Við erum komin á ansi furðulegan stað sem samfélag. Það er mörgum ljóst að komið hefur upp siðferðisbrestur hjá stjórnvöldum. Sumir myndu segja að það þurfi einfaldlega vinstrisinnaða ríkisstjórn til að taka við og beina málum í réttan farveg. Aðrir myndu fullyrða að það þurfi almennilega hægrisinnaða ríkisstjórn. Þegar maður skoðar málið heildstætt liggur það í augum uppi að þessi klofningur milli hægri og vinstri stjórnmála er rót vandans.
Að styðjast við ímynd af stjórnmálum sem á rætur sínar að rekja til frönsku byltingarinnar skilar sér ekki í árangri á 21. öldinni. Við þurfum að vinna saman og vera með gagnsæja og skilvirka stjórnsýslu ef stjórnmálin eiga að hafa tök á því að fylgja örum breytingum samfélagsins á komandi árum. Hægri og vinstri stjórnmál eru í lamasessi um allan heim og ungt fólk hefur sífellt minni áhuga á að taka þátt í þeim. Við verðum að hugsa í nýjum pólitískum lausnum og byggja ákvarðanir ríkisvaldsins á gögnum og góðum rökum í stað geðþótta einstakra stjórnmálamanna.
Þegar kemur að ákvörðunum stjórnvalda þá virðast stjórnmálamenn ekki vera nógu duglegir að spá fyrir um þróun framtíðarinnar. Hvort sem það er ræktað kjöt, sjálfkeyrandi bílar eða notkun fólks á rafmynt á borð við Bitcoin þá virðast hefðbundnir stjórnmálaflokkar vera fastir einhvers staðar á síðustu öld. Þetta er allt saman dæmi um tækni sem á eftir að gjörbylta lífi okkar á næsta kjörtímabili en hefðbundin stjórnmál koma fram við þessa tækni eins og hún sé einhver vísindaskáldskapur sem kemur ekki fram fyrr en eftir marga áratugi.
Við þurfum skilvirkari stjórnmál, þar sem hægt er að komast að upplýstri niðurstöðu um mál hraðar svo hægt sé að bregðast við þeim breytingum sem samfélagið er að ganga í gegnum. Það er styttra en margir halda í það að næsta internetið mun gjörbylta samfélaginu og við erum langt frá því að vera undirbúin fyrir það. Það verður enginn stöðugleiki á Íslandi meðan við erum með stjórnmálamenn við völd sem halda í gömul og úrelt stjórnmál þar sem meirihlutinn ræður öllu. Það þýðir ekki lengur að taka ákvarðanir sem snerta almenning án þess að ráðfæra sig við almenning. Píratar hafa sýnt það í verki að við getum starfað í þágu stöðugleika og gert stjórnsýsluna opnari og skilvirkari. Það höfum við gert í borgarstjórn í meirihlutasamstarfi með þrem flokkum og við munum færa þær áherslur yfir á þingið ef við fáum tækifærið til þess.
Höfundur er formaður Ungra Pírata.