Um daginn hrukkum við upp við að íslenskir stjórnmálamenn voru aftur komnir í neikvæðu ljósi í erlenda fjölmiðla. Ástæðan: skandall. Og ekki í fyrsta sinn. Skilaboðin sem fóru út í heim fengu fólk til að tengja íslenska stjórnmálamenn við barnaníð. Það var birtingarmyndin þó að raunveruleikinn væri flóknari. Birtingarmyndin minnti á skáldsögu eftir Svíann Stieg Larsson: ríkir karlar og stúlkubörn. Og íslenska ríkisstjórnin fallin í þriðja skipti á tæpum áratug. Maður varð ekki hissa þegar fregnir bárust af því að gengi krónunnar hefði veikst og tugir milljarða gufað upp á hluta- og skuldabréfamörkuðum. Þessi birtingarmynd er svo yfirgengilega vandræðaleg að það verður ekki framhjá því litið að það er eitthvað mikið að hér heima, það hlýtur að vera fyrst þetta gat gerst. Úr því að skandalar og endurtekin stjórnarkreppa í íslenskum stjórnmálum rata aftur og aftur í heimspressuna.
Hvaða áhrif hefur það á erlendar fjárfestingar, trúverðugleika samfélagsins í augum umheimsins og það sem öllu máli skiptir: Fólkið í landinu sem lifir við að bág siðferðisviðmið séu rótin að því að hver ríkisstjórnin á fætur annarri springur á miðju kjörtímabili. Það er ekki hægt að lifa við það, eitthvað verður að gera.
Konum drekkt í þögn
Það kemur engum til góða að mála þessa atburðarás upp sem pólitískt mál. Niðurstaða þessarar framvindu er þverpólitískt ákall um virðingu fyrir manneskjunni. Að tilfinningalíf manneskjunnar megi sín einhvers gagnvart regluverkinu, kerfinu og hagsmunum einstaka stjórnmálamanna. Þetta er áminning um nýja tíma. Ósk um bætta menningu í stjórnkerfinu. Krafa um að gamlir stjórnarhættir víki fyrir nýjum, meðvitaðri og gegnsærri stjórnarháttum. Stjórnsýslan þarf að vakna og heilsa nýjum veruleika. Getur verið að hún fylgi ekki hugarfarsbreytingu sem hefur átt sér stað í samfélaginu? Einhvern veginn upplifir maður að stjórnsýslan vinni akkúrat öfugt við hana, upplýsingar skuli fara leynt nema þú getir sýnt fram á annað. Til hvers þessi leynd? spyr fólk. Er hún bara leyndarinnar vegna? Allt þetta sem gamlir siðir innrættu okkur að tala ekki um. Sama hvað það kostaði, hvern það kostaði hvað. Allt fyrir heiður hússins, valdsins, húsbændanna. Einu sinni drekktu íslenskir embættismenn konum í sérstökum drekkingarhyl fyrir að hafa verið nauðgað af húsbónda sínum. Það sögðu lögin þá. Nú mega þær kafna í þögn.
Kall tíðarandans
Öll litlu en samt stóru leyndarmálin sem mátti ekki nefna. Það var gamla Ísland. Allt sem viðkom veruleika kvenna og barna minna virði en lög og auðmagn. Ef Bjarni Benediktsson hefði bara stigið fram í sumar sem leið, skynjað tíðarandann og sagt: Þetta er neyðarlegt, faðir minn ábyrgðist barnaníðing, en gott fólk, getum við rætt þá staðreynd í trausti nýrra tíma og trausti samræðunnar? Við viljum ekki þessa gömlu tíma, gömlu menningu, þegar ríkir menn ábyrgðust aðra í skjóli valda. Nú vil ég trúa á breytta stjórnarhætti og gagnsæi, við skulum greina það sem gerðist og axla ábyrgð og ég er nú einu sinni talsmaður í HeForShe, UN Women.
Ef Bjarni Benediktsson hefði bara sagt eitthvað á þessa leið. Nógu snemma. Og án þess að byrja svo að fussa um leið, eins og á blaðamannafundi í Valhöll þar sem hann reyndi að segja hið rétta en gat svo ekki hamið sig og fór strax að hnýta í eitt og annað, búinn að leika sína rullu í leikritinu.
Reykfylltu bakherbergin margumtöluðu hafa dramatísk áhrif á veruleika kvenna og barna. Reykfylltu bakherbergin smætta veruleika kvenna og barna. Til þess voru þau fundin upp. Og kannski er ekki svo auðhlaupið að rata út úr þeim hafi maður á annað borð skipað sér sess í einu þeirra. Jafnvel þó að maður sé talsmaður í HeForShe.
Valdið viðheldur sér
Síðustu mánuði höfum við fylgst með átakanlegri baráttu. Fjölskyldufaðir að gæta dætra sinna, af innilegasta og einlægasta ásetningi, og um leið annarra sem hafa verið misnotaðir, og stjórnkerfið vinnur gegn honum. Manneskja reynir að fá kerfið til að betrumbæta sig, ekki til að hafa pólitísk áhrif á stjórnmálamenn, heldur bæta stjórnsýsluna, en kerfið lokar alltaf á hann eða véfengir orð hans. Í stað þess að þiggja ábendingar einhvers sem hefur innsýn til að koma hlutunum í betri farveg. Kerfið spyrnir gegn nýrri menningu. Tilhneigingin til að segja nei frekar en já af því að þú getur það. Er ekki miklu hugrakkara að segja já, þó að það flæki hlutina og bjóði upp á óvissu? Er óvissan endilega neikvæð? Er hún ekki frekar spennandi? Nú þegar allt er að breytast svona mikið. En eðli valdsins er að viðhalda sér og því kerfi sem tryggir að valdið sé á sínum stað.
Þroskuð fjölmiðlamenning
Nú er uppi sú krafa að upplifun okkar af veruleikanum sé gjaldgeng. Að tilfinningalíf og reynsla fólks sé jafn raunveruleg og orð á blaði eða regluverk. Að valdið geti ekki troðið niður hið mannlega eða hið kvenlega, horfi maður á valdið sem afsprengi feðraveldisins. Helsta vörn okkar og um leið helsti styrkur er að hlúa að fjölmiðlum og gera kröfu um þroskaða fjölmiðlamenningu. Því góðir, trúverðugir fjölmiðlar verja okkur fyrir sjálfum okkur. Fjórða valdið er valdið okkar ef við ræktum það. Valdið sem getur hjálpað hinum almenna borgara að leita réttar síns. Til að þessir nýju tímar, sem fólk talar um, verði að veruleika þarf að hlúa að gagnsæi og upplýsingagjöf. Það þarf að ríkja heilbrigt samspil fjölmiðla og stjórnmála, menning þar sem siðferðisviðmið ráða og fólk þarf að segja af sér við minnstu yfirsjón, ekki af persónulegum ástæðum heldur af því að slík menning notar siðferðisviðmiðin til að viðhalda sér. Upplýsingin er okkar von.
Von í nýrri stjórnarskrá
Ég er enginn sérfræðingur í stjórnarskránni. En ég bind samt vonir við þessar klausur sem hafa verið samdar fyrir nýja stjórnarskrá:
Í fimmtándu grein nýju stjórnarskrárinnar stendur: Upplýsingaréttur:
Öllum er frjálst að safna og miðla upplýsingum.
Stjórnsýsla skal vera gegnsæ og halda til haga gögnum, svo sem fundargerðum, og skrásetja og skjalfesta erindi, uppruna þeirra, ferli og afdrif. Slíkum gögnum má ekki eyða nema samkvæmt lögum.
Upplýsingar og gögn í fórum stjórnvalda skulu vera tiltæk án undandráttar og skal með lögum tryggja aðgang almennings að öllum gögnum sem opinberir aðilar safna eða standa straum af. Listi yfir öll mál og gögn í vörslu hins opinbera, uppruna þeirra og innihald, skal vera öllum aðgengilegur.
Söfnun, miðlun og afhendingu gagna, geymslu þeirra og birtingu má aðeins setja skorður með lögum í lýðræðislegum tilgangi, svo sem vegna persónuverndar, friðhelgi einkalífs, öryggis ríkisins eða lögbundins starfs eftirlitsstofnana. Heimilt er í lögum að takmarka aðgang að vinnuskjölum enda sé ekki gengið lengra en þörf krefur til að varðveita eðlileg starfsskilyrði stjórnvalda.
Um gögn sem lögbundin leynd hvílir yfir skulu liggja fyrir upplýsingar um ástæður leyndar og takmörkun leyndartíma.
Og Í áttundu grein nýju stjórnarskrárinnar stendur: Öllum skal tryggður réttur til að lifa með reisn. Margbreytileiki mannlífsins skal virtur í hvívetna.
Að lokum vil ég bara ítreka: Við erum að upplifa þverpólitískt ákall um virðingu fyrir manneskjunni. Að tilfinningalíf manneskjunnar megi sín einhvers gagnvart regluverkinu, kerfinu og hagsmunum einstaka stjórnmálamanna. Nú gefst okkur tækifæri til að gera þær samfélagsbreytingar sem við þurfum. Að skapa nýjan veruleika.