Það er svo upplýsandi að taka þátt í pólitík. Ekki síst á ögurstundu, því þegar hratt er hlaupið kemur hið sanna eðli í ljós. Þegar höggið er snöggt, kemur sparkið á undan viljastýrðu viðbragði, líkt og þegar slegið er á hnéskeljarsin.
Ég er óendanlega stolt og þakklát fyrir að hafa upplifað hnéskeljarviðbragð Bjartrar framtíðar á fimmtudaginn var. Höggið kom þegar ljóst var að tveir ráðherrar í ríkisstjórninni sem við áttum aðild að, sjálfur forsætisráðherra og ráðherra dómsmála, hefðu tekið eiginhagsmuni fjölskyldu þess fyrrnefnda og eigin flokks fram fyrir almannahag.
Okkar viðbragð, samstillt og úr mörgum áttum um leið var: Hingað og ekki lengra! Þetta hættir hér og hættir strax.
Hnéskeljaviðbrögð annarra flokka fylgdu í kjölfarið. Hjá Sjálfstæðisflokki er það viðbragðið hroki.
Heimsmet í heimsku?
Það er ekki eins og við höfum ekki séð svipuð viðbrögð áður úr þessari átt, hér er ekkert sem kemur á óvart.
Þegar hnéskeljarviðbragðinu sleppir tekur við hreyfing af yfirlögðu ráði. Hún er líka fyrirsjáanleg og upplýsandi. Skoðum fyrstu sporin:
Þetta eru kjánar, þau hlupu á sig. Engar almennilegar flokksrætur vinna svona hratt, hvað þá yfir internet. Rafræn kosning!
Takk fyrir þetta.
Kíkjum aðeins á kjánana, hvaða fólk var þetta, hver er þessi bráðláta grasrót og hvert liggja rætur hennar? Án þess að nefna nöfn (listann yfir stjórnarmeðlimi má finna á heimasíðu Bjartrar framtíðar á hinu alræmda interneti) þá er auðvelt að draga upp mynd af rótunum sem lágu saman inn á þennan stjórnarfund umrætt kvöld: Atvinnulíf, félagasamtök, menning, ferðaþjónusta, háskólasamfélag, markaðsmál, stjórnsýsla, þingið, sveitastjórnir, skipulagsmál, almannatengsl, blaðamennska, starfsmannastjórn, nýsköpunargeirinn, utanríkismál, leikhús, listir, seðlabanki, stóriðja, réttindamál, skóla- og menntamál, löggæsla, sjálfboðastörf, ungmennastarf, heilbrigðismál, stjórnmálafræði, landbúnaður. Bara svona til að nefna eitthvað.
Pólitísk reynsla á fundinum var líka ærin. Löng og mikil þekking úr gömlu flokkunum, sem og reynsla af samstarfi við ráðherra og ríkisstjórnir, á ólíkum tímum og ólíkum gerðum.
Semsagt ekkert rótleysi hér á ferð, heldur þvert á móti þéttofið kerfi af haldgóðri innsýn í íslenskt samfélag og íslenska pólitík. Við vitum hvað við erum að glíma við.
Ákvörðun sem tekin er hratt hlýtur að vera illa ígrunduð
Því fer fjarri. Reyndar hefur ekki ennþá komið fram í opinberri umræðu, eftir ríkisstjórnarslitin, sjónarhorn sem ekki var þegar búið að velta upp í umræðunni á fundi Bjartrar framtíðar.
Hefðum við til dæmis átt að krefjast afsagnar Bjarna og Sigríðar og sitja áfram? Sú leið var skoðuð og metin ófær, enda ógerlegt fyrir ráðherra að lýsa vantrausti á eigin forsætisráðherra. Ákveðið var að sjá hver viðbrögðin yrðu, ef svo ólíklega skyldi fara að Sjálfstæðisflokkurinn viðurkenndi mistök sín og skipti út fólki, væri alltaf hægt að skoða málin í framhaldi af því. Sú staða hefur ekki komið upp. Það kemur því miður ekki á óvart.
Hefðum við átt að bíða lengur og ræða við hlutaðeigandi? Um hvað hefði það samtal átt að snúast? Staðreyndir málsins lágu, og liggja, fyrir. Eftiráskýringar ráðherranna sem nú eru bornar á borð breyta engu um það, þær standast ekki skoðun.
Besta forspá um framtíðina er fortíðin. Þetta var ítarlega rætt. Miðað við aldur og fyrri störf yrði ferlið sem nú tæki við mjög keimlíkt lekamálsferlinu hjá Hönnu Birnu. Fyrst yrði neitað, svo neitað aðeins lengur, svo ásakanir látnar ganga í allar áttir, svo neitað aðeins meir. Þangað til peðinu yrði fórnað fyrir kónginn. Konunni fyrir soninn. Það ferli virðist þegar hafið. Undir þá mulningsvél ákváðum við að leggjast ekki.
Grasrót eða torfþak?
Það virðist vera náttúrulegt þroskaferli fjöldasamtaka að umbreytast í stofnanir. Stjórnmálaflokkar byrja með því að fjöldi fylkist saman, með eða án leiðtoga, og þróast smám saman yfir í maskínu með grasrótarofnæmi sem skilur ekki milliliðalaus samskipti eða beina aðkomu félagsfólks að ákvarðanatöku.
Flokkur þar sem grasið er komið upp á þak og horfið undan fótunum þarf að hugsa sinn gang. Rætur hans eru aðþrengdar, undir þeim er loftið eitt og sums staðar púkar á bitum.
Afvegaleiðing
Sú umræða sem nú er verið að mata í fjölmiðla (takið vel eftir hvar hún birtist), er ekkert annað en afvegaleiðing. Það er verið að beita gömlu trikkunum í bókinni, úr kaflanum með hauskúpunni á spássíunni. Missum ekki sjónar á aðalatriðum, gleymum ekki staðreyndum.
Björt framtíð hljóp ekki á sig. Við gerðum áhlaup að vel athuguðu máli.