Ég viðurkenni fúslega að taka ríkisstjórnarslitin nærri mér en því miður var enginn annar kostur í boði. Það voru nefnilega ekki bara gildi og vinnubrögð sem okkur greindi á um, heldur skilningur á hlutverkum kjörinna fulltrúa á Alþingi.
Síðasti dagurinn á 147. Löggjafarþinginu var táknrænn í mörgum skilningi. Atkvæðagreiðsla um breytingu á lögum um útlendinga vakti þar mesta athygli. 38 þingmenn samþykktu breytinguna en 17 „voru á rauða takkanum“. Rökin fyrir rauða takkanum að þessu sinni voru popúlískari en nokkuð það sem ég hef séð hingað til og meira til hægri en villtasta hægrið. Og viðfangið var flóttamenn. Sjálfstæðismenn stóðu einir eftir þegar Björt framtíð sagði nei takk við óbragði sem fyllti vit okkar á síðustu metrunum í ríkisstjórnarsamstarfinu. Það var nefnilega þannig að þegar Björt framtíð stóð upp frá borðinu, sátu eftir 59 aðrir þingmenn og enginn hinna flokkanna treysti sér til að mynda ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokki í framhaldinu. Sjálfstæðisflokki sem ég velti nú fyrir mér hvort muni standa áfram einn og stór, þrátt fyrir að hafa sýnt ítrekað að honum er nákvæmlega sama um vilja almennings og kröfur sem gerðar eru til okkar sem vorum kjörin til að þjóna.
Birtingarmyndin var hins vegar í fleiri víddum en bara á rauða takkanum. Ung og falleg kona, nýskipaður varaformaður Sjálfstæðisflokksins mætti í sínu fínasta pússi til að tala fyrir minnihlutaáliti Allsherjar- og menntamálanefndar. Hún flutti þar ræðu sem snerist um það hversu slæmt fordæmi Alþingi væri að setja með því að veita u.þ.b. 80 börnum og fjölskyldum þeirra alþjóðlega vernd hér á landi. Hræðsluáróðurinn snerist um hættuna á mansali og kallaði okkur hin, sem viljum veita hælisleitandi börnum vernd hérlendis, óábyrg.
Framsögumaður meirihlutans var líka kona. 20 árum eldri, rótlaus innflytjandi úr litlum flokki en með dýrmæta reynslu og þekkingu af málefnum flóttamanna og hælisleitenda eftir veru sína við sjálfboðaliðastörf á Grikklandi í sumar. Hún mætti til leiks með ástríðu og skilaboð frá fylgdarlausum börnum á flótta. Og löngun til að lifa. Skilaboðin eru djúp. „My life is home“. Þessi kona var búin að átta sig á því að ábyrgð hennar snerist um að skerpa á kerfum og tryggja börnum mannúðlega meðferð innan þeirra. Og líka að vernda börn, m.a. fyrir mansali. Þessi kona veit að besta leiðin til að vernda þennan viðkvæmasta hóp flóttamanna er að efla samstarf milli Barnaverndarstofu og Útlendingastofnunar og styrkja þessar stofnanir ásamt lögreglu. Af því hver einasti dagur sem þau eru á flótta er dagurinn sem þau gætu átt á hættu að verða hneppt í mansal.
Ég er ekki ósammála öllu því sem dómsmálaráðherra hafði að segja um hælisleitendur. Mikilvægt er að vinna hratt og vel í umsóknum sem eru tilhæfulausar. Fylgdarlaus börn eiga ekki slíkar umsóknir. Og hvað ef þetta væru okkar eigin börn?
Hvert mannslíf er mikils virði og börnin eru framtíðin. Eitt barn er ekki meira virði en annað í þeim samanburði. Og eitt líf ekki mikilvægara en annað. Og þeir sem etja saman hópum sem eiga um sárt að binda, eins og gert hefur verið í pólitískum hráskinnaleik í íslenskum stjórnmálum eru að misbeita valdi sínu og vanvirða líf þessara minnihlutahópa.
Það sem er sérstakt við þetta allt er svo það að þessar tvær konur, hin unga fallega sem situr nú nýskipuð í stól varaformanns stærsta stjórnmálaflokks landsins, og hin sem varði sumarfríinu sínu við sjálfboðaliðastörf í flóttamannabúðum á Grikklandi í umönnun við hælisleitandi börn, sátu sömu fundi og hlustuðu á sömu sérfræðinga úttala sig um málefni flóttamanna. Einhvern veginn stóðu þær upp af þeim fundum með ákaflega ólíka sýn á vandamálið. Önnur hafði kjark til að tala fyrir umbótum, kerfisbreytingum og mannréttindum og lagði sig alla fram til að ná fram þeim vilja sem endurspeglast í samfélagi þeirra. Hin valdi að beita hræðsluáróðri og gróf þar með öll prinsipp og gildi sem Sjálfstæðismenn skreyta sig með á hátíðisdögum, í þeim tilgangi að verja viðhorf ráðherrans síns.
Höfundur er þingmaður Bjartrar framtíðar.