„Þetta er allt sama vitleysan.“
„Þjóðin mun hvort eð er kjósa yfir sig það sama aftur.“
Þið kannist við þetta. Sannleikurinn er hins vegar, að miðað við kjörsókn síðustu kosninga voru bara u.þ.b. 3000 atkvæði greidd per þingsæti í boði. Það þýðir til dæmis, að ef meðlimir "Beauty Tips!" hópsins á Facebook tækju sig saman gætu þeir haft áhrif á 11 af þeim 63 þingsætum sem eru í boði.
„Góða systir“ gæti stýrt 17 þingsætum.
„Brask og brall“ gæti svo tekið hreinan meirihluta með 36 þingsætum.
Það er að sjálfsögðu margt annað sem spilar inn í, svo sem kjördæmi, lágmarksþröskuldar og annað. En við þurfum ekki að fara út í þau smáatriði hér, þú þarft bara að vita hvað atkvæðið þitt skiptir miklu máli. Það skiptir líka máli hvert atkvæðið þitt fer. Það þarf að fara til flokks sem er fullur af fólki sem vill að þú hafir meiri pening, meira frelsi, meiri þjónustu, meiri upplýsingar og fleiri valmöguleika!
Jöfnuður er mikilvægastur - ekki stöðnun
Fæstir á Íslandi fæðast með silfurskeið í munni. Við eigum stórkostlega sögu af jöfnuði, stéttaskipting var varla til fyrir hrun. Nú stöndum við frammi fyrir því, að ekki bara erum við farin að skiptast í stéttir, heldur er meirihluti þjóðarinnar sem áður hét millistéttin, orðinn að lágmillistétt.
Ekki láta plata þig þegar sá sem gengur um með fullan kjaft silfurskeiða, glamrandi úr græðgi, segir að þú megir kannski fá eina sem dettur í gólfið.
Ekki láta segja þér að efnahagurinn sé góður þegar þú getur ekki greitt eina leigugreiðslu með laununum þínum.
Ekki láta segja þér að breytingar séu slæmar og við þurfum stöðugleika. Við höfum leitað af okkur allan grun af stöðugleikanum, og finnum einungis stöðnun. Það eina sem við þurfum er samstaða. Samstaða stjórnar og borgara um jöfnuð.
Þú færð engar silfurskeiðar með því að þykjast
Að styðja silfurskeið gerir þeirra hagsmuni ekki að þínum, og færir þér engar silfurskeiðar, þú ert ekki að plata neinn. Þetta er bara eins og að fylla á tankinn hjá vini þínum áður en þið farið á rúntinn, því hann á flottari bíl. En vinurinn beilar aftur og aftur, stingur af í hringferð með tankinn sem þú borgaðir fyrir. Eftir situr þú blankur og bensínlaus.
Við erum ekki í flottheitakeppni þegar við kjósum. Við erum einfaldlega að segja: „Gjörðu svo vel, hér eru tæplega 40% af laununum mínum næstu fjögur árin, notaðu þennan pening minn til að gera lífið mitt betra.“
Hvernig getur sá sem fær alltaf aðra til að fylla á tankinn hjá sér, skilið hvað það er að vera bensínlaus?
Ekki svara þegar hann hringir og biður þig um annan bensíntank til að finna smá stöðugleika í keyrslunni, áður en þið farið loksins á rúntinn. Þú lærðir af mistökunum, þú veist að þið eruð ekki á leiðinni á rúntinn, og veist að þetta er ekki hollur vinskapur.
Sem betur fer eru Píratar reiðubúnir til að leyfa þér að ráða ferðinni á rúntinum (beint lýðræði), passa að þú villist ekki (gagnsæi, rökstuddar ákvarðanatökur), og vilja ekkert annað en að halda tankinum þínum fullum (réttlát dreifing þjóðararðs, frelsi, friðhelgi, mannréttindi).
Þessi samstaða er framtíð okkar Pírata.
Höfundur er arkitekt, hundamamma og Pírati.