Í hvirfilvindinum sem gustað hefur um íslensk stjórnmál síðustu daga hefur birst glögglega kunnuglegt ferli. Atburðarás sem á sér hliðstæður í nokkrum síðustu uppákomum íslenskra stjórnmála. Þarna er rauður þráður (eða raunar kannski blár frekar):
Þetta byrjar oftast með (a) bommertunni. Lögbroti, siðleysi, vandræðagangi eða misstigi af einhverri vondri gerð. Svo sem peningum í skattaskjólum, geðþóttaráðningum dómara, uppgripum á auðlindum, áskrift að almannafé, félagsskap við vonda gaura o.s.frv. Næst byrjar jafnan (b) leynimakkið. Reynt að drepa á dreif og halda málum í þoku með tiltækum ráðum. T.d. véfengja rétt fjölmiðla til að sækja opinber gögn eða stilla málpípur sínar á háværa þögn. Þá fer gjarnan af stað (c) rægingarherferðin sem oft er gegn einstaklingum sem tjá sig, hópum sem stíga fram eða óvina-stjórnmálaflokkum. Síðast en ekki síst fjölmiðlum eða stökum fjölmiðlamönnum. Að lokum fer svo fram (d) hvítþvotturinn. Hann byggir jafnan á stýrðri og fallegri framkomu snyrtilegs forsvarsmanns sem misbýður ábyrgðarleysi hins versnandi heims. Yfirleitt með vel leikstýrðri blöndu af alvöruþunga og yfirkeyrðri einlægni. Smjörklípunni er oftast beitt á þessu stigi í endann til stuðnings.
Við þekkjum öll þessa atburðarás og getum séð fyrir okkur einstök mál og leikendur, hvort sem við viðurkennum það eða ekki. Og það er grafalvarlegur undirtónn á bak við hana. Þetta er birtingarmynd þess hvernig valdastéttin í landinu ver stöðu sína. Gegnum súrt og sætt. Ættir, auðlindahafar, auðfólk, fyrirtæki eða hagsmunahópar. Passað að hver verði á sínum stað. Haldi sínu. Þetta eru kallarnir sem passa upp á kallana sína.
Við þessu er raunverulega ekkert að gera. Nema kannski eitt: hætta að kjósa þessi öfl til valda.
Höfundur er sveitarstjórnarmaður fyrir Vinstri græn