Ég hlustaði á bollaleggingar stjórnmálafræðings á dögunum um hver yrðu átakamál komandi kosninga. Snerist umfjöllunin aðallega um hvort atburðir undanfarinna daga, þar sem áherslan hefur verið á ávirðingar einstaklinga, muni setja mark sitt á þær eða hvort mál sem varða líf okkar og afkomu; efnahagsmál, heilbrigðis- og menntamál, muni taka yfir. Hvergi var minnst á mál, sem sumir telja jaðarmál, eins og nýja stjórnarskrá, í þessu sambandi. Hér vil ég færa rök fyrir því að ný stjórnarskrá, a.m.k. ákveðnir hlutar hennar, séu eitt stærsta efnahagsmálið á Íslandi í dag.
Þessir hlutar hennar eru þær lýðræðisumbætur sem hún felur í sér, umbætur sem voru og eru krafa Búsáhaldabyltingarinnar – jafnvel mætti halda fram að byltingunni verði ekki lokið fyrr en þær eru orðnar að veruleika. Lýðræðisbætur nýrrar stjórnarskrár stjórnlagaráðs felast aðallega í tveimur greinum; 65. greininni, þar sem málskotsrétturinn, möguleikinn á að fella lagafrumvörp, er settur í hendur almennings og hins vegar 66. grein, þar sem kjósendur geta lagt fram þingmál. Færa má rök fyrir því að síðarnefnda ákvæðið sé enn mikilvægara en það neitunarvald sem málskotsrétturinn veitir. Almenningur hefur mun meiri möguleika á að hafa áhrif á líf sitt og samfélagið með því að geta komið málum á dagskrá heldur en neitunarvaldið gagnvart meirihluta alþingis veitir.
Og hvað kemur þetta efnahagsmálum við? Undanfarna áratugi hefur pólitíska kerfið verið ófært um að leiða til lykta flest stærstu átakamál sem við okkur blasa. Þar á ég við mál eins og stöðu okkar í Evrópu, krónuna og sjávarútvegsmál. Hagsmuna- og íhaldsöfl í samfélaginu hafa í gegnum pólitísk áhrif sín komið í veg fyrir breytingar, komið í veg fyrir að við sem þjóð gætum tekið ákvarðanir í þessum efnum. Þannig hefur ákveðnum mikilvægum þáttum samfélagsþróunar okkar verið haldið í rembihnút sem pólitíska kerfið hefur verið ófært um að leysa eða skera á. Lýðræðisumbætur nýrrar stjórnarskrár gefa almenningi kost á að skera á hnútinn, gera okkur mögulegt að taka ákvarðanir sem við sem þjóð höfum hingað til verið ófær um að taka.
Efnahagslegur ávinningur þess að útkljá þessi mál er gríðarlegur. Kostnaðurinn við að halda úti eigin mynt hleypur á hundruðum þúsunda á ári fyrir hvern Íslending. Valkostir okkar á því sviði verða ekki ljósir fyrr en við ákveðum hvort við ætlum að stíga skrefið til fulls inn í Evrópusambandið eða ekki. Fullar tekjur af sameiginlegum auðlindum okkar fást ekki fyrr en við förum að innheimta fullt markaðsverð fyrir þær þar sem því verður við komið. Ég fullyrði að meirihluti landsmanna vill sjá breytingar í þá átt og að málinu verði kippt úr því nefndarþófi sem það hefur verið allt of lengi.
Ef kosið verður í nóvember er tæknilega mögulegt að breyta stjórnarskránni varanlega á tveimur þingum fyrir áramót. Þótt aðeins fengjust samþykktar 65. og 66. grein stjórnarskrár stjórnlagaráðs, hefði það gríðarleg áhrif.
Höfundur er framkvæmdastjóri Múltikúlti íslensku og Pírati