Það hefur blásið byrlega hjá Vinstri grænum undanfarið. Fyrir vikið beinast nú breiðu spjótin að flokknum. Nú síðast fór formaður Sjálfstæðisflokksins með kunnugleg stef í miðlum skattana. Stefið er einfalt: „Gætið ykkar á vinstrafólkinu með skattahækkanirnar“. Og undirliggjandi skilaboðin auðvitað að leita frekar til hins frelsandi hers frjálshyggjunnar. Þetta hefur lengi reynst prýðisvel í kaffistofukarpinu í aðdraganda kosninga. En það þarf að fara að hafa endaskipti á þessu karpi. Ekki festast eina ferðina enn í einföldu bulli um hvort þessi eða hinn er hlynnt(ur) sköttum eða andvíg(ur). Það þarf að fara einu feti dýpra í pollinn og spyrja að því til hvers skattarnir eru og hvernig þeim skuli beitt.
Hægrið
Þrátt fyrir allt er það nú svo að skattbyrði sem síðustu ríkisstjórnir hafi staðið fyrir er í raun allmikil á venjulegt fólk. Lágtekjufólk hefur ekki notið sérstaklega neinnar lág-skattastefnu. Ekki heldur meðaltekjufólkið. Og meira að segja ekki venjuleg fyrirtæki. En það eru vissulega hópar sem hafa notið lágra skatta. Auðlindagjöld handhafa almenningseigna eru lág á Íslandi og auðlegðarskattur var afnuminn hratt og örugglega. Engar sérstakar álögur á kaupaukaþega heldur og stóriðjufyrirtæki hafa ekki verið sliguð af íslenskri skattbyrði. Meginlínurnar eru ljósar. Í fréttum í gær (Bylgjan 4/10) kom fram ein birtingarmynd þessarar stefnu. Launahæsti fimmtungur vinnumarkaðarins þénar rúmlega helming allra tekna í landinu. Laun þessara tekjuhæstu hópa hafa hækkað meira en skattgreiðslur þeirra. Skattgreiðslur allra hinna hópanna hafa hins vegar hækkað meira en laun. Þar með talið lágtekjuhóparnir og hinn fjölmenni hópur meðaltekjufólks. Þetta eru venjulegir Íslendingar og venjuleg fyrirtæki.
Vinstrið
Í bókum Vinstri grænna er þetta nokkuð skýrt. Markmiðið er velferðarsamfélag, með menntun og heilbrigðisþjónustu og félagskerfi fyrir alla. Vel rekið stoðkerfi umhverfismála og stuðningur við menningu og skapandi starf. Og líka heit um uppbyggingu nothæfra vega og ljóss og rafmagns um byggðir þessa lands. Framkvæmdin er í grófustu mynd sú að ríkir borga meira. Þeir sem eru ekki ríkir borga minna. Mengandi athafnir borga meira. Minna mengandi athafnir borga minna. Skattbyrði þeirra tekjulægstu er haldið í lágmarki en meira sótt til efsta toppsins af tekjum þeirra tekjuhæstu. Þetta á einnig við um einstaklinga og fyrirtæki sem njóta þeirra forréttinda að fara með umráð auðlinda í almannaeigu. Svo sem eins og fiskveiðikvóta, virkjunarleyfi, fiskeldisheimildir í sjó. Í einfaldri mynd byrðarnar meiri á efri fimmtunginn og minni á hina. Einmitt öfugt við það sem fréttirnar greindu frá í gær.
Uppbyggingingarstjórn
Þrátt fyrir jákvæðar ytri aðstæður að svo mörgu leyti blasir við brýn þörf á uppbyggingu á Íslandi. Það er nefnilega margt í ólagi. Ónýtir malarvegir, netlausar sveitir, illa fjármagnaðir skólar og hnignandi heilbrigðiskerfi eru nokkur dæmi. Grænir hvatar eru fáir og innihaldslitlir. Það þarf uppbyggingu á innviðum samfélagsins. Annars vegar eflingu rekstrar innviða samfélagsþjónustunnar okkar og hins vegar fjárfestingu í grunninnviðum víða um land. Hvort tveggja þarf að fjármagna. Sú fjármögnun verður ekki sótt með áhlaupi á tekjulægsta fólkið og venjuleg heimili heldur sanngjörnum álögum og rentutekjum af þeim hópum sem mest hafa og njóta af fjármunum, eignum og auðlindum.
Bullinu kunnuglega um skattana er auðvitað ætlað til að vekja einhvers konar ótta hjá kjósendum og hrekja í falskt öryggi íslensku hægri-skattastefnunnar. Ef fólki er alvara með að hér eigi að byggja upp velferðarsamfélag að norrænni gerð, með gjaldfrjálsri menntun, heilbrigðisþjónustu fyrir alla, bærilegum vegum og öruggum brúm, þá er ekki hægt að klifa á innihaldslausum fagurgala um skattalækkanir. Alla vega ekki í eyru annarra en þessa tekjuhæsta fimmtungs sem gert hefur verið svo prýðilega vel við undanfarin ár.
Höfundur er sveitarstjórnarmaður Vinstri grænna í Norðurþingi.