1. Mengun á að kosta meira
Í fjárlagafrumvarpinu fyrir 2018 sem lagt var fyrir Alþingi rétt fyrir stjórnarslit voru lagðar til tvær breytingar á skattlagningu á eldsneyti. Annars vegar var lagt til að gjöld verði samræmd milli bensíns og dísilolíu svo verð þeirra verði svipuð. Kolefnisgjald á bensín hækkar um nálægt sjö krónum með virðisaukaskatti vegna þessarar breytingar og dísilolían um sautján krónur. Alþingi þarf að fjalla um nákvæma útfærslu, og verðlagsbreytingar flækja myndina, en þetta eru meginlínurnar. Fyrir venjulegan bensínbíl sem ekið er 10.000 kílómetra árlega og eyðir 8 lítrum á hundraðið, eru þetta 5.600 krónur á ári. Fyrir dísilbíll sem eyðir 6 lítrum á hundraðið og ekur jafnlangt er árlegur kostnaðarauki 10.200 krónur.
2. Vistvænir bílar ódýrari
Einnig er lagt til að undanþága frá virðisaukaskatti við innflutning og sölu nýrra rafmagns-, vetnis- og tengiltvinnbifreiða, sem gilt hefur frá árinu 2013, verði fest í sessi næstu þrjú ár. Fjárhæð ívilnunarinnar hefur aukist mjög síðastliðin ár vegna fjölgunar slíkra bíla og er gert ráð fyrir að hún nemi rúmlega 2 milljörðum á næsta ári.
3. Vísitala neysluverðs hækkar fyrst lítillega en lækkar svo sex sinnum meir
Hækkun gjalda á eldsneyti er talið hækka vísitölu neysluverðs um 0,08%. Á móti kemur að fyrirhuguð breyting á virðisaukaskatti sem taka á gildi 1. janúar 2019 lækkar vísitöluna um 0,5% eða sex sinnum meira. Þetta er vegna þess að skattheimta er flutt af innlendum neytendum yfir á erlenda ferðamenn. Með þessu lækka verðtryggð lán og afborganir sömuleiðis.
4. Kílómetrinn hefur orðið ódýrari
Bensín- og olíugjöld hafa í gegnum tíðina verið hryggjarstykkið í fjármögnun framkvæmda og viðhalds vegakerfisins. Á síðustu árum hefur það hins vegar gerst að meðaleyðsla heimilisbíla hefur farið hratt lækkandi. Tekjur ríkisins af eknum kílómetra hafa því lækkað nokkuð eins og meðfylgjandi mynd sýnir. Áætluð hækkun 2018 heldur gjaldi bensínbíls nánast í horfinu, en á dísilbíl er þetta afturhvarf til ársins 2014, en hvort tveggja er mun lægra en það var um og uppúr hruni. Myndin dregur fram öll bensín- og olíugjöld, og gerir því ekki greinarmun á þeim hluta þeirra sem beinlínis er ætlaður til að fjármagna vegakerfið og hins sem er gjald fyrir að menga.
5. Vörugjöld lækka hratt
Sömu sögu er að segja af vörugjöldum af innfluttum bílum. Þó tekjur ríkisins af þeim hafi hækkað lækka tekjur af hverjum bíl. Ástæðan er sú að vörugjöld ráðast af áætlaðri losun koltvísýrings á hvern ekinn kílómeter, en áætluð losun hefur minnkað hratt með bættri tækni. Til dæmis lækkuðu meðalvörugjöld á hvern bíl um 9% milli áranna 2015 og 16.
6. Alþjóðlegar skuldbindingar geta orðið mjög dýrar
Ísland hefur tekist á hendur alþjóðlegar skuldbindingar um að minnka losun gróðurhúsalofttegunda, bæði með Kyoto-bókuninni og Parísarsamkomulaginu. Takist Íslendingum ekki að minnka útblásturinn verulega þurfa yfirvöld að kaupa útblástursheimildir dýru verði, sem getur numið tugum eða hundruðum milljörðum króna fram til 2030.
7. Ívilnun dísilbíla barn síns tíma
Gjöld á dísilolíu hafa um hríð verið lægri á hvern lítra en á bensín, m.a. með vísun í minni gróðurhúsaáhrif. Þessu þykir nú tímabært að breyta, meðal annars vegna þess að dísilbílar sóta meira en bensínbílar.
8. Aðgerðirnar hluti af stærri mynd
Aðgerðirnar sem lagðar eru til í fjárlagafrumvarpinu byggja að stofni til á fjármálaáætlun sem Alþingi samþykkti var í vor. Ekki eingöngu voru þær ætlaðar til að uppfylla markmið um umhverfisvernd heldur voru þær einnig liður í ábyrgri hagstjórn.
Ríkið niðurgreiðir nú uppbyggingu hleðslustöðva um allt land. Vinna er langt komin í fjármálaráðuneytinu við að endurskoða alla gjaldtöku af ökutækjum og eldsneyti, meðal annars til að taka heildstætt á rútum, flutningabílum og öðrum tegundum ökutækja. Þá er langt komin vinna í umhverfisráðuneytinu við að móta heildstæða loftslagsstefnu. Hvort tveggja er í biðstöðu nú vegna stjórnarslitanna en hægt að halda áfram með eftir kosningar. Allt er þetta gert svo Ísland standi stolt við skuldbindingar sínar í loftslagsmálum, sé leiðandi í vistvænum samgöngum og að hér sé það viðtekið að þeir sem menga borgi.
Þegar upp er staðið er markmiðið að gjöldin hverfi, með því að allir hætti að nota bensín og noti rafmagn í staðinn. Þannig verður íslenska þjóðarbúið meira sjálfu sér nægt. Hvernig við fjármögnum vegakerfið þá er óleyst, enda enn nokkuð í land að orkuskiptunum verði lokið.
Höfundur er oddviti Viðreisnar í Norðvesturkjördæmi og aðstoðarmaður fjármála- og efnahagsráðherra.