Að mati Umhverfisstofnunar Evrópu eru loftgæði á Íslandi ein þau bestu í Evrópu. Við viljum að sjálfsögðu halda þeim og eigum ekki að láta heilsuspillandi loftmengun í léttu rúmi liggja. Það gildir um mengun frá bílum, verksmiðjum og jarðhitavirkjunum – og á að sjálfsögðu einnig við um skip.
Áhrif útblásturs frá skipum á loftgæði í þéttbýli hafa eflaust ekki verið skoðuð nægjanlega hingað til. Með fjölgun skemmtiferðaskipa sem hafa viðkomu í höfnum víðs vegar um landið er tímabært að meta ítarlegar áhrif útblásturs frá þeim, ekki síst á loftgæði og heilsufar íbúa í nágrenni hafna. Umhverfisstofnun hefur þegar tilkynnt að hún hyggist auka við mælingar á loftgæðum í nágrenni hafnarsvæða svo hægt sé að grípa til aðgerða ef niðurstöður sýna að loftmengun er umfram leyfileg viðmið. Ég mun styðja stofnunina í að efla vöktun og viðbrögð í þessum efnum.
Það er ástæða til að taka fram að skip hafa ekki leyfi til að brenna svartolíu við bryggju heldur verða þau að nota olíu sem hefur 0,1% eða lægra brennisteinsinnihald eða tengjast landrafmagni. Það breytir þó ekki þeirri staðreynd að bruni þeirrar olíu veldur einnig mengun og útblástur frá risastórum skipum með marga reykháfa hefur slæm áhrif á loftgæði í nærumhverfi. Því þurfum við að breyta. Í aðgerðaáætlun í loftslagsmálum sem nú er í vinnslu er til dæmis verið að skoða hvernig megi rafvæða helstu hafnir landsins svo skip geti raftengst við bryggju.
Ég hyggst beita mér fyrir að notkun svartolíu í íslenskri lögsögu verði hætt. Fyrir því liggja veigamikil rök. Losun brennisteins og fleiri mengunarefna er meiri frá svartolíu en öðrum helstu gerðum eldsneytis. Loftslagsáhrif olíunnar eru talin vera meiri en af öðrum gerðum eldsneytis. Sótmengun af völdum svartolíu eykur bráðnun íss og hreinsun svartolíu er sérstaklega erfið á köldum svæðum. Alþjóða siglingamálastofnunin (IMO) setti þannig nýverið fram tillögur um hertar reglur varðandi notkun svartolíu á heimskautasvæðunum og Ísland styður þær heilshugar.
Samkvæmt skýrslu Umhverfisstofnunar frá 2016 er um fjórðungur orkunotkunar íslenskra skipa svartolía. Markmið okkar ætti að vera að íslensk skip skipti svartolíu út fyrir minna mengandi eldsneyti og til lengri tíma að loftslagsvænir orkugjafar séu nýttir í skipum.
Fyrsta skref í átt að banni á brennslu svartolíu í íslenskri lögsögu er fullgilding VI. viðauka MARPOL-samningsins sem gengur í gegn á næstu vikum. Þá er hægt að leggja til strangari kröfur í íslenskri lögsögu á vettvangi IMO. Vert að þó að hafa í huga að það ferli mun taka nokkurn tíma.
Minni mengun frá skipum bætir loftgæði og ímynd okkar Íslendinga sem þjóðar sem heimtir auð úr hreinu hafi. Hér eru starfandi fyrirtæki sem bjóða upp á lausnir sem draga úr eldsneytisnotkun og mengun skipa svo það er ekki eftir neinu að bíða með að gera enn betur.
Höfundur er umhverfis- og auðlindaráðherra.