Framtíð lands og þjóðar hverfist um atvinnumöguleika okkar og leiðir til arðsköpunar, sem aftur stendur undir sameiginlegri velferð okkar. Um þessar mundir er margt að breytast í atvinnuháttum á Íslandi og Vesturlöndum almennt. Hér á landi er ráðandi hlutverk frumvinnslugreina í hnignun á sama tíma og þensla er í efnahagslífinu. Íslenskur orkuiðnaður er komin í ákveðið öngstræti, þar sem stóriðja af hverju tagi er nú útaf borðinu og orkukostum fækkar. Frekari orkuöflun mun byggja á jarðgufu sem inniber mun meiri áskoranir og óvissu heldur en vatnsafl. Afli sjávarútvegsfyrirtækja er fasti með kvótasetningu í helstu tegundum. Bæði kallar á nýsköpun sem byggir á stöðugri þekkingarleit og að fólk tileinki sér fjölbreyttari aðferðir og vinnulag. Ferðaþjónusta í núverandi mynd verður einnig að flokkast til hnignandi frumvinnslugreina, þar sem áhersla þar virðist helst á fjöldann sem þarf að þjónusta, líkt og afla sem þarf að gera að. Þar á bæ er þörfin fyrir nýjar nálganir, nýsköpun og skilning á eðli greinarinnar aðkallandi.
Það sem má lesa úr þessari stöðu núverandi lykilatvinnuvega er tvennt. Annarsvegar þarf að setja kraft í þekkingarleitina og skapa hér grundvöll þekkingarsamfélags. Hinsvegar þarf að skapa sveigjanleika í störfum, frama og vinnuævi fólks, þannig að það geti leitað á ný mið, t.d. á miðjum aldri. Til dæmis eignast nýjan starfsframa. Grundvöllur bæði þekkingarsamfélags og sveigjanleika er menntun. Hlutverk menntunar er að skapa grundvöll þess þekkingarsamfélags sem þarf að þróast á grunni hefðbundinna atvinnuvega landsins. Menntun þarf að geta búið fólk undir að leysa vandamál og skapa lausnir á hnattrænum grunni á tímum mikillar óvissu í t.d. umhverfismálum og hvert hagkerfi og efnahagslíf stefna með umbyltingum upplýsingatækni og þróun vitvéla. Menntun við þessar aðstæður þarf að snúast um lipurleika, næmni og sveigjanleika.
Líta má svo á að hér séu á ferðinni nýjar hæfnikröfur til að mæta breyttum samfélagsháttum og menntun þarf að marka hlutverk og tilgang á þessu umbyltingarskeiði. Menntun þarf að skilja sem umbreytingarferli einstaklinga. Einstaklingar taka ekki við námi sem þjónustu, þeir umbreytast af henni og verða aðrir. Til að að standa undir atvinnulífi og verðmætasköpun til framtíðar, þarf menntun að búa einstaklinga í haginn fyrir sveigjanleika, hæfni í stöðugri þekkingar og færnileit og næmni fyrir samfélagi og náttúru.
Þannig tel ég að besta leiðin til uppbyggingar atvinnulífs til framtíðar, sé fjárfesting í menntun. Við þurfum að margfalda framlög okkar til menntamála og skapa hér öfluga skóla á öllum stigum sem hafa ráðrúm til að þróast og breytast í takti við þarfir samfélagsins. Skólarnir okkar eiga ekki að þurfa stöðugt að berjast í bökkum og ströggla fyrir fjárveitingum, þeir eiga að hafa andrými til að leggja rækt við það sem starfsfólk skólanna gerir best, það er að hlúa að menntun nemenda. Til að tryggja öllum aðgang að slíkri menntun þarf þetta öfluga kerfi að vera í höndum hins opinbera. Í stað þess að svelta skólanna til að skapa „svigrúm til einkavæðingar“, segi ég að gefa skuli frekar í. Byggjum upp það skólakerfi sem við höfum, sækjum til þess þær tekjur sem þarf og leyfum skólafólki að fara að vinna vinnuna sína.