Auglýsing

Í morgun birti Kjarn­inn frétta­skýr­ingu sem unnin er upp úr úrskurði yfir­skatta­nefndar í máli hjón­anna Sig­mundar Dav­íðs Gunn­laugs­sonar og Önnu Sig­ur­laugar Páls­dótt­ur. Í henni eru engar álykt­anir dregnar heldur sagt frá þeim stað­reyndum sem fram koma í þeim úrskurði. Þær stað­reyndir eru eft­ir­far­andi:

Þann 13. maí 2016 skrif­aði umboðs­maður hjón­anna bréf til rík­is­skatt­stjóra. Þar óskaði hann eftir því að skatt­fram­töl hjón­anna fyrir árin 2011 til 2015 yrðu leið­rétt. Í bréf­inu sagði umboðs­mað­ur­inn orð­rétt að ekki væri „úti­lokað að rétt­ara hefði verið að haga skatt­skilum kærenda gjald­árið 2011 og síðar eftir efni 57. gr. a laga nr. 90/2003, sbr. 3. gr. laga nr. 46/2009, og reglu­gerðar nr. 1102/2013, um skatt­lagn­ingu vegna eign­ar­halds í lög­að­ilum á lág­skatta­svæðum (CFC-­regl­u­m). Væru skatt­stofnar kærenda gjald­árin 2011 til og með 2016 því leiddir fram í erind­inu í sam­ræmi við fram­an­greindar regl­ur.“

Hvað þýðir þetta? Jú, umboðs­maður þeirra hjóna, sem sam­kvæmt grein Sig­mundar Dav­íðs í Frétta­blað­inu í dag er end­ur­skoð­andi, sendir bréf til skatt­yf­ir­valda þar sem hann til­kynnir þeim að hjónin hafi ekki gert upp í sam­ræmi við lög og regl­ur. Það er því ekki ályktun Kjarn­ans að skatt­fram­tal þeirra hjóna hafi ekki verið í sam­ræmi við lög og regl­ur, heldur segir umboðs­maður þeirra það sjálf­ur.

Auglýsing

Vert er að taka fram að þetta þarf ekki að vera refsi­verð hátt­semi. En það breytir því ekki að hjónin töldu ekki fram með réttum hætti og ósk­uðu þess, eftir að hafa verið opin­beruð fyrir heims­byggð­inni í umfjöllun um Pana­ma-skjöl­in, að fá að leið­rétta það.

Skatt­greiðslur hækk­aðar

Þetta bréf í maí 2016 leiddi til þess að rík­is­skatt­stjóri ákvað að end­ur­á­kvarða auð­legð­ar­skatt sem þau greiddu vegna áranna 2011 til 2014, að emb­ættið end­ur­mat hagnað vegna tekju­árs­ins 2010 og ákveður að hækka stofn til tekju­skatts og útsvars hjá eig­in­konu Sig­mundar Dav­íðs. Sam­hliða lækk­aði hann skatt­greiðslur á Sig­mund Davíð sjálf­an. Öllu ofan­greindu una hjónin og gang­ast þar með við því að hafa ekki talið rétt fram um ára­bil. Vegna þessa hækk­uðu skatt­greiðslur þeirra um upp­hæð sem ekki hefur komið fram, enda kærðu þau ekki þennan hluta úrskurðar rík­is­skatt­stjóra, heldur sættu sig við hann.

Í aðdrag­anda þess að þau til­kynntu rík­is­skatt­stjóra um það að þau hefðu ekki talið rétt fram þá létu hjónin gera árs­reikn­inga fyrir Wintris, aflands­fé­lagið sem hýsir umtals­verðar eignir þeirra, nokkur ár aftur í tím­ann. Þau ákváðu að hafa þessa árs­reikn­inga í íslenskum krónum þrátt fyrir að félagið væri með heim­il­is­festi erlend­is, sýsl­aði ein­ungis með erlendar eignir og átti við­skipti í erlendum gjald­miðl­um. Þetta gerði þeim kleift að telja fram geng­is­tap vegna sveiflna á gengi íslensku krón­unn­ar, sem átti að nýt­ast sem upp­safnað tap gegn fram­tíðar skatt­greiðsl­um. Rík­is­skatt­stjóri taldi þetta ekki stand­ast lög og hafn­aði þessum breytta útreikn­ingi á geng­is­hagn­aði síð­ustu ára. Hann end­ur­á­kvarð­aði síðan á hjónin og þau greiddu þær við­bótar skatt­greiðsl­ur.

Þau sættu sig hins vegar ekki við nið­ur­stöðu rík­is­skatt­stjóra varð­andi upp­gjörs­mynt Wintris. Þann lið, og þann lið ein­an, kærðu þau til yfir­skatta­nefnd­ar.

Ofgreiddu ein­ungs vegna eins liðar

Þegar hér var komið til sögu höfðu Sig­mundur Davíð og Anna Sig­ur­laug því greitt við­bótar greiðslur vegna leið­réttra skatt­fram­tala sinna mörg ár aftur í tím­ann. Skatt­greiðslur sem þau hefðu ekki greitt ef þau hefðu ekki sóst eftir því rúmum mán­uði eftir að Sig­mundur Davíð sagði af sér sem for­sæt­is­ráð­herra að fá að leið­rétta skatt­fram­töl sín þannig að þau væru í sam­ræmi við lög og regl­ur.

Yfir­skatta­nefnd komst svo að þeirri nið­ur­stöðu 22. sept­em­ber síð­ast­lið­inn að hjónin hefðu mátt gera Wintris upp í íslenskum krón­um. Því hefðu þau ofgreitt skatta vegna þessa eina álagn­ing­ar­lið­ar. Hvergi í úrskurði yfir­skatta­nefndar kemur fram hvort að þessi nið­ur­staða geri það að verkum að hjónin séu í plús eða mínus vegna þess að þau töldu ekki fram í sam­ræmi við lög og reglur og greiddu við­bót­ar­skatta vegna þess eftir á. Engu slíku er haldið fram í frétta­skýr­ingu Kjarn­ans, sem byggir bara á úrskurði yfir­skatta­nefndar og þeim stað­reyndum sem þar eru settar fram.

­Sam­andregið þá liggur fyrir að for­sæt­is­ráð­herra­hjónin fyrr­ver­andi höfðu ekki ofgreitt skatta áður en að fjöl­miðlar opin­ber­uðu Wintris­málið í fyrra­vor. Það liggur ekk­ert fyrir um hversu mikla við­bót­ar­greiðslur þau greiddu vegna við­bót­ar­auð­legð­ar­skatts, end­ur­mati á hagn­aði tekju­árs­ins 2010 og hækk­unar á skatt­stofni til tekju­skatts og útsvars.

Eina sem liggur fyrir er að hjónin ofgreiddu skatta af breyttum útreikn­ingi á geng­is­hagn­aði eftir nið­ur­stöðu rík­is­skatt­stjóra í des­em­ber síð­ast­liðn­um.

Spuna­meist­arar ásaka aðra um spuna

Dag­ur­inn í dag hefur verið áhuga­verð­ur. Hópur fólks sem fylgir Sig­mundi Davíð að því er virð­ist í blindni hefur farið mik­inn á sam­fé­lags­miðlum og ráð­ist að hörku á þá sem benda á stað­reyndir máls­ins.

Þetta ástand svipar mjög til þess sem var við lýði síð­ustu daga mars­mán­aðar í fyrra, þegar m.a. þing­menn réð­ust af for­dæma­lausri hörku að fjöl­miðlum sem unnu ein­ungis að því mark­miði að upp­lýsa almenn­ing. Þær raddir þögn­uðu fljótt eftir að frægur Kast­ljós­þáttur var sýndur sunnu­dag­inn 3. apríl 2016, en í þeim þætti laug Sig­mundur Davíð þegar hann var spurður út í til­vist Wintris og rauk síðan út úr við­tali.

Sig­mundur Davíð bregst sjálfur við með þessum hætti í stöðu­upp­færslu á Face­book í dag. Þar beinir hann aug­ljós­lega orðum sínum til mín og Kjarn­ans. Þar segir hann ýmsa ekki láta sig stað­reyndir máls­ins varða og bætir við orð­rétt: „Þegar allt liggur nú fyrir með form­legum hætti eru þeir hinir sömu lang­leitir mjög, skilja ekki neitt í neinu en reyna að klippa setn­ingar sundur og sam­an, snúa út úr og spinna.

Og tví­skinn­ung­ur­inn er aldrei langt und­an. Fremstir fara þeir sem öðrum fremur töl­uðu máli vog­un­ar­sjóða og menn eins og þeir sem skrif­uðu um mig grein undir fyr­ir­sögn­inni „Óvinur númer 1“ fyrir að tala fyrir skulda­leið­rétt­ingu. Já, og eru jafn­vel fjár­magn­aðir af þeim sem staðnir hafa verið að því að geyma eignir sínar í raun­veru­legum skatta­skjól­u­m.“

Við þetta fram­lag stjórn­mála­manns, fyrr­ver­andi for­sæt­is­ráð­herra þjóð­ar­inn­ar, er ansi margt að athuga. Í fyrsta lagi fjallar hann ekki með neinum hætti efn­is­lega um mál­ið. Hann hrekur ekk­ert af því sem fram kemur í frétta­skýr­ingu Kjarn­ans, enda getur hann það ekki þar sem hún byggir á því sem fram kemur í opin­berum úrskurði yfir­skatta­nefnd­ar. Sig­mundur Davíð segir því þá sem styðj­ast við stað­reyndir vera að láta sig þær engu varða. Sem er eins og að segja að svart sé hvítt eða að upp sé nið­ur.

Í öðru lagi er það rétt að ég skrif­aði leið­ara þegar ég starf­aði á Frétta­blað­inu í aðdrag­anda kosn­ing­anna 2013 sem bar fyr­ir­sögn­ina „Óvinur númer 1“. Sá leið­ari fjall­aði um það að skulda­leið­rétt­ing þeirra sem voru með verð­tryggð lán, og gefið var í skyn á þessum tíma að gæti kostað um 240 millj­arða króna, myndi hafa fleiri nei­kvæðar afleið­ingar en jákvæð­ar. Í ljósi þess var sagt í nið­ur­lagi leið­ar­ans: „hver þarf á óvini að halda þegar hann á vin eins og Fram­sókn?“

Bless­un­ar­lega varð ekk­ert af aðgerð að þeirri stærð­argráðu sem hótað var í aðdrag­anda kosn­ing­anna. Nið­ur­staðan varð að „bara“ 72,2 millj­arðar króna voru milli­færðir úr rík­is­sjóði til hluta lands­manna, að mestu til þeirra sem áttu eða þén­uðu mest.

Hags­munir almenn­ings

And­staðan við skulda­leið­rétt­ingu hefur aldrei byggst á hags­munum vog­un­ar­sjóða líkt og Sig­mundur Davíð og fylgj­endur hans þreyt­ast seint við að reyna að sann­færa fólk um. Hún snýst þvert á móti um hags­muni almenn­ings og byggir á sann­girn­is­rök­um.

Legið hefur fyrir árum sam­an, meðal ann­ars í grein­ingum Seðla­banka Íslands, að vog­un­ar­sjóðir og aðrir kröfu­hafar föllnu bank­anna myndu ekki fá að yfir­gefa íslenskt hag­kerfi nema að þeir myndu gefa nægi­lega mikið eftir af eignum sínum til að greiðslu­jöfn­uði íslenska þjóð­ar­bús­ins yrði ekki ógn­að. Þeir pen­ingar sem not­aðir voru í Leið­rétt­ing­una, og náð var inn í rík­is­sjóð með hækkun á banka­skatti, voru því fyr­ir­fram­greiðsla á því sem síðar var kallað stöð­ug­leika­fram­lög. Þetta voru alltaf pen­ingar sem vog­un­ar­sjóðir og aðrir kröfu­hafar urðu að skilja eftir hér. Gagn­rýni á Leið­rétt­ing­una hefur falist í að þessum pen­ingum hafi verið ráð­stafað til hluta þjóð­ar­inn­ar, meðal ann­ars stórra hópa sem áttu miklar eignir og þurftu ekk­ert á þessum pen­ingum að halda, í stað þess að þeir hafi verið nýttir í sam­neyslu þar sem þeir myndu gagn­ast öllum íbúum lands­ins.

Árum saman hafa þeir sem gagn­rýnt hafa Leið­rétt­ing­una þurft að sæta því að vera ásak­aðir um að ganga erinda ein­hverra vog­un­ar­sjóða. Kjarn­inn hefur þurft að sitja undir slíkum atvinnuróg frá því að hann var stofn­að­ur, án þess að hægt sé með nokkrum hætti að sýna fram á nokkur þau tengsl sem ýjað er að. Samt er stór hópur áhrifa­manna, meðal ann­ars tveir fyrr­ver­andi for­sæt­is­ráð­herrar, sem halda þessum róg stans­laust fram. Kjarn­inn hefur marg­sinnis svarað þessum ávirð­ingum með vísun í gögn og þeir sem hafa haldið þessu fram eiga það allir sam­eig­in­legt að geta ekki borið neitt fram sem styður við þær.

Það verður ekki ítrekað nægi­lega oft hversu alvar­legar ásak­anir er um að ræða. Í þeim felst að fjöl­mið­ill sigli undir fölsku flaggi og gangi erinda fjár­mála­afla. Þessar ásak­anir hafa valdið Kjarn­anum gríð­ar­legu tjóni.

Spuni étinn hrár

Lyk­il­at­riðið í þess­ari aðferð­ar­fræði, þess­ari gas­lýs­ingu, er að ásaka aðra um að horfa fram hjá stað­reyndum en geta ekki bent á neinar stað­reyndir sem styðja mál við­kom­andi. Með því að hengja sig í auka­at­riði, eins og að skattar hafi verið ofgreiddir af einum lið skatt­skila þeirra hjóna án þess að til­greina þær við­bót­ar­greiðslur sem þau þurftu að greiða vegna ann­arra liða sem voru hækk­aðir við end­ur­á­kvörðun skatta, þá er búinn til spuni sem á sér ekki stoð í veru­leik­an­um. Spuni sem einn stærsti fjöl­mið­ill lands­ins tók virkan þátt í að setja fram og und­ir­byggja í morgun og aðrir átu hrátt upp án þess að lesa úrskurð yfir­skatta­nefnd­ar. Það er ekki hlut­verk fjöl­miðla að taka þátt í spuna heldur að sjá í gegnum hann og upp­lýsa almenn­ing um það sem raun­veru­lega hefur átt sér stað. Mjög hefur vantað upp á að stærstu meg­in­straum­smiðlar Íslands hafi haft það að leið­ar­ljósi við vinnslu frétta af úrskurði yfir­skatta­nefndar í máli Sig­mundar Dav­íðs Gunn­laugs­son­ar.

Þar birt­ast ófrá­víkj­an­legar stað­reynd­ir. Sú mik­il­væg­asta er að Sig­mundur Davíð Gunn­laugs­son og eig­in­kona hans við­ur­kenna, í bréfi sem umboðs­maður þeirra sendi til rík­is­skatt­stjóra 13. maí 2016, að þau hafi ekki greitt skatta í sam­ræmi við lög og regl­ur. Og greiða við­bót­ar­greiðslur í rík­is­sjóð vegna þess. 

Það er mjög frétt­næmt og almenn­ingur á rétt á að fá að vita um þessar upp­lýs­ing­ar. Því hlut­verki stóð Kjarn­inn undir í morg­un. 

Ert þú í Kjarnasamfélaginu?

Kjarninn er opinn vefur en líflínan okkar eru frjáls framlög frá lesendum, Kjarnasamfélagið. Sú stoð undir reksturinn er okkur afar mikilvæg.

Með því að skrá þig í Kjarnasamfélagið gerir þú okkur kleift að halda áfram að vinna í þágu almennings og birta vandaðar fréttaskýringar, djúpar greiningar á efnahagsmálum og annað fréttatengt gæðaefni. 

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur undanfarin sjö ár og við ætlum okkur að standa vaktina áfram. 

Fyrir þá sem nú þegar eru stoltir styrkjendur Kjarnans þá leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka mánaðarlega framlagið með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Ungmenni mótmæla aðgerðum stjórnvalda í loftslagsmálum.
„Loftslagsváin fer ekki í sumarfrí“
Ungmenni á Íslandi halda áfram að fara í verkfall fyrir loftslagið þrátt fyrir COVID-19 faraldur og sumarfrí. Greta Thunberg hvetur jafnframt áfram til mótmæla.
Kjarninn 9. júlí 2020
Afkoma ríkissjóðs jákvæð um 42 milljarða í fyrra
Tekjur ríkissjóðs námu samtals 830 milljörðum króna í fyrra en rekstrargjöld voru 809 milljarðar. Fjármagnsgjöld voru neikvæð um 57 milljarða en hlutdeild í afkomu félaga í eigu ríkisins jákvæð um 78 milljarða.
Kjarninn 9. júlí 2020
Guðmundur Hörður Guðmundsson
Menntamálaráðherra gleymdi meðalhófsreglunni
Kjarninn 9. júlí 2020
Kári Stefánsson, forstjóri ÍE.
„Þetta verður í fínu lagi“
Forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar segir að starfsfólk fyrirtækisins muni rjúka til og hjálpa við skimun ef Landspítalinn þurfi á því að halda. Spítalinn sé þó „ágætlega í stakk búinn“ til þess að takast á við verkefnið.
Kjarninn 9. júlí 2020
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur: Erum að beita öllum ráðum í bókinni
Sóttvarnalæknir segist ekki áforma að mæla með rýmkuðum reglum um fjöldatakmörk á samkomum á næstunni. Líklega muni núverandi takmarkanir, sem miða við 500 manns, gilda út ágúst.
Kjarninn 9. júlí 2020
Opnað fyrir umsóknir um stuðningslán
Stuðningslán til smærri og meðalstórra fyrirtækja geta að hámarki numið 40 milljónum króna. Þó geta þau ekki orðið hærri en sem nemur tíu prósentum af tekjum fyrirtækis á síðasta rekstrarári.
Kjarninn 9. júlí 2020
Icelandair mun flytja á annað þúsund manns á milli Kaliforníu og Armeníu
Íslenska utanríkisþjónustan aðstoðaði við sérstakt verkefni á vegum Loftleiða Icelandic.
Kjarninn 9. júlí 2020
Tilraunir með Oxford-bóluefnið í mönnum eru hafnar í þremur löndum, m.a. Suður-Afríku.
Oxford-bóluefnið þykir líklegast til árangurs
Ef tilraunir með bóluefni sem nú er í þróun við Oxford-háskóla skila jákvæðum niðurstöðum á næstu vikum verður hugsanlega hægt að byrja að nota það í haust.
Kjarninn 9. júlí 2020
Meira úr sama flokkiLeiðari