Í dag heyrast margar raddir þess efnis, sérstaklega hjá ungu fólki, að það sé til einskis að kjósa og því ætli þau sér að sitja hjá í komandi Alþingiskosningum. Kosningaþreyta er skiljanleg í þjóðfélagi þar sem gengið er til kosninga í þriðja skiptið á fjórum árum. Hins vegar má ekki gleyma því að kosningarétturinn er eitt það dýrmætasta sem við eigum.
Ég er nýkomin heim frá Barcelona þar sem Katalóníumenn berjast fyrir því að mega kjósa um sjálfstæði frá Spáni. Ríkisstjórnin á Spáni hefur gengið langt í að koma í veg fyrir að kosningarnar muni eiga sér stað. Á annan tug katalónskra embættismanna hafa verið handteknir, kjörseðlar og önnur kjörgögn gerð upptæk og mótmæli bönnuð. Auk þess hafa yfirvöld í Madrid tekið yfir stjórn héraðslögreglunnar í Katalóníu (c. mossos d’esquadra), en slíkt hefur ekki gerst síðan á tímum einræðisherrans Franco. Þjóðarlögreglan hefur verið send á staðinn í þeim tilgangi að koma í veg fyrir kosningar, kjósendum er hótað handtöku ef þeir taka þátt og forseta héraðsins, sem og ríkislögreglustjóra o.fl. handhöfum yfirvalds hefur verið hótað saksókn ef þeir koma ekki í veg fyrir kosningarnar. Samt ætlar fólk að mæta. Samt ætlar fólk að kjósa. Katalónskur vinur minn sagði að hann ætlaði að mæta jafnvel þó hann ætlaði að kjósa nei, því honum fannst mikilvægt að sýna afstöðu til þess hve mikilvægur kosningarétturinn væri.
Spánn er vestrænt Evrópuríki og er aðili að ESB. Þetta þýðir að kosningaréttur er ekki sjálfsagður, ekki einu sinni hérna í hinum vestræna, frjálsa heimi. Það að fólki finnist hann lítils virði dregur úr þeirri kjölfestu sem kosningaréttur ætti að vera í hverju samfélagi og eykur líkur á gerræðislegum ákvörðunum yfirvalda ef fólkið lætur sig ekki málin varða.
Barcelona er einungis nærtækt dæmi, víða í heiminum mega einstaklingar ekki kjósa, ef þú ert kona máttu ekki kjósa, ef þú tilheyrir tilteknum þjóðfélagshóp máttu ekki kjósa og sums staðar er einfaldlega ekki í boði að kjósa yfir höfuð.
Brexit er svo dæmi um hvað gerist ef ungt fólk lætur málin sig ekki varða. Metlág þátttaka ungs fólks var í þeim kosningum, en 70% af ungu fólki sem mætti kusu á móti. Það má spyrja að leikslokum ef fleira ungt fólk hefði mætt og kosið.
Kosningaréttur er grundvallarréttur í lýðræðisríki og það er mikilvægt að fólk láti raddir sínar heyrast með þessum hætti. Þó þér lítist ekki á neinn flokk geturðu allt eins valið skásta kostinn, nú eða engan og skilað þar með auðu. Aðalatriðið að fólk nýti sér þennan grundvallarrétt og láti í sér heyra. Þetta er helsta vald fólksins gagnvart þinginu, ÞÚ hefur val um hver situr á þingi.
Ef Katalónar ætla að mæta til að kjósa þótt þeir eigi það á hættu að vera handteknir, jafnvel þó þeir ætli að kjósa nei eða skila auðu, þá geta Íslendingar vel fjölmennt á næsta kjörstað og kosið með sinni sannfæringu. Annars breytist ekkert.
#ÉgKýs2017
Höfundur er alþjóðafulltrúi Ungliðahreyfingar Viðreisnar og fulltrúi Landssambands Ungmennafélaga í Innflytjenda- og mannréttindaráði Evrópu Unga Fólksins (YFJ)