Nú styttist óðum í kosningar og rétt eins og stór hluti kjósenda er undirrituð í tómu tjóni. Flokkar keppast við að safna meðmælendum og raða á lista eins og enginn sé morgundagurinn. Á meðan sitja almannatenglar þeirra kófsveittir í símanum daginn út og daginn inn við að verja frambjóðendur fyrir ítrekuðum upprifjunum fjölmiðla á hinum ýmsu málum sem gætu haft áhrif á almenningsálitið.
Rykið, sem varla var sest, á kosningaloforð seinasta hausts eru dregin upp í flýti og hent út, að því virðist án endurskoðunar, því kjósendur þurfa upplýsingar og þeir þurfa þær núna.
Seinasta haust var í fyrsta sinn sem ég kaus í Alþingiskosningum. Ég átti mjög erfitt með að gera upp hug minn. Reyndar svo erfitt að ég kaus tvisvar. Fyrst utan kjörfundar en mætti síðan á kjördag og skipti um skoðun.
Kosningavitinn, eins frábært framtak og það er, hjálpaði mér ekkert, þar sem ég virtist alltaf enda á milli allra flokka, með mest 30% samsvörun við 5 mjög ólíka flokka.
Þegar ég áttaði mig á því að ég þyrfti aftur að taka þessa ákvörðun núna í haust, aðeins 364 dögum eftir seinasta höfuðverk, ákvað ég að breyta til.
Í stað þess að þræða heimasíður flokkana í leit að “þeim eina” sem færi mér best, ákvað ég að skoða fólkið.
Þegar allt kemur til alls og öll loforð heimsins eru sokkin í haf pólitísks stöðugleika, hagvaxtar og gleymsku, þá stendur fólkið eftir.
Hvaða orðspor hefur fólkið? Hvað skiptir það sjálft máli? Hvaðan kemur það? Hvaða reynslu hefur það? Hvar hefur það verið og hvert er það að fara? Hvaða forsendur hefur það fyrir baráttumálum sínum?
Þegar listarnir eru skoðaðir með þetta í huga má finna fullt af frábæru, nýju fólki… í 4. - 10. sæti listanna. Það er, sætin sem eru óviss um að komast á þing.
Þá vaknar spurningin; hvers virði er atkvæðið mitt ef ég kýs einhvern flokk til þess að koma þessu fólki inn, en enda bara með því að koma 1. - 3. sætinu inn?
Svarið er til: útstrikanir.
Með því að strika út þá frambjóðendur sem þú vilt ekki að atkvæði þitt telji fyrir, getur þú haft áhrif á uppröðun listans og komið þínum skilaboðum á framfæri: Ég vil ekki þennan, en ég vil hinn.
Á vef landkjörsstjórnar er tafla yfir hve stór hluti kjósenda lista þurfi að strika yfir frambjóðenda í vissu sæti til þess að hann falli niður um sæti, miðað við hvað listinn fær marga menn kjörna.
Til þess að velta fyrsta sætinu niður um sæti þurfa 25% kjósendur listans að strika viðkomandi út. Þessi tala lækkar svo eftir listanum og fjölda þingmanna sem listinn fær kjörna.
Útstrikanir geta reynst öflugar í kosningum, ef fólk notar þær. Hingað til hefur þeim þó farið fækkandi en í seinustu kosningum var einungis 0,5 - 3,0% kjörseðla breytt (strikað út eða endurraðað). Þær höfðu því engin áhrif.
Þetta eru undarlegar tölur, sérstaklega í ljósi þess að í prófkjörum flokkana, þar sem fleiri hundruð kjósa, er alltaf samkeppni. Er fólk sem er flokksbundið virkilega svo tryggt flokkunum sínum að það breytir ekki atkvæði sínu á kjörstað eftir því sem það hefði viljað sjá koma út úr prófkjörinu? Þú kýst ennþá sama flokkinn, þú ert bara að hafa áhrif á hvaða fólk kemst inn.
Rétt eins og þú reyndir í prófkjörinu að hafa áhrif á hvaða fólk kæmist inn. Almennt virðist vera að fólk sé miklu tilbúnar til þess að efast kosningaloforð en að efast fólkið sem leggur þau fram. Það er miður. Kosningaloforð verða ekki efnd, nema það sé fólk á bak við þau sem stendur við orð sín. Flokkar efna ekki loforð, þingmenn gera það. Ef það er fólk á listum flokkana sem hefur ekki staðið við sín orð hingað til, af hverju að kjósa það aftur?
Ég hef ekki enn ákveðið hvað ég ætla að kjósa og geri það örugglega ekki fyrr en á kjördag. Ég hef þó ákveðið eitt. Ég ætla að kjósa fólk, ekki flokka. Ég ætla að nýta mér útstrikanir til að ýta þeim sem ég vil sjá á þingi, ofar á listann.
Ég ætla að mæta á kjörstað, kjósa, og gjörnýta atkvæðið mitt.
Ég ætla ekki að treysta flokkum, ég ætla að treysta fólki.