Á undanförnum árum hefur umræða um kynbundið ofbeldi farið vaxandi hér á landi og mikill fjöldi kvenna og stúlkna stigið fram, m.a. á vettvangi samfélagsmiðla, og greint frá reynslu af kynferðisofbeldi og þannig lagt áherslu á að ekki verði lengur þagað um tilvist slíks ofbeldis og þann mikla vanda sem því fylgir.
Þegar fjallað er um kynbundið ofbeldi, og í forvarnarstarfi gegn því, hefur jafnframt verið lögð áhersla á að auka skilning ungs fólks á mörkunum milli kynlífs og ofbeldis og jafnframt að færa ábyrgð frá þolanda slíks ofbeldis til gerandans. Gott dæmi um það er stuttmyndin „Fáðu já!“ sem vakið hefur verðskuldaða athygli. Þá hafa dómar í kynferðisbrotamálum og frásagnir af meðferð nauðgunarmála innan réttarvörslukerfisins vakið viðbrögð og mótmæli í samfélaginu. Það er skylda þingmanna að sjá til þess að lögin séu sanngjörn og sporni gegn úreltum viðhorfum og það á sannarlega við hér.
Á síðasta ári leituðu 169 einstaklingar á neyðarmóttöku Landspítala vegna nauðgana en þeir hafa aldrei verið fleiri. Árið 2015 leituðu 145 einstaklingar til neyðarmóttökunnar. Þrátt fyrir þetta hefur nauðgunarkærum til lögreglu ekki fjölgað á sama tíma. Öll vitum við að mikill meirihluti þessara þolenda eru konur.
Nauðsynleg breyting á hegningarlögum
Í vor lagði ég fram, ásamt þingmönnum Viðreisnar, frumvarp sem hefur það að markmiði að draga úr kynferðisafbrotum og breyta viðhorfum með nútímalegri skilgreiningu á afbrotinu nauðgun. Lagt er til að að samþykki verði sett í forgrunn, með öðrum orðum að sá, sem á samræði eða önnur kynferðismök við annan án samþykkis hans, sé sekur um nauðgun. Þannig er það skortur á samþykki til samræðis eða annarra kynferðismaka sem skilgreinir nauðgunina.
Samþykki fyrir samræði eða öðrum kynferðismökum þarf að hafa verið tjáð af frjálsum vilja. Samþykki telst ekki liggja fyrir ef það er fengið með ofbeldi, hótunum eða annars konar ólögmætri nauðung, eða með því að beita blekkingum eða hagnýta sér villu viðkomandi um aðstæður.
Vernd sjálfsákvörðunarréttar til kynlífs
Ákvæðum kynferðisbrotakafla almennra hegningarlaga er það öllum sameiginlegt að varða kynlíf fólks og er ætlað að vernda frelsi á því sviði. Hagsmunir þeir sem ákvæðin eiga að vernda eru fyrst og fremst friðhelgi einstaklingsins, þ.e. kynfrelsi og sjálfsákvörðunarréttur hvað varðar kynlíf, líkama og tilfinningalíf. Hver einstaklingur á að hafa frelsi til að ákveða að hafa samræði eða önnur kynferðismök en jafnframt rétt til þess að hafna þátttöku í kynferðislegum athöfnum. Nauðsynlegt er að skilgreina nauðgun út frá skorti á samþykki til þess að unnt sé að veita kynfrelsi fullnægjandi réttarvernd.
Þekkt er að þolendur nauðgana geta ekki í öllum tilvikum veitt geranda mótspyrnu, t.d. vegna þess að þeir frjósa eða lamast af hræðslu. Rannsóknir hafa leitt í ljós að þessi viðbrögð eru algeng og að gerandi þarf þá ekki að beita miklu líkamlegu afli til að ná fram vilja sínum. Það verður sömuleiðis til þess að í reynd er óalgengt að þolendur beri mikla líkamlega áverka eftir nauðgun. Sýnilegt líkamlegt ofbeldi er því ekki sérstaklega algengt í kærumálum vegna nauðgana.
Viðhorfum verður að breyta
Ný skilgreining á nauðgun er því vissulega engin töfralausn. Á hinn bóginn er þessi breytta skilgreining til þess fallin að stuðla að nauðsynlegum breytingum á viðhorfum til brotsins. Verði nauðgun skilgreind út frá skorti á samþykki, mun áhersla á samþykki aukast við rannsókn og saksókn nauðgunarbrota. Þá mun slík skilgreining jafnframt fela í sér að mikilvægi kynfrelsis er gert mun hærra undir höfði en áður og jafnvel geta orðið til þess, samhliða aukinni fræðslu, að fólk verði meðvitað um mikilvægi þess að samþykki liggi fyrir þegar kynferðislegar athafnir eiga í hlut.
Ríka áherslu ber að leggja á almenn varnaðaráhrif slíks ákvæðis. Líklegt er að einstaklingar verði meðvitaðri um mikilvægi þess að samþykki er alltaf forsenda kynferðislegra athafna.
Frumvarpið hefur fengið góðar viðtökur og má til dæmis um það benda á erindi Ragnheiðar Bragadóttur, prófessors í refsirétti við Lagadeild Háskóla Íslands á hádegisfyrirlestri Rannsóknarstofnunar í jafnréttisfræðum 21. september sl.
Karlæg sjónarmið eiga að víkja
Breyting á skilgreiningu nauðgunar er liður í því að breyta viðhorfum sem feðraveldi fortíðar hefur skapað og eru enn ríkjandi eða eimir sterkt af á mörgum stöðum. Með frumvarpinu er horfið frá þeim karlægu sjónarmiðum sem endurspeglast víða að við tilteknar aðstæður eigi karlmaður nánast rétt á kynlífi með konu. Þá eru þau viðhorf lífseig að þegar fólk er í sambandi, hvort sem það er innan hjónabands eða utan, ryðji það með einhverjum hætti úr vegi kynfrelsi og sjálfsákvörðunarrétti þegar kynlíf á í hlut. Klámvæðing og hlutgerving kvenna ýtir enn frekar undir að líta á konur sem kynverur fyrst og fremst sem séu með einhverju móti til þess eins að svala þörf karla fyrir kynlíf.
Gera þarf allt sem unnt er til þess að ýta þessum viðhorfum til hliðar. Þar lætur Viðreisn ekki sitt eftir liggja.
Höfundur er alþingismaður Viðreisnar.