Auglýsing

Í morgun birti Kjarn­inn frétta­skýr­ingu sem unnin er upp úr úrskurði yfir­skatta­nefndar í máli hjón­anna Sig­mundar Dav­íðs Gunn­laugs­sonar og Önnu Sig­ur­laugar Páls­dótt­ur. Í henni eru engar álykt­anir dregnar heldur sagt frá þeim stað­reyndum sem fram koma í þeim úrskurði. Þær stað­reyndir eru eft­ir­far­andi:

Þann 13. maí 2016 skrif­aði umboðs­maður hjón­anna bréf til rík­is­skatt­stjóra. Þar óskaði hann eftir því að skatt­fram­töl hjón­anna fyrir árin 2011 til 2015 yrðu leið­rétt. Í bréf­inu sagði umboðs­mað­ur­inn orð­rétt að ekki væri „úti­lokað að rétt­ara hefði verið að haga skatt­skilum kærenda gjald­árið 2011 og síðar eftir efni 57. gr. a laga nr. 90/2003, sbr. 3. gr. laga nr. 46/2009, og reglu­gerðar nr. 1102/2013, um skatt­lagn­ingu vegna eign­ar­halds í lög­að­ilum á lág­skatta­svæðum (CFC-­regl­u­m). Væru skatt­stofnar kærenda gjald­árin 2011 til og með 2016 því leiddir fram í erind­inu í sam­ræmi við fram­an­greindar regl­ur.“

Hvað þýðir þetta? Jú, umboðs­maður þeirra hjóna, sem sam­kvæmt grein Sig­mundar Dav­íðs í Frétta­blað­inu í dag er end­ur­skoð­andi, sendir bréf til skatt­yf­ir­valda þar sem hann til­kynnir þeim að hjónin hafi ekki gert upp í sam­ræmi við lög og regl­ur. Það er því ekki ályktun Kjarn­ans að skatt­fram­tal þeirra hjóna hafi ekki verið í sam­ræmi við lög og regl­ur, heldur segir umboðs­maður þeirra það sjálf­ur.

Auglýsing

Vert er að taka fram að þetta þarf ekki að vera refsi­verð hátt­semi. En það breytir því ekki að hjónin töldu ekki fram með réttum hætti og ósk­uðu þess, eftir að hafa verið opin­beruð fyrir heims­byggð­inni í umfjöllun um Pana­ma-skjöl­in, að fá að leið­rétta það.

Skatt­greiðslur hækk­aðar

Þetta bréf í maí 2016 leiddi til þess að rík­is­skatt­stjóri ákvað að end­ur­á­kvarða auð­legð­ar­skatt sem þau greiddu vegna áranna 2011 til 2014, að emb­ættið end­ur­mat hagnað vegna tekju­árs­ins 2010 og ákveður að hækka stofn til tekju­skatts og útsvars hjá eig­in­konu Sig­mundar Dav­íðs. Sam­hliða lækk­aði hann skatt­greiðslur á Sig­mund Davíð sjálf­an. Öllu ofan­greindu una hjónin og gang­ast þar með við því að hafa ekki talið rétt fram um ára­bil. Vegna þessa hækk­uðu skatt­greiðslur þeirra um upp­hæð sem ekki hefur komið fram, enda kærðu þau ekki þennan hluta úrskurðar rík­is­skatt­stjóra, heldur sættu sig við hann.

Í aðdrag­anda þess að þau til­kynntu rík­is­skatt­stjóra um það að þau hefðu ekki talið rétt fram þá létu hjónin gera árs­reikn­inga fyrir Wintris, aflands­fé­lagið sem hýsir umtals­verðar eignir þeirra, nokkur ár aftur í tím­ann. Þau ákváðu að hafa þessa árs­reikn­inga í íslenskum krónum þrátt fyrir að félagið væri með heim­il­is­festi erlend­is, sýsl­aði ein­ungis með erlendar eignir og átti við­skipti í erlendum gjald­miðl­um. Þetta gerði þeim kleift að telja fram geng­is­tap vegna sveiflna á gengi íslensku krón­unn­ar, sem átti að nýt­ast sem upp­safnað tap gegn fram­tíðar skatt­greiðsl­um. Rík­is­skatt­stjóri taldi þetta ekki stand­ast lög og hafn­aði þessum breytta útreikn­ingi á geng­is­hagn­aði síð­ustu ára. Hann end­ur­á­kvarð­aði síðan á hjónin og þau greiddu þær við­bótar skatt­greiðsl­ur.

Þau sættu sig hins vegar ekki við nið­ur­stöðu rík­is­skatt­stjóra varð­andi upp­gjörs­mynt Wintris. Þann lið, og þann lið ein­an, kærðu þau til yfir­skatta­nefnd­ar.

Ofgreiddu ein­ungs vegna eins liðar

Þegar hér var komið til sögu höfðu Sig­mundur Davíð og Anna Sig­ur­laug því greitt við­bótar greiðslur vegna leið­réttra skatt­fram­tala sinna mörg ár aftur í tím­ann. Skatt­greiðslur sem þau hefðu ekki greitt ef þau hefðu ekki sóst eftir því rúmum mán­uði eftir að Sig­mundur Davíð sagði af sér sem for­sæt­is­ráð­herra að fá að leið­rétta skatt­fram­töl sín þannig að þau væru í sam­ræmi við lög og regl­ur.

Yfir­skatta­nefnd komst svo að þeirri nið­ur­stöðu 22. sept­em­ber síð­ast­lið­inn að hjónin hefðu mátt gera Wintris upp í íslenskum krón­um. Því hefðu þau ofgreitt skatta vegna þessa eina álagn­ing­ar­lið­ar. Hvergi í úrskurði yfir­skatta­nefndar kemur fram hvort að þessi nið­ur­staða geri það að verkum að hjónin séu í plús eða mínus vegna þess að þau töldu ekki fram í sam­ræmi við lög og reglur og greiddu við­bót­ar­skatta vegna þess eftir á. Engu slíku er haldið fram í frétta­skýr­ingu Kjarn­ans, sem byggir bara á úrskurði yfir­skatta­nefndar og þeim stað­reyndum sem þar eru settar fram.

­Sam­andregið þá liggur fyrir að for­sæt­is­ráð­herra­hjónin fyrr­ver­andi höfðu ekki ofgreitt skatta áður en að fjöl­miðlar opin­ber­uðu Wintris­málið í fyrra­vor. Það liggur ekk­ert fyrir um hversu mikla við­bót­ar­greiðslur þau greiddu vegna við­bót­ar­auð­legð­ar­skatts, end­ur­mati á hagn­aði tekju­árs­ins 2010 og hækk­unar á skatt­stofni til tekju­skatts og útsvars.

Eina sem liggur fyrir er að hjónin ofgreiddu skatta af breyttum útreikn­ingi á geng­is­hagn­aði eftir nið­ur­stöðu rík­is­skatt­stjóra í des­em­ber síð­ast­liðn­um.

Spuna­meist­arar ásaka aðra um spuna

Dag­ur­inn í dag hefur verið áhuga­verð­ur. Hópur fólks sem fylgir Sig­mundi Davíð að því er virð­ist í blindni hefur farið mik­inn á sam­fé­lags­miðlum og ráð­ist að hörku á þá sem benda á stað­reyndir máls­ins.

Þetta ástand svipar mjög til þess sem var við lýði síð­ustu daga mars­mán­aðar í fyrra, þegar m.a. þing­menn réð­ust af for­dæma­lausri hörku að fjöl­miðlum sem unnu ein­ungis að því mark­miði að upp­lýsa almenn­ing. Þær raddir þögn­uðu fljótt eftir að frægur Kast­ljós­þáttur var sýndur sunnu­dag­inn 3. apríl 2016, en í þeim þætti laug Sig­mundur Davíð þegar hann var spurður út í til­vist Wintris og rauk síðan út úr við­tali.

Sig­mundur Davíð bregst sjálfur við með þessum hætti í stöðu­upp­færslu á Face­book í dag. Þar beinir hann aug­ljós­lega orðum sínum til mín og Kjarn­ans. Þar segir hann ýmsa ekki láta sig stað­reyndir máls­ins varða og bætir við orð­rétt: „Þegar allt liggur nú fyrir með form­legum hætti eru þeir hinir sömu lang­leitir mjög, skilja ekki neitt í neinu en reyna að klippa setn­ingar sundur og sam­an, snúa út úr og spinna.

Og tví­skinn­ung­ur­inn er aldrei langt und­an. Fremstir fara þeir sem öðrum fremur töl­uðu máli vog­un­ar­sjóða og menn eins og þeir sem skrif­uðu um mig grein undir fyr­ir­sögn­inni „Óvinur númer 1“ fyrir að tala fyrir skulda­leið­rétt­ingu. Já, og eru jafn­vel fjár­magn­aðir af þeim sem staðnir hafa verið að því að geyma eignir sínar í raun­veru­legum skatta­skjól­u­m.“

Við þetta fram­lag stjórn­mála­manns, fyrr­ver­andi for­sæt­is­ráð­herra þjóð­ar­inn­ar, er ansi margt að athuga. Í fyrsta lagi fjallar hann ekki með neinum hætti efn­is­lega um mál­ið. Hann hrekur ekk­ert af því sem fram kemur í frétta­skýr­ingu Kjarn­ans, enda getur hann það ekki þar sem hún byggir á því sem fram kemur í opin­berum úrskurði yfir­skatta­nefnd­ar. Sig­mundur Davíð segir því þá sem styðj­ast við stað­reyndir vera að láta sig þær engu varða. Sem er eins og að segja að svart sé hvítt eða að upp sé nið­ur.

Í öðru lagi er það rétt að ég skrif­aði leið­ara þegar ég starf­aði á Frétta­blað­inu í aðdrag­anda kosn­ing­anna 2013 sem bar fyr­ir­sögn­ina „Óvinur númer 1“. Sá leið­ari fjall­aði um það að skulda­leið­rétt­ing þeirra sem voru með verð­tryggð lán, og gefið var í skyn á þessum tíma að gæti kostað um 240 millj­arða króna, myndi hafa fleiri nei­kvæðar afleið­ingar en jákvæð­ar. Í ljósi þess var sagt í nið­ur­lagi leið­ar­ans: „hver þarf á óvini að halda þegar hann á vin eins og Fram­sókn?“

Bless­un­ar­lega varð ekk­ert af aðgerð að þeirri stærð­argráðu sem hótað var í aðdrag­anda kosn­ing­anna. Nið­ur­staðan varð að „bara“ 72,2 millj­arðar króna voru milli­færðir úr rík­is­sjóði til hluta lands­manna, að mestu til þeirra sem áttu eða þén­uðu mest.

Hags­munir almenn­ings

And­staðan við skulda­leið­rétt­ingu hefur aldrei byggst á hags­munum vog­un­ar­sjóða líkt og Sig­mundur Davíð og fylgj­endur hans þreyt­ast seint við að reyna að sann­færa fólk um. Hún snýst þvert á móti um hags­muni almenn­ings og byggir á sann­girn­is­rök­um.

Legið hefur fyrir árum sam­an, meðal ann­ars í grein­ingum Seðla­banka Íslands, að vog­un­ar­sjóðir og aðrir kröfu­hafar föllnu bank­anna myndu ekki fá að yfir­gefa íslenskt hag­kerfi nema að þeir myndu gefa nægi­lega mikið eftir af eignum sínum til að greiðslu­jöfn­uði íslenska þjóð­ar­bús­ins yrði ekki ógn­að. Þeir pen­ingar sem not­aðir voru í Leið­rétt­ing­una, og náð var inn í rík­is­sjóð með hækkun á banka­skatti, voru því fyr­ir­fram­greiðsla á því sem síðar var kallað stöð­ug­leika­fram­lög. Þetta voru alltaf pen­ingar sem vog­un­ar­sjóðir og aðrir kröfu­hafar urðu að skilja eftir hér. Gagn­rýni á Leið­rétt­ing­una hefur falist í að þessum pen­ingum hafi verið ráð­stafað til hluta þjóð­ar­inn­ar, meðal ann­ars stórra hópa sem áttu miklar eignir og þurftu ekk­ert á þessum pen­ingum að halda, í stað þess að þeir hafi verið nýttir í sam­neyslu þar sem þeir myndu gagn­ast öllum íbúum lands­ins.

Árum saman hafa þeir sem gagn­rýnt hafa Leið­rétt­ing­una þurft að sæta því að vera ásak­aðir um að ganga erinda ein­hverra vog­un­ar­sjóða. Kjarn­inn hefur þurft að sitja undir slíkum atvinnuróg frá því að hann var stofn­að­ur, án þess að hægt sé með nokkrum hætti að sýna fram á nokkur þau tengsl sem ýjað er að. Samt er stór hópur áhrifa­manna, meðal ann­ars tveir fyrr­ver­andi for­sæt­is­ráð­herrar, sem halda þessum róg stans­laust fram. Kjarn­inn hefur marg­sinnis svarað þessum ávirð­ingum með vísun í gögn og þeir sem hafa haldið þessu fram eiga það allir sam­eig­in­legt að geta ekki borið neitt fram sem styður við þær.

Það verður ekki ítrekað nægi­lega oft hversu alvar­legar ásak­anir er um að ræða. Í þeim felst að fjöl­mið­ill sigli undir fölsku flaggi og gangi erinda fjár­mála­afla. Þessar ásak­anir hafa valdið Kjarn­anum gríð­ar­legu tjóni.

Spuni étinn hrár

Lyk­il­at­riðið í þess­ari aðferð­ar­fræði, þess­ari gas­lýs­ingu, er að ásaka aðra um að horfa fram hjá stað­reyndum en geta ekki bent á neinar stað­reyndir sem styðja mál við­kom­andi. Með því að hengja sig í auka­at­riði, eins og að skattar hafi verið ofgreiddir af einum lið skatt­skila þeirra hjóna án þess að til­greina þær við­bót­ar­greiðslur sem þau þurftu að greiða vegna ann­arra liða sem voru hækk­aðir við end­ur­á­kvörðun skatta, þá er búinn til spuni sem á sér ekki stoð í veru­leik­an­um. Spuni sem einn stærsti fjöl­mið­ill lands­ins tók virkan þátt í að setja fram og und­ir­byggja í morgun og aðrir átu hrátt upp án þess að lesa úrskurð yfir­skatta­nefnd­ar. Það er ekki hlut­verk fjöl­miðla að taka þátt í spuna heldur að sjá í gegnum hann og upp­lýsa almenn­ing um það sem raun­veru­lega hefur átt sér stað. Mjög hefur vantað upp á að stærstu meg­in­straum­smiðlar Íslands hafi haft það að leið­ar­ljósi við vinnslu frétta af úrskurði yfir­skatta­nefndar í máli Sig­mundar Dav­íðs Gunn­laugs­son­ar.

Þar birt­ast ófrá­víkj­an­legar stað­reynd­ir. Sú mik­il­væg­asta er að Sig­mundur Davíð Gunn­laugs­son og eig­in­kona hans við­ur­kenna, í bréfi sem umboðs­maður þeirra sendi til rík­is­skatt­stjóra 13. maí 2016, að þau hafi ekki greitt skatta í sam­ræmi við lög og regl­ur. Og greiða við­bót­ar­greiðslur í rík­is­sjóð vegna þess. 

Það er mjög frétt­næmt og almenn­ingur á rétt á að fá að vita um þessar upp­lýs­ing­ar. Því hlut­verki stóð Kjarn­inn undir í morg­un. 

Tillagan um breytingu á skilyrðum fyrir stjórn FME kemur frá fjármálaráðuneytinu
Starfshópur fjallaði um hæfisskilyrði þeirra sem geta tekið sæti í stjórn Fjármálaeftirlitsins.
Kjarninn 20. nóvember 2018
Trump styður Sádi-Arabíu og olían hríðfellur
Eftir að Donald Trump lýsti yfir stuðningi við Sádí-Arabíu vegna morðsins á Jamal Khashoggi hrundi verðið á hráolíu.
Kjarninn 20. nóvember 2018
Raunverð fasteigna hækkað um 1,3 prósent undanfarið ár
Að teknu tilliti til verðbólgu hefur fasteignaverð lítið sem ekkert hækkað í eitt ár.
Kjarninn 20. nóvember 2018
Til lítils að fjölga leikskólarýmum ef leikskólarnir standa ómannaðir
Sjálfstæðismenn telja áætlanir meirihlutans í borginni ekki ganga upp.
Kjarninn 20. nóvember 2018
Baldur Blöndal
Gleymdur tími
Kjarninn 20. nóvember 2018
Bláa lónið
Grímur kaupir hlut Horns II í Bláa lóninu
Breyting hefur orðið á eignarhaldi í Bláa Lóninu en samningur hefur verið gerður um kaup Kólfs ehf., eignarhaldsfélags í meirihlutaeigu Gríms Sæmundsen, á hlut Horns II í Hvatningu hf. en Hvatning heldur á um 40% hlut í Bláa Lóninu hf..
Kjarninn 20. nóvember 2018
Heimavellir voru skráðir á markað fyrr á þessu ári.
Heimavellir ákveða að selja fleiri fasteignir
Í skráningarlýsingu Heimavalla frá því í vor kom fram að félagið ætlaði að selja fasteignir fyrir tíu milljarða fyrir árslok 2020. Nú hefur það ákveðið að selja eignir fyrir 17 milljarða á tímabilinu.
Kjarninn 20. nóvember 2018
Vandræði á Facebook
Gengið hefur brösulega fyrir notendur samfélagsmiðilsins Facebook að skoða efni á síðunni síðan í hádeginu í dag.
Kjarninn 20. nóvember 2018
Meira úr sama flokkiLeiðari