð í máli Thomasar Möller Olsen, sem ákærður er fyrir morðið á Birnu Brjánsdóttur, fór ýmislegt úrskeiðis hjá fjölmiðlum. Nákvæmar lýsingar og sjokkerandi fyrirsagnir mátti sjá á mörgum miðlum, svo ömurlegar að mér dettur ekki í hug að hafa þær eftir. Móðir Birnu lét í sér heyra og mótmælti með hjálp prestsins Vigfúsar Bjarna Albertssonar og síðan almennings. Fjölmiðlar tóku við sér og sjá mátti dagana á eftir að áherslurnar voru breyttar. En skaðinn var skeður. Orð hafa verið rituð og eru sýnileg í þessum heimi sem aldrei verða tekin til baka eða „afséð“. Eftir sitja aðstandendur með bullandi áfallastreitu og vanlíðan sem hefði verið hægt að komast hjá með örlítilli natni og fagmennsku.
Blaðamaður einn ritaði að beðið hafi verið eftir aðalmeðferðinni með eftirvæntingu. Spurning hvort hann hafi ekki komið upp um sig og eigin tilfinningar því ekki stóð almenningur á öndinni eftir því að fá að vita hvert einasta smáatriði í vitnaleiðslum eins og seinna kom í ljós. Margir hverjir stóðu með aðstandendum og blöskraði þessar lýsingar. Nánast enginn vildi svona fréttaflutning og þá hljótum við að velta því fyrir okkur hverjum blaða- og fréttamenn voru að þjóna. Sinni eigin metnaðargirni? Voru þeir virkilega að uppfylla hlutverk sitt til upplýsingar almennings?
Forðast skal að valda óþarfa sársauka
Siðaregur starfsstétta eru 20. alda fyrirbæri sem ruddi sér til rúms þegar samræma þurfti það hyggjuvit og skynsemi sem fólk alla jafna ber. Margar starfsstéttir hafa komið sér upp siðareglum til að skýra hlutverk þeirra og setja almennar reglur sem fólk getur litið til ef vafi leikur á hvað rétt og rangt sé að gera. Tilfinningar og heilbrigð skynsemi eiga að geta leitt okkur áfram í daglegu lífi og starfi en þegar ágreiningur verður eða þegar rökstyðja þarf ákveðnar gjörðir er gott að hafa siðreglur á reiðum höndum.
Siðareglur blaðamanna eru frá árinu 1991 sem þýðir að þær eru 26 ára á þessu ári. Fyrsti úrskurður siðanefndar var árið 1998 en síðan þá hafa fjölmörg mál komið fyrir siðanefnd. Mjög oft hefur þriðja greinin komið við sögu en hún hljóðar svo:
Blaðamaður vandar upplýsingaöflun sína, úrvinnslu og framsetningu svo sem kostur er og sýnir fyllstu tillitssemi í vandasömum málum. Hann forðast allt, sem valdið getur saklausu fólki, eða fólki sem á um sárt að binda, óþarfa sársauka eða vanvirðu.
Að mínu mati er þetta ein mikilvægasta greinin í siðareglunum. Hún segir svo margt í aðeins tveimur setningum. Þetta er í raun mjög einfalt: Ekki meiða að óþörfu. Sýna tillitssemi. Vanda upplýsingagjöf.
Hlutverk og siðareglur stangast á
Hér komum við loksins að núningnum sem virðist kannski einfaldur við fyrstu sýn. Ef hlutverk fjölmiðla er að greina frá atburðum og túlka þá er þeim þá heimilt að gera það hvernig sem er? Svarið er auðvitað nei. Þeir verða alltaf að vinna faglega og hafa siðareglurnar til hliðsjónar við allt sem þeir gera. Því afleiðingarnar af því að gera það ekki eru miklar og alvarlegar fyrir þá sem eiga í hlut.
Formaður blaðamannafélagsins Hjálmar Jónsson sagði í viðtali við Vísi þann 1. september í sambandi við ákvörðun dómarans að hafa lokað þinghald: „Ég skil það sjónarmið að umfjöllun sé þungbær fyrir aðstandendur. En því verður ekki breytt að þessi óhemju sorglegi atburður gerðist. Fjölmiðlar eru að framfylgja sínu hlutverki og skyldu.“ Hér staldraði ég við. Enginn var að halda því fram að fjölmiðlar bæru ábyrgð á því sem gerðist. Þeir bera auðvitað bara ábyrgð á sjálfum sér og verða að geta verið sjálfsgagnrýnir. Þeir verða að geta tekið ábyrgð á eigin hegðun og ekki skýla sér bak við að þeir séu einungis að greina frá atburðum, að segja sannleikann eða að framfylgja ákveðnu hlutverki.
Skaðlegt fyrir alla
Í skrifum á borð við þau sem prýddu flest alla vefmiðla í kringum aðalmeðferðina mátti sjá ákveðna firringu. Manneskjan sem varð fyrir voðaverkinu gleymdist og allir sem henni tengjast. Umfjöllunin hefur nú haft alvarleg geðræn áhrif á þá sem stóðu Birnu Brjánsdóttur næst. Þessi skrif eru beinlínis viðbótaráfall fyrir aðstandendur og einangra þá ennþá meira. Móðir Birnu verður til að mynda marga mánuði að jafna sig á fréttaflutningi og það er ekki hennar sök.
Já, þessi hryllilegi atburður átti sér stað. Ung stúlka var drepin hrottalega með köldu blóði og munu þau sár aldrei gróa. En blaða- og fréttamenn verða að finna samkenndina hjá sér og íhuga vel á hvaða vegferð þeir eru. Eru nákvæmar lýsingar úr krufningaskýrslu það mikilvægar að geðheilsu fjölda fólks skuli varpað fyrir róða?
Slík umfjöllun er einnig skaðleg fyrir okkur öll sem manneskjur. Við rjúfum tengslin við fólkið og atburðinn með því að fjalla svo vélrænt um málið. Auðvitað verður fjallað um málið í fjölmiðlum en hjá því verður ekki komist. En það verður að gera það með þriðju grein siðareglnanna í huga. Með tillitssemi og með því að forðast að valda óþarfa sársauka. Því annars klippa blaðamenn á tengslin við þjóðina sjálfa og samkenndina. Þessir atburðir gerðust ekki í kvikmynd. Þeir gerðust fyrir dóttur, systur og vinkonu einhvers sem á ekki skilið að vera sýnd slík vanvirða. Þess vegna er mikilvægt að blaðamenn og fjölmiðlar hafi hæfni til að setja sig í spor annarra og geti tekið ábyrgð á því hvernig þeir vinna og fjalla um atburði.