Skipulagsbundin félög falla í tvo meginflokka – þau sem hafa með höndum atvinnurekstur og þau sem starfa í ófjárhagslegum tilgangi. Lögum samkvæmt ber hlutafélögum, einkahlutafélögum og samvinnufélögum ótvíræð skylda til að skrá sig að réttum hætti í fyrirtækjaskrá og að skila ársreikningum fyrir hvert liðið rekstrarár, enda bera öll slík félög takmarkaða ábyrgð á rekstri og fjármunum. Auk þess ber samvinnufélögum rík tilkynningaskylda um fjölmörg atriði til samvinnufélagaskrár, ella kann slíkt félag að hafa fyrirgert rétti sínum. Enda bera fá félög jafn takmarkaða ábyrgð og einmitt samvinnufélög.
Almenn, skipulagsbundin félög og samtök teljast á hinn bóginn vera slíkt sameiningarband þar sem hópur manna kemur saman í einu nafni – í nafni félags eða félagasamtaka – til að ná fram ófjárhagslegum markmiðum eingöngu. Opinber skráning er ekki endilega skilyrði fyrir rétthæfi þeirra en á hinn bóginn öðlast þau ekki kennitölu og þar með heimild til stofnunar viðskiptareiknings nema að vera skráð í fyrirtækjaskrá. Sem dæmi um slík félög má nefna stjórnmálaflokka, íþróttafélög, skákfélög, ungliðahreyfingar, félög eldri borgara, fagfélög, stéttarfélög, samtök vinnuveitenda, mannúðarfélög, trúfélög og menningarfélög af ýmsu tagi.
Um rétthæfi ranglega skráðs byggingarsamvinnufélags
Atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið fer með mál er varða félagarétt vegna atvinnurekstrar. Engu að síður er það velferðarráðuneytið, félagsmálaráðuneytið, sem fer með málefni byggingarsamvinnufélaga að svo miklu leyti sem varðar samþykktir þeirra, en samþykktir félags jafngilda í raun lögum félags. Öðlast byggingarsamvinnufélag ekki rétthæfi, sem slíkt félag, og fær ekki heimild til opinberrar skráningar, sem slíkt félag, fyrr en ráðuneytið hefur staðfest samþykktir þess, m.ö.o staðfest að samþykktirnar brjóti ekki í bága við lög, hvort sem er lög um byggingarsamvinnufélög, lög um samvinnufélög eða önnur lög.
Hvert er þá rétthæfi slíks félags ef samþykktir þess brjóta í ýmsum greinum gegn gegn lögum um byggingarsamvinnufélög og samvinnufélög? Og það þrátt fyrir að hafa hlotið staðfestingu ráðuneytis, ítrekað og áratugum saman, líkt og embættismenn hafi ljáð samþykktunum stimpil ráðuneytisins í blindni og þar með viðurkenningu ráðherra? Og hve bætir það rétthæfi slíks félags ef það hefur áratugum saman hvorki sinnt því að færa samþykktir sínar til rétts vegar, samkvæmt lögum um byggingarsamvinnufélög og samvinnufélög, og fá löglega staðfestingu ráðuneytis samkvæmt því, né heldur að skrá félagið sem slíkt, að réttum hætti, í fyrirtækjaskrá, og skila ársreikningum lögum samkvæmt, hvað þá heldur að senda samvinnufélagaskrá tilkynningar um stofnun og samþykktir og um hinar ýmsu breytingar á stöðu félagsins, t.d. breytingar á heimilisfangi, stjórn eða samþykktum?
Samtök aldraðra voru stofnuð á 8. áratug síðustu aldar og voru áratugum saman skráð á meðal almennra, skipulagsbundinna félagasamtaka sem starfa í þágu ófjárhagslegs tilgangs, undir ÍSAT atvinnugreinaflokkunarnúmerinu 94.99.9. Það var fyrst í nóvember 2015 að félagið var skráð í fyrirtækjaskrá sem byggingarsamvinnufélag, m.ö.o. sem samvinnufélag, enda ber byggingarsamvinnufélögum að vera skráð sem slíkt félag. Eru stofngögn og samþykktir félagsskaparins skráð sama dag, 20. nóvember 2015, þrátt fyrir að nýjustu samþykktir á þeim tíma hefðu verið staðfestar af ráðuneytinu tæpum áratug fyrr, 3. apríl 2006, og að kennitala félagsins – 580377-0339 – bendi til stofndags nærfellt fjórum áratugum fyrr, eða eigi síðar en 28. mars 1977.
Önnur gögn er ekki að finna í fyrirtækjaskrá (samvinnufélagaskrá) RSK um Samtök aldraðra nema tilkynningu um breytt heimilisfang frá árinu 2008, frá því 7 árum fyrir dagsetningu stofngagna, og tilkynningu um breytingu á stjórn í nóvember 2016. Ekki getur þar í neinu nýrra samþykkta sem velferðarráðuneytið staðfesti þó hinn 28. mars s.l. – nákvæmlega 40 árum eftir stofndag samkvæmt kennitölu en um einu og hálfu ári eftir skrásetningu félagsins sem byggingarsamvinnufélags – ekki frekar en að fyrirtækjaskrá greini frá hinum margvíslegu tilkynningum sem samvinnufélagaskrá hefði átt að hafa borist á undanförum áratugum ef Samtök aldraðra hefðu verið rekin sem löglegt byggingarsamvinnufélag. Og þrátt fyrir ótvíræða skilaskyldu byggingarsamvinnufélaga sem annarra samvinnufélaga, þá hafa einungis tveir ársreikningar, reikningsáranna 2015 og 2016, borist ársreikningaskrá ríkisskattstjóra á sama tíma.
Geta slík samtök um fullkomið hirðuleysi kallast annað en óskipulagður skapnaður af félagi að vera?
Eða hvert er rétthæfi félagsskapar sem ávallt hefur verið ranglega og ólöglega skráður og villt á sér heimildir gagnvart almennum félagsmönnum sínum jafnt sem dómstólum sem öðrum?
Um réttarstöðu Samtaka aldraðra
Samkvæmt lögum um samvinnufélög ber öllum slíkum félögum, að byggingarsamvinnufélögum alls ekki undanskildum, rík skylda til að tilkynna samvinnufélagaskrá um fjölmörg atriði allt frá stofnun þess og hverju sinni sem breytingar verða á formlegum högum félags. Að öðrum kosti skal beinlínis synja félagi skráningar, svo sem m.a. kemur fram á vef fyrirtækjaskrár RSK, með vísun til XII. kafla laga um samvinnufélög, nr. 22/1991, sbr. 62. grein. Skulu tilkynningar berast samvinnufélagaskrá innan mánaðar frá stofnun eða frá því breyting var gerð, sbr. III. kafla sömu laga. Á þetta m.a. við um heiti félagsins, heimili og varnarþing, tilgang þess og starfssvið, nýjar eða breyttar félagssamþykktir, nöfn, stöðu, heimilisföng og kennitölur stjórnenda, varastjórnenda, endurskoðenda, skoðunarmanna og framkvæmdastjóra – hvernig öllu sé háttað á hverjum tíma, að breyttu breytanda – og þá jafnframt hver hafi heimild til þess að skuldbinda félagið með samningum og hvernig undirskrift sé háttað, hvernig boða skuli félagsmönnun fundi í félaginu, fjárhæð aðildargjalds o.fl.
Þrátt fyrir að félagið hafi staðið að fjölmörgum og miklum byggingaframkvæmdum um áratuga skeið, og átt beinan hlut að sölu nýrra íbúða svo hundruðum skiptir og haft afskipti af endursölu hundraða íbúða, jafnvel svo telji nær þúsund, og haldið því stundum að viðskiptamönnum sínum, verktökum jafnt sem félagsmönnum og aðstandendum þeirra, að það væri byggingarsamvinnufélag, m.ö.o. samvinnufélag – og þó því aðeins og þá sjaldan sem forsvarsmönnum hefur þótt það henta – hafa stjórnarmenn þess og aðrir forsvarsvarsmenn, að lögmönnum félagsins, skoðunarmönnum og endurskoðendum síst undanskildum, trassað algjörlega að hlíta lögum þeim sem hér eru til umræðu.
Skv. 74. grein laga um samvinnufélög eru stofnendur, stjórnarmenn, framkvæmdastjórar, endurskoðendur og skoðunarmenn samvinnufélags skyldir til að bæta félaginu það tjón sem þeir hafa valdið því í störfum sínum hvort sem er af ásetningi eða gáleysi. Sama gildir þegar félagsaðili eða aðrir verða fyrir tjóni vegna brota á ákvæðum laganna eða samþykktum félags. Skv. 78. grein sömu laga varðar það sektum eða fangelsi allt að tveimur árum að skýra vísvitandi rangt eða villandi frá högum samvinnufélags eða öðru er það varðar, og skv. 81. grein skal sá sæta sektum eða fangelsi allt að einu ári sem vanrækir tilkynningar til samvinnufélagaskrár. Hver er þá réttarstaða slíks félags frammi fyrir dómstólum?
Í 9. gr. laganna er skýrt tekið fram að samvinnufélag skuli skrásett samkvæmt þeim lögum og að það geti þá fyrst öðlast réttindi á hendur öðrum aðilum með samningi og aðrir á hendur því. Og er reyndar allur vafi tekinn af um réttarstöðuna með þessum orðum: Óskrásett samvinnufélag getur ekki verið aðili að dómsmálum.
Í seinni málsgrein sömu lagagreinar er skýrt tekið fram hverjir beri þá ábyrgðina, og þá eðlilega jafnt fyrir dómstólum sem á öðrum sviðum: Ef löggerningur er gerður fyrir hönd óskrásetts félags bera þeir, sem átt hafa þátt í gerningnum eða ákvörðunum um hann, óskipta persónulega ábyrgð á efndum.
Lokasetning 9. greinar kveður síðan á um að við skráningu félags, sem sagt sem samvinnufélags, taki það við þeim skyldum sem leiddi af stofnsamningi eða sem félag hefur tekið á sig eftir stofnfund. En samkv. 11. grein skal stjórn tilkynna það til skráningar innan mánaðar frá því það var stofnað og samkv. 12. grein allar breytingar á stofngögnum og samþykktum innan samsvarandi tíma. Og samkv. a-hluta 64. greinar 4. töluliðar skal beinlínis slíta félaginu hafi félagið vanrækt að senda samvinnufélagaskrá tilkynningar sem því er skylt samkvæmt lögunum.
Hafi skráning samvinnufélags alls ekki farið fram, svo sem var í tilviki Samtaka aldraðra allt frá stofnun samkvæmt kennitölu árið 1977 til hausts 2015, þegar það var loksins skráð sem byggingarsamvinnufélag, þá hlýtur ábyrgð á öllum gjörðum félagsins, þar sem því hefur verið beitt sem byggingarsamvinnufélagi, m.ö.o. samvinnufélagi, verið óskipt og persónulega á hendi forsvarsmanna félagsskaparins. En þar sem skráningin 2015 var með öllu ólögleg, svo sem hér mun nánar verða sýnt fram á, þá hefur hún ekkert gildi – er ábyrgðin á öllum gjörðum félagsins því eftir sem áður óskipt og persónulega á hendi forsvarsmanna þess.
Öll dómsmál sem Byggingarsamvinnufélagið Samtök aldraðra hefur sótt eða hefur verið sótt til saka í, allt frá upphafi til dagsins í dag, eru því ólögleg og kunna að lúta að rétti til endurupptöku samkv. lögum um meðferð einkamála, nr. 91/1991, eftir atvikum 167. eða 169. grein, enda rétthæfi Samtaka aldraðra sem byggingarsamvinnufélags alls ekkert – heldur einungis einstaklinganna sem allt til dagsins í dag hafa borið ábyrgð á gjörðum hins ólöglega félags og villt hafa almennum félagsmönnum og ekki síst dómstólum sýn á rétthæfi og réttarstöðu félagsins. Og gildir einu þótt samtökin hafi tapað öllum sínum dómsmálum – sök ábyrgðarmanna samtakanna er hin sama, jafnt sem lögmanna samtakanna er ekki hafa hikað við að segja ósatt um stöðu þeirra fyrir dómi sem á öðrum vettvangi, nú sem fyrr.
Um falska réttarstöðu – falskt rétthæfi – fölsk flögg
Samtök aldraðra voru upphaflega stofnuð árið 1973 í þeim tilgangi að vinna að margvíslegum velferðarmálum aldraðra, þar á meðal ekki síst að stuðla að byggingu hentugra íbúða fyrir eldri borgara. Fram til ársins 1981 störfuðu samtökin fyrst og fremst að almennum velferðamálum aldraðra, að þau hófu þá undirbúning að byggingu íbúða á eigin vegum, en hinar fyrstu voru teknar í notkun árið 1984.
Fyrir atbeina samtakanna hefur sannarlega verið unnið stórvirki í byggingarmálum aldraðra. Það er því þyngra en tárum taki að lagalegur grundvöllur fyrir starfseminni sé svo vafasamur sem raun ber vitni, hvað þá hve samtökin hafa teygt sig langt út fyrir eiginlegt verksvið sitt og allan lagalegan ramma með afskiptum sínum af endursölu íbúða sem reistar hafa verið fyrir atbeina samtakanna.
Fyrst framan af og fram eftir síðustu öld voru lög um byggingarsamvinnufélög mjög ströng hvað varðaði ákvæði um endursölu íbúða, enda jafngilti þá lánsfé að drjúgum hluta nánast gjöf. Var það almennt bundið ríkisábyrgð til slíkra félaga, en þegar tímar liðu fram með lækkandi verðbólgu og frjálsari bankaviðskiptum voru ákvæði um endursölu rýmkuð og hafa þau nú um langt árabil einungis falið í sér skorður við endursölu fyrstu 5 árin – um hríð fyrstu 5 árin frá lokum byggingar en með núverandi lögum, nr. 153 frá 1998, einungis fyrstu 5 árin frá lóðarúthlutun, eða sem samsvarar e.t.v. um 2 til 3 árum frá lokum byggingar. Nær öll byggingarsamvinnufélög eru löngu aflögð og eru nú einungis tvö slík skráð í fyrirtækjaskrá RSK, bæði reyndar undir ÍSAT Atvinnugreinaflokkun 68.20.1 Leiga íbúðarhúsnæðis, svo undarlega sem það kann þó að hljóða.
Um langa hríð var Byggingarsamvinnufélag eldri borgara í Garðabæ hið eina slíka félag á skrá eða þar til Samtök aldraðra breyttu skráningu sinni haustið 2015 í byggingarsamvinnufélag, frá því að vera skráð um áratuga skeið sem almennt félag án fjárhaglegs tilgangs, undir ÍSAT flokkunarnúmerinu 94.99.9.
Ljóst má vera og þarf vart vitna við, að Samtök aldraðra hafa aldrei leigt út eina einustu íbúð, enda hafa samtökin aldrei átt neinar íbúðir nema að því leyti sem þau kunna að hafa verið skráð sem eigendur að íbúðum í byggingu áður en þær voru seldar félagsmönnum.
Þessi rangsnúni skilningur Samtaka aldraðra á hlutverki sínu samkvæmt fyrirtækjaskrá þarf þó ekki að koma neinum á óvart sem kynnt hefur sér sögu samtakanna og það gerræðislega vald sem stjórnendur þeirra hafa tekið sér yfir félagsmönnum – og aðstandendum þeirra eða erfingjum þegar á hefur reynt – og þá ekki síst í skjóli samþykkta sem brjóta í ýmsum greinum gegn lögum um byggingarsamvinnufélög og þá lögum um samvinnufélög jafnframt, sem nánar mun verða vikið að.
Eðlilega hafa forsvarsmennirnir borið kinnroða fyrir að skrá samtökin opinberlega undir ÍSAT flokkunarnúmerinu 68.31.0 Fasteignamiðlun – en til þeirrar greinar telst einmitt starfsemi fasteignasala, milliganga við kaup og sölu á fasteignum gegn þóknun eða samkvæmt samningi, auk matsþjónustu o.fl. Þvert ofan í upphaflegt markmið samtakanna, sem var fyrst og fremst að byggja íbúðir, hefur endursala mörg hundruð eldri íbúða, jafnvel svo telji nær þúsund, þó verið eitt helsta verkefni Samtaka aldraðra hina síðari áratugi; geymir Vefsafn Landsbókasafns – Háskólabókasafns urmul dæma um umsvifin hin seinni árin. Hafa samtökin þó ekki haft minnstu lagalegu heimild til fasteignasölu en þá því frekar kosið að starfa í skjóli leppa, m.ö.o. löggiltra fasteignasala, þrátt fyrir að lög um fasteignasölu stranglega banni slíka meðalgöngu.
Svo sem hér hefur bent á þá er skýrt tekið fram í 9. gr. laga um samvinnufélög að hvert slíkt félag skuli skrásett samkvæmt þeim lögum og að það geti þá fyrst öðlast réttindi á hendur öðrum aðilum með samningi og aðrir á hendur því. Ljóst má vera að samtökin hafa ekki getað öðlast neins konar lögleg réttindi á hendur einum eða neinum með neins konar samningum fram til þess tíma er þau voru fyrst skrásett sem byggingarsamvinnufélag haustið 2015.
Hvað varðar tímabilið frá því samtökin voru skráð í nóvember 2015 til dagsins í dag, þá gildir einu. Hvorki upphafleg stofnun slíks byggingarsamvinnufélags né neinar samþykktir höfðu verið tilkynntar til samvinnufélagaskrár um áratugaskeið, hvað þá heldur nýjustu samþykktirnar á þeim tíma, frá árinu 2006, þrátt fyrir skýr ákvæði 11. og 12. greina laga um samvinnufélög um tilkynningarskyldu til samvinnufélagaskrár innan mánaðar frá því tilkynningaskyldir gerningar áttu sér stað. Félaginu hefði þvert á móti borið að slíta sér samkv. 62. grein laganna, sem hér verður nánar vikið að á eftir, en hinu opinbera, samvinnufélagaskrá ríkisskattstjóra, hefði að öðrum kosti borið að hlíta ákvæðum 13. greinar laganna og beinlínis synja félaginu skráningar, svo sem greinin kveður skýrt á um, hvað þá þegar félagsstjórn hefur gerst sek um svo margra áratuga vanrækslu.
Um ábyrgð velferðarráðuneytisins/félagsmálaráðuneytisins
1. grein laga um byggingarsamvinnufélög kveður skýrt á um, að félag, sem ákvæði laganna taka til, skuli hafa orðið „byggingarsamvinnufélag“ í nafni sínu og jafnframt að öðrum félögum sé óheimilt að bera slík heiti.
2. grein laganna kveður jafnframt skýrt á um – að um félagsstofnun, skrásetningu, félagsstjórn og félagsslit byggingarsamvinnufélags fari, eftir því sem við getur átt, eftir ákvæðum laga nr. 22/1991 um samvinnufélög, og að óheimilt sé að skrásetja byggingarsamvinnufélag fyrr en samþykktir þess hafi verið staðfestar af félagsmálaráðuneytinu.
Það heyrir til hreinna undantekninga að þess sé getið í skjölum eða pappírum frá hendi Samtaka aldraðra að þau líti á sig byggingarsamvinnufélag, hvað þá heldur á vefsíðu samtakanna eða í fréttabréfum – hvað þá að þess hafi í nokkru verið getið á félagsskírteinum. Þess hefur aldrei verið getið á umsóknarblöðum um aðild – um áratugaskeið – að um byggingarsamvinnufélag væri að ræða, þrátt fyrir skýr ákvæði laganna, nema í allra seinustu tíð, eftir skráninguna haustið 2015, að skammstöfuninni BSVF hefur verið skeytt aftan við Samtök aldraðra, án þess þó að það sé frekar útskýrt fyrir hinum öldruðu umsækjendum hvað BSVF tákni.
Nær einungis í samþykktum félagsskaparins hefur verið vísað til byggingarsamvinnufélags svo að ekki verði um villst. Er þar jafnframt tekið skýrt fram í 23. grein hvaða lögum félagið lúti:
„Um skrásetningu félagsins og félagsslit fer eftir lögum um samvinnufélög. Sama er um öll önnur atriði, sem ekki eru tekin fram í samþykktum þessum en fjallað er um í þeim lögum, lögum um byggingarsamvinnufélög og lögum um fjöleignarhús eftir því sem við á.“
Sé hins vegar litið til annarra greina samþykktanna kveður gjarnan við allt annan tón, engu líkara en að Samtök aldraðra lúti allt öðrum lögum en þarna er frá greint, eða beinlínis svo að Samtök aldraðra hafi sett sér samþykktir ofar öllum lögum, alls burtséð frá 23. grein eigin samþykkta, og að félagsmálaráðuneytið hafi svo ávallt staðfest samþykktirnar blint og möglunarlaust, nýjar eða breyttar – án þess þó að „byggingarsamvinnufélagið“ hafi hirt um að tilkynna þær til samvinnufélagaskrár frekar en flestar aðrar breytingar á högum sínum.
Eftir því sem næst verður komist mun velferðarráðuneytið/félagsmálaráðuneytið hafa staðfest fernar samþykktir samtakanna – á árunum 1977, 1981, 2006 og 2017 – þrátt fyrir að þær brytu í veigamiklum atriðum gegn lögum um byggingarsamvinnufélög. Engar þessara samþykkta hafa verið tilkynntar til samvinnufélagaskrár nema samþykktirnar frá árinu 2006 (sem voru þó ekki tilkynntar fyrr en á „stofndegi“ níu árum eftir samþykkt, árið 2015...), þrátt fyrir margnefnda tilkynningarskyldu.
Í samþykktunum segir og hefur löngum verið sagt, að sá sem hafi fengið íbúð að tilhlutan félagsins megi ekki selja íbúðina nema að stjórn félagsins hafi áður hafnað forkaupsrétti. Og jafnframt að söluverð íbúðar, sem reist hafi verið á vegum félagsins, megi aldrei vera hærra en sem nemi kostnaðarverði hennar að viðbættri verðhækkun vísitölu byggingarkostnaðar, með hliðsjón af breytingum og lagfæringum að mati dómkvadds matsmanns, hversu oft sem eigendaskipti kunni að verða.
Lög um byggingarsamvinnufélög kveða hins vegar einungis á um slíkan íhlutunarrétt stjórnar fyrstu fimm árin frá lóðarúthlutun, sem svarar e.t.v. til 2ja eða 3ja ára frá lokum byggingar, svo sem áður er rakið. Þannig er ekki einungis skellt skollaeyrum við hinum skýru lagaákvæðum um íhlutunarréttinn heldur kveða samþykktirnar jafnframt á um að kaupendur að eldri íbúðum, er reistar hafa verið á vegum félagsins, greiði samtökunum 1% af endursöluverði í þóknun fyrir umsjón með fasteignasölunni, burtséð frá hvort hið áskilda fimm ára tímabil frá lóðarúthlutun samkvæmt lögunum sé liðið, sem það þó nær ávallt er, og þrátt fyrir að Samtök aldraðra hafi ekki og hafi aldrei haft minnstu heimild til að annast almenna fasteignasölu, hvorki samkvæmt lögum um sölu fasteigna, lögum um byggingarsamvinnufélög né samkvæmt öðrum lögum. Lög um byggingarsamvinnufélög heimila heldur ekki slíka gjaldtöku nema í eitt skipti fyrir öll af hverri nýrri íbúð, er nemi allt að 1% byggingarkostnaði, sbr. b-lið 3. greinar laganna – en alls ekki af neins konar endursölu íbúða.
Þá má jafnframt ljóst vera að allar matsgerðir skoðunarmanna félagsins eru algjörlega andstæðar lögum um byggingarsamvinnufélög, enda hafa skoðunarmenn þess aldrei verið dómkvaddir, þrátt fyrir skýr fyrirmæli laganna þar um, heldur hafa þeir einungis verið kosnir á félagsfundum. Þó ekki væri nema fyrir þá sök eina eru allar matsgjörðir skoðunarmanna félagsins með öllu ólöglegar og að engu hafandi, enda slíkar blekkingar raunar skýrt brot á 158. grein og 186. grein almennra hegningarlaga, nr. 19/1940.
Með athöfnum sínum í skjóli samþykkta sinna, er félagsmálaráðuneytið hefur þráfaldlega staðfest, þvert ofan í lög, hafa Samtök aldraðra brotið á stjórnarskrárvörðum eignarrétti mörg hundruð félagsmanna sinna við endursölu íbúða þeirra á undanförnum áratugum, eða eftir atvikum erfingja þeirra, og valdið þeim fjártjóni og margvíslegum skaða og miska, auk þess sem samtökin hafa beitt þúsundir manna í fasteignakaupahugleiðingum blekkingum á undanförnum áratugum með því að meina þeim viðskipti við einstaka eigendur íbúða á fullkomlega fölskum og ólöglegum forsendum.
Hafa samtökin þannig komið í veg fyrir hugsanleg fasteignaviðskipti lögum samkvæmt, ekki síst með hótunum um sviptingu félagsaðildar, hlýddu félagsmenn ekki hinum ólöglegu skilyrðum.
Í nýjustu samþykktum sínum, sem samþykktar voru í júní 2016, ganga samtökin enn lengra en áður gegn lögum um byggingarsamvinnufélög með því að vísa jafnframt til matsmanns félagsins – en ekki, svo sem áður ávallt var, til dómkvadds matsmanns einvörðungu, svo sem lögin þó áskilja afdráttarlaust í 6. grein – og beit velferðarráðuneytið höfuðið af skömm sinni með því að staðfesta samþykktirnar þannig umorðaðar umyrðalaust þann 28. mars s.l. Gildir þó einu – hinar nýju samþykktir hafa ekki verið tilkynntar til samvinnufélagaskrár fremur en svo fjölmörg önnur gögn sem stjórn félagsskaparins hefur vanrækt að tilkynna á mörgum undanförnum áratugum, gögn sem í mörgum greinum stangast þó alvarlega á við lög.
Eða hve langt getur eitt ráðuneyti gengið á vegum lögleysu með því að skjóta ávallt skjólshúsi yfir svo algjörlega óskipulögð samtök? Samtök, sem hefðu aldrei getað öðlast rétthæfi til opinberrar skráningar ef skráningargögn, samþykktir sem annað, hefðu verið metin að réttum lögum, hvorki sem byggingarsamvinnufélag né félag af neinu öðru tagi, nema að verulega breyttum samþykktum og að gjörbreyttu viðhorfi stjórnenda félagsskaparins, stjórnarmanna og annarra ábyrgðarmanna, til laganna – hvað þá að samtökin hefðu rétt til aðildar að dómsmálum, svo sem hér hefur verið bent á, sbr. 9. grein laga um samvinnufélög.
Séu óskipulögð og ranglega reifuð samtök engu að síður skráð líkt og skipulögð væru að réttum lögum – m.ö.o. í trássi við lög og í sýndarskyni, og þá raunar í blekkingarskyni – hljóta einstaklingarnir að baki þeim, ráðamenn og ábyrgðamenn þeirra, að taka fulla ábyrgð á öllum gjörðum samtakanna, líkt og óskráð væru og skipulagslaus, sem hver annar saumaklúbbur eða óformlegt veiðifélag, svo lengi sem kennitölur einstaklinganna lifa.
Ábyrgð ráðuneytis á þátttöku í slíkum sýndargjörningum, að ekki sé talað um blekkingarleik, er þó til muna og margfalt meiri, enda um opinbert stjórnvald að ræða sem byggir á trausti allra landsmanna til framkvæmdavalds. Er því raunar ætlað samkvæmt öllum lögum og stjórnarskrá að stuðla að réttarríki en ekki að niðurrifi slíks ríkis með ábyrgðarlausum staðfestingum á ólöglegum samþykktum félaga eða félagasamtaka.
Um ábyrgð ríkisskattstjóra
Þann 20. nóvember, 2015, meðtók ríkisskattstjóri, fyrirtækjaskrá, beiðni fyrir hönd „Byggingarsamvinnufélagsins Samtök aldraðra“ um leiðréttingu á skráningu, sem „teygði sig allar götur til ársins 1977“, svo sem beiðnin er fagmannlega orðuð og undirrituð af þá nýlega kjörnum formanni og löngum lögmanni félagsskaparins, Magnúsi Birni Brynjólfssyni, reyndar hæstaréttarlögmanni til margra ára.
Með beiðninni vísar Magnús til fyrri samþykkta frá 1977 og 1981, sem staðfestar hefðu verið af viðkomandi ráðuneyti, og bendir á að í þeim báðum samþykktum hafi upphaflega verið talað um Byggingarsamvinnufélagið Samtök aldraðra og hefði því að sjálfsögðu borið að skrá félagið sem slíkt í upphafi. Hins vegar virtist, að hans sögn, hafa orðið misbrestur á því og væri því með beiðninni óskað eftir leiðréttingu á skráningu félagsins.
Ítrekar hæstaréttarlögmaðurinn að lokum þá kröfu félags síns, að það fái að halda sömu kennitölu eftirleiðis sem því hafi verið úthlutað á árinu 1977 – eins og skráð hafi verið í upphafi, þ.e. 580377-0339.
Hér var að sjálfsögðu ekki einungis verið að óska eftir skráningu félags í fyrirtækjaskrá heldur beinlínis eftir skráningu félags í samvinnufélagaskrá (í samræmi við lög um samvinnufélög nr. 22/1991) sem fyrirtækjaskrá ber samkvæmt lögum að halda utan um. Fylgdu beiðninni þáverandi samþykktir félagsskaparins frá árinu 2006 (og raunar hinar einu sem tilkynnt hefur verið um til samvinnufélagaskrár til þessa, þrátt fyrir allan annan „misbrest“), líkt og enga meinbugi væri að finna á því skjali frekar en öðrum frá hendi samtakanna – og reyndar þrátt fyrir að hvergi gæti undirritunar f.h. félagsmálaráðuneytisins né stimpils til staðfestingar.
Skemmst frá að segja varð fyrirtækjaskrá/samvinnufélagaskrá ríkisskattstjóra við beiðni Magnúsar Björns án annarra krafna en viðvéku þáverandi endurskoðendum félagsins, að þeir skyldu leystir frá störfum – sem Magnús Björn tjáði félagið þá þegar hafa orðið við með bréfi til Bjarna Hlíðkvists, lögfræðings stofnunarinnar, 30. desember 2015, jafnframt því að hann áréttaði þá kröfu félags síns, að það fengi að halda sinni gömlu kennitölu.
Enda má hverjum þeim sem horfa vill til félagsins frá formlegu sjónarmiði vera ljóst hvílíkt lífshagsmunamál það hefur verið því að fá að halda sinni gömlu kennitölu (öfugt við flestan annan nútímafélagsskap!) – hvað þá í ljósi undangenginna dómsmála jafnt sem þeirra er nú eru í gangi – alls burtséð frá allri endurskoðun, sem íslensk félög og fyrirtæki hvort eð er líta oftast og einatt á sem hégóma, og hið opinbera gjarnan sem formlegan hégóma.
Í huga lögfræðings stofnunarinnar hefur því áðurnefnd 74. grein samvinnulaga síst komið upp – að stofnendur, stjórnarmenn, framkvæmdastjórar, endurskoðendur og skoðunarmenn samvinnufélags gætu verið skyldir til að bæta félagi tjón sem þeir kynnu að hafa valdið því í störfum sínum hvort sem væri af ásetningi eða gáleysi – svo sem lagagreinin kveður þó skýrt á um – eða vegna „misbrests“ svo sem hæstaréttarlögmaðurinn og formaður félagsskaparins kaus að orða það, sem má þó heita samnefnari fyrir „ásetning“ eða „gáleysi“ sem lagagreinin einmitt byggir á! Hvað þá að lögfræðingur stofnunarinnar hafi leitt hugann að því hvaða afleiðingar „misbresturinn“ gæti hafa haft á félagsaðila eða aðra sem orðið hefðu fyrir tjóni vegna brota á ákvæðum laganna eða samþykktum félags, sem síðari hluti 74. greinarinnar einmitt fjallar um.
Ekki fremur en að lögfræðingur stofnunarinnar hafi hugað að áðurnefndri 78. grein sömu laga – um samvinnufélög – sem beinlínis kveður á um sektir eða fangelsi allt að tveimur árum fyrir að skýra vísvitandi rangt eða villandi frá högum samvinnufélags eða öðru er það varðar, hvað þá hugað hafi að 81. grein, þar sem afdráttarlaust er kveðið á um að sá sem vanræki tilkynningar til samvinnufélagaskrár skuli sæta sektum eða fangelsi allt að einu ári.
Eða gæti verið að samsvarandi „misbrestur“ hafi orðið í námi lögfræðings stofnunarinnar og hæstaréttarlögmannsins, formanns margumrædds félagsskapar – að uppaldir hafi verið í lögfræðideildinni við sömu hégómlegu viðmið og endurskoðendurnir í viðskiptafræðideildinni?
Það gildir þó einu þótt ríkisskattstjóri hafi hunsað allar ábendingar um ranghæfi Samtaka aldraðra, hvort sem hann hefur kosið að skrá félagsskapinn sem byggingarsamvinnufélag, hvað þá undir svo rangsnúnu hlutverki að félagið muni starfa að leigu íbúðarhúsnæðis, líkt og skráning undanfarin tvö ár hefur borið með sér, eða sem félag á borð við átthagafélög, rótarýklúbba eða trúfélög er starfi án fjárhagslegs tilgangs, líkt og skráningin áratugum saman á undan bar með sér.
Það gildir einu. Samtök aldraðra eru og hafa ávallt verið ranglega skráð, í trássi við öll lög, ekki síður en eigin samþykktir, réttar og rangar, og eiga sér því í rauninni engan tilverurétt að lögum, þ.e.a.s. sem skipulagsbundið félag, heldur einungis einstaklingarnir sem að rekstri félagsskaparins hafa staðið. Ábyrgð þeirra er eigi lítil, að ekki sé meira sagt, og þó hégómi samanborið við ábyrgð hins opinbera – ráðuneyta og ráðherra, ríkisskattstjóra og þó ekki síst sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu.
Um afsal eignarréttar – og ábyrgð sýslumanns
Lög banna mönnum ekki að afsala sér eignarrétti, að hluta til eða að öllu leyti, eða að stofna félög um slíkt afsal. Eðlilega er byggingarsamvinnufélögum þó ekki stætt á að setja ríkari kvaðir um slíkt afsal en löggjafinn sjálfur hefur mælt fyrir um, að öðrum kosti hlyti öll löggjöf að vera vita tilgangslaus. Lög um byggingarsamvinnufélög heimila heldur ekki slíkt afsal félagsmanna sinna nema að mjög takmörkuðu leyti, sbr. 6. grein laganna, og þá einungis til fimm ára frá því lóðarúthlutun fór fram.
Samkvæmt greininni nær takmörkun eignarréttarins einungis til ákvörðunar um söluverð íbúðar innan tilskyldra fimm ára frá lóðarúthlutun – að skuli ekki vera hærra en upphaflegt kostnaðarverð hennar að viðbættri verðhækkun samkvæmt byggingarvísitölu, að teknu tilliti til fyrningar samkvæmt mati dómkvaddra manna, jafnframt því að sala skal lúta forkaupsrétti byggingarsamvinnufélags á fimm ára tímabilinu. En neyti félag eigi forkaupsréttar er eiganda heimilt að selja hverjum þeim sem félagsstjórn hefur samþykkt sem félaga – og að fimm árum liðnum frá lóðarúthlutun hverjum sem er, án afskipta félags, eðli máls og lögunum samkvæmt.
Augljóslega eru lög um byggingarsamvinnufélög – sem önnur lög – sett til að takmarka gjörðir manna og leggja mönnum samfélagslegar línur. Eða til hvers væru lög annars, ef réttur manna, hvað þá réttlausra félagasamtaka, til að toga lögin og teygja að vild, væri jafnvel takmarkalaus?
Menn geta því ekki innan vébanda byggingarsamvinnufélags komið sér saman um neins konar samþykktir er ganga gegn lögum um slík samvinnufélög né gegn öðrum lögum, hvað þá gegn ákvæðum stjórnarskrár, hvorki um eignarrétt né annan rétt, og gildir einu þótt ráðuneyti hafi horft fram hjá lögum og rétti og staðfest slíkar samþykktir.
Á hitt ber að líta að hverjum og einum er í sjálfs vald sett að setja kvaðir á eign sína, svo fremi að kvöð brjóti ekki gegn lögum að breyttu breytanda og að kvöð sé þinglýst lögformlega og af aðila er hafi til þess fullt og óvéfengjanlegt umboð og rétthæfi.
Þannig hefur það almennt verið talinn óumdeilanlegur réttur hinna ýmsu félagasamtaka, er byggt hafa íbúðir fyrir aldraða á undanförnum áratugum, að leggja á kvaðir um lágmarksaldur eigenda, t.d. 55, 60 eða 63 ár, að sjálfsögðu svo fremi að hafi verið löglegir seljendur og með fullt, lagalegt rétthæfi.
Lagalegur réttur slíkra félagasamtaka til að leggja þinglýstar kvaðir á eignir um forkaupsrétt eða útleigurétt eða kvaðir um aðild eiganda að félagasamtökunum, og þar með að viðkomandi sé bundinn af samþykktum félagsskaparins um aldur og ævi, hlýtur á hinn bóginn að vera afar umdeilanlegur, vægast sagt, nema að því marki sem rúmist innan hins áskilda fimm ára tímabils frá lóðarúthlutun samkv. lögum um byggingarsamvinnufélög – a.m.k. sé félag af slíku tagi. En væri félag af öðru tagi, hvað þá umlukið lagalegri þoku líkt og samtökin sem hér eru um rædd, hlyti það að verða að færa sönnur á lögformlegan rétt sinn til íhlutunar. Hvorug leiðin er Samtökum aldraðra fær, enda getur ekkert félag verið hvort tveggja í senn – byggingarsamvinnufélag og ekki slíkt félag.
Hvað þá heldur að nokkurt félag hafi lagalegan rétt til að krefja eigendur íbúða í heilu fjölbýlishúsunum um félagsgjöld árum og jafnvel áratugum saman þótt félag sé löngu hætt afskiptum að nýbyggingum fyrir aldraða, svo sem nokkur dæmi eru um á meðal hinna ýmsu félaga eldri borgara, sem nota á hinn bóginn félagsgjöld íbúðareigenda fyrst og fremst eða eingöngu til að kosta almenna félagsstarfsemi – þ.á.m. dansskemmtan, söngvökur, fararstjórn fyrir göngum, tungumálakennslu eða tölvukennslu – alls burtséð frá því hvort hinir kvaðabundnu félagsmenn hafi áhuga á eða hafi óskað eftir að fá að taka þátt í félagsstarfseminni, enda slík starfsemi augljóslega alls óviðkomandi almennum eignarrétti manna að íbúð. Slík félagsgjöld eru þó smámunir sem fæstir kippa sér upp við en öllu alvarlegra mál þegar félagasamtök krefjast jafnframt 1% af endursöluverði eignar, mörg hundruð þúsunda króna af eign hverju sinni sem íbúð er endurseld, líkt og þegar Samtök aldraðra eiga í hlut, þvert gegn lögum um byggingarsamvinnufélög, sem heimila slíka gjaldtöku einungis af nýbyggingum, í eitt skipti fyrir öll.
Samkvæmt framgreindu verður með engu móti séð að byggingarsamvinnufélögum sé stætt á að setja ríkari kvaðir um eignarrétt en löggjafinn sjálfur hefur mælt fyrir um, hvort sem er um forkaupsrétt eða annan íhlutunarrétt. Engu að síður hefur sýslumaðurinn á höðuborgarsvæðinu ítrekað hafnað að aflýsa kvöðum á íbúðum í hans umdæmi, sem reistar hafa verið fyrir tilstuðlan Samtaka aldraðra í skjóli laga um byggingarsamvinnufélög, þrátt fyrir að meira en fimm ár væru liðin frá lóðarúthlutun.
Og gildir einu þótt sýslumanni hafi þráfaldlega verið bent á lagalegt vanhæfi Samtaka aldraðra og hvernig þverbrotið hafa lög um byggingarsamvinnufélög – hvað þá heldur að það hafi nokkurn tímann verið slíkt félag að lögum – og það þrátt fyrir að sýslumaður sjálfur sé fyrrum formaður Félags fasteignasala og ætti að minnsta kosti sem slíkum að vera fullkunnugt um hverjum sé heimilt að stunda fasteignamiðlun, kunni hann lögin, og þá hver viðurlög eru við því að leppa slíka heimildarlausa starfsemi.
Um rétthæfi samvinnufélags – og hvenær beri að slíta slíku félagi
62. grein laga um samvinnufélög fjallar um hvenær slíku félagi skuli slíta og með hvaða hætti slitum skuli vera háttað ef stjórn félags bregst ekki við. A-hluti greinarinnar fjallar í sex liðum um þau atriði sem leiða til slita félags. Skilyrði samkv. liðum nr. 2, 4 og 6 koma hér til álita og ætti stjórn hvers félags raunar að sjálfgefnu að óska eftir slitum þess samkvæmt lögunum, að skilyrðunum uppfylltum:
Samkv. lið nr. 2 skal m.a. slíta samvinnufélagi ef það fullnægir ekki ákvæðum laga um samvinnufélög. Samkv. lið nr. 4 skal slíta samvinnufélagi ef það vanrækir að senda samvinnufélagaskrá tilkynningar sem því er skylt samkvæmt ákvæðum sömu laga.
Samkv. lið nr. 6 skal slíta samvinnufélagi ef endurskoðaðir og samþykktir ársreikningar hafa ekki verið sendir ársreikningaskrá fyrir þrjú síðustu reikningsár, sbr. ákvæði laga um ársreikninga, um skil á ársreikningum.
B-hluti 62. greinar fjallar á hinn bóginn um með hvaða hætti slitum skuli vera háttað ef stjórn félags beinlínis vanrækir að óska eftir slitum þess. Skal héraðsdómari þá taka félagið til skipta að kröfu ráðherra eða félagsaðila.
Með ákvæðinu um mögulega aðkomu ráðherra að slitaskiptum eru lögin augljóslega að vísa til og undirstrika eftirlitsvald hins opinbera, líkt og ákvæði í lögum um hlutafélög og einkahlutafélög heimila ráðherra nokkuð samsvarandi afskipti þegar svo ber undir. Áhrifavald einstakra félagsmanna í samvinnufélögum er þó almennt og mun veikara en einstakra hluthafa í hlutafélögum, a.m.k. þeirra sem geta beitt sér í krafti hlutafjáreignar, og því enn frekari ástæða til að ráðherra hafi svo sterkt íhlutunarvald um málefni samvinnufélaga fari þau ekki að lögum.
Eðli máls samkvæmt eru félagsmenn Samtaka aldraðra komnir yfir miðjan aldur og margir á efri ár og eru þeir því fremur ólíklegir til að standa í stappi við héraðsdómara, hvað þá við félagsstjórn, sem hefur ekki hikað við að hóta hverjum þeim brottrekstri úr samtökunum sem henni ekki þóknast.
Það er þá því frekari ástæða til að ráðherra beiti lagaheimild sinni til að verja samfélagið ólögum og geri þá kröfu til héraðsdómara að taki hið ólöglega Byggingarsamvinnufélag Samtaka aldraðra til skipta.
Samtök aldraðra standa í raun á milli tveggja elda, ef svo má segja – milli tveggja ráðuneyta, velferðarráðuneytisins, sem hefur haft í hendi sér áratugum saman að staðfesta ólöglegar samþykktir samtakanna sem byggingarsamvinnufélags eða að fara að lögum og beinlínis synja þeim staðfestingar, og atvinnu- og nýsköpunarráðuneytisins, eða með réttu ráðherra atvinnumála, sem hefur vald til að krefjast þess af héraðsdómara að bregðist við margháttaðri vanrækslu félagsstjórnar um áratugaskeið og taki hið ólöglega samvinnufélag til skipta, enda fer atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið með skráningu fyrirtækja og félaga og málefni fyrirtækjaskrár og ársreikningaskrár samkv. forsetaúrskurði um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, sbr. lög nr. 1/2017, 2. gr. 4. tölulið, málsgreinar i og joð.
Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið má ljóst vera að einstaklingarnir, sem að rekstri Samtaka aldraðra hafa staðið, bera höfuðábyrgð. Það er raunar ráðgáta hvað stjórnarmönnum félagsskaparins hefur gengið til. Varla fégirni en kannski trúgirni, svo blind trú á markmið, að í engu hafi verið skeytt um lagalegan grundvöll, enda skyldi tilgangurinn helga meðalið. Ábyrgð þeirra er engu að síður gríðarleg, og nær reyndar til þúsunda ólöglegra gjörninga á undanförnum áratugum, og er þó hégómi samanborið við ábyrgð hins opinbera – ráðuneyta og ráðherra, ríkisskattstjóra og þó ekki síst sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu, sem og dómstóla, sem hafa látið undir höfuð leggjast að kanna rétthæfi samtakanna.
Höfundur er áhugamaður um réttmæta stjórnsýslu.
Helstu heimildir og ítarefni:
Vefur ríkisskattstjóra: Stofnun félaga í atvinnurekstri / Félagasamtök og önnur félög
Vefur Hagstofu Íslands: ÍSAT2008 – Íslensk atvinnugreinaflokkun – Hagstofa Íslands 2009
Vefur Alþingis: Lög um byggingarsamvinnufélög, nr. 153/1998 með síðari tíma breytingum
Vefur Alþingis: Lög um samvinnufélög, nr. 22/1991 með síðari tíma breytingum
Vefur Alþingis: Almenn hegningarlög, nr. 19/1940 með síðari tíma breytingum
Vefur Alþingis: Lög um meðferð einkamála, nr 91/1991 með síðari tíma breytingum
Vefur Samtaka aldraðra: http://www.aldradir.is/
40 ára afmælisrit Samtaka aldraðra / Fréttabréf 2013: 1. tbl. 28. árg. apríl 2013
Vefsafn Landsbókasafns – Háskólabókasafns: Fasteignaauglýsingar Samtaka aldraðra 2008-2016
Vefsafn Landsbókasafns – Háskólabókasafns: Fasteignaauglýsingar Samtaka aldraðra 2016-2017
Ríkisskattstjóri: Öll fyrirliggjandi gögn í samvinnufélagaskrá RSK um Samtök aldraðra í júní 2017