Samkvæmt skoðanakönnunum er Vinstrihreyfingin – grænt framboð nú stærsti stjórnmálaflokkurinn. Meirihluti þjóðarinnar vill sjá þá hreyfingu leiða nýja ríkisstjórn. Katrín Jakobsdóttir hefur áunnið sér fádæma traust og staðist gylliboð um að fara í ríkisstjórn með flokkum sem stefna í aðra átt. Staðið fast á stefnumálum síns flokks, þess vegna verið leiðandi í stjórnarandstöðu allan sinn formannstíma. Nú gæti það breyst.
Þjóðin treystir Vinstri grænum þegar á bjátar. Sumt í stefnu VG getur verið óþægilegt fyrir einhverja - rétt eins og það getur verið sárt að gangast undir læknisaðgerð – en þó þess virði að leggja á sig í von um bata. Til dæmis mun ríkasti hluti þjóðarinnar fá minna í sinn hlut ef fylgt verður stefnu Vinstri grænna og einhverjir framkvæmdaglaðir fá ekki að virkja og byggja allt sem þá langar til. Eins víst að draumar sumra um að verða auðugir og valdamiklir án þess að hafa mikið fyrir því muni ekki rætast.
En öryggi og velgengni þorra þjóðarinnar eykst ef Vinstrihreyfingin fær að ráða för. Það er augljóst nú þegar við höfum búið við tvær hægristjórnir í röð sem hvorug hefur haldið út kjörtímabil, þrátt fyrir tal um festu og trausta stjórn. Tvær stjórnir sem hafa leyft fátækt og vonleysi að grafa um sig í góðæri án þess að reisa rönd við. Stjórnir sem taka sér löng frí og nenna naumast að stjórna – og telja líklega best að aðhafast sem minnst til að þeir ríku og freku geti farið sínu fram.
Vinstrihreyfingin – grænt framboð er ung, fyllir bráðum tvo áratugi. Voru fyrsta áratuginn mjög virk í stjórnarandstöðu, hörkudugleg, mjög áberandi á Alþingi þrátt fyrir fáa þingmenn, héldu ótal fundi og námskeið og settu fram nýja stefnu í nokkrum málaflokkum sem þótti fráleit í byrjun en næsta sjálfsögð nú.
Flokkurinn setti strax á fyrstu árum fram allt aðra atvinnustefnu. Að innkalla fiskveiðikvótann og úthluta á annan hátt með jafnræði og byggðasjónarmið að leiðarljósi. Setti náttúru- og umhverfisvernd á oddinn og barðist ötullega gegn sívaxandi náttúrueyðieggingu. Barðist af festu fyrir friðsamlegri sambúð þjóða – að Íslendingar beittu áhrifum sínum á alþjóðavettvangi í þágu friðar. Mótmæltu innrás í Írak og Afganistan og fleiri óþokkabrögðum stórveldanna. Voru – og eru – eini flokkurinn sem þorir að krefjast þess að Ísland gangi úr vestræna hernaðarbandalaginu NATO og gangi ekki í Evrópubandalagið, heldur marki sér ábyrga og sjálfstæða stefnu.
Vinstrihreyfingin er feminískur flokkur. Hefur frá upphafi barist fyrir kvenfrelsi - fyrir því að efla vald kvenna á kostnað úrelts feðraveldis. Hefur alla tíð barist fyrir jöfnuði og að hagur þeirra sem minnst hafa og veikast standa verði bættur. Hefur viljað skattleggja ofurgróða og girða fyrir skattsvik, m.a. það þegar erlendir stóriðjufurstar flytja úr landi gróða sem hér skapast fyrir tilverkan íslensks vinnuafls og íslenskra náttúrugæða. Leggja áherslu á annað en mengandi stóriðju. Þessi stefnumál voru talin fráleit í byrjun en æ fleiri átta sig nú á að þau eru það sem koma skal.
Vinstri græn voru í ríkisstjórn eitt kjördæmabil. Langstærsta verkefnið var að koma Íslandi aftur á lappirnar eftir hrun sem var afleiðing villtrar, óheftrar frjálshyggjustefnu Sjálfstæðisflokksins með stuðningi Framsóknar og Krata. Björgunin tókst, svo eftir var tekið, velferðarkerfið varið og hagsmunir þeirra verst stöddu. Allt var á ferð upp á við þegar hægristjórnir tóku við. Sumt af þessu hefði mátt gera betur, eftir á að hyggja, og mikill skaði að hægriöflunum tókst að stöðva úrbætur í fiskveiðistjórnun og samþykkt nýrrar stjórnarskrár. Kjörtímabilið entist ekki til að koma nema fáum stefnumálum VG í farveg, t.d. misstu allt of margir húsnæðið og áætlun um að gera ungu fólki kleift að eignast þak yfir höfuðið eða leigja á sanngjörnum kjörum náði ekki fram, enda landið stórskuldugt og undir járnhæl Alþjóða gjaldeyrissjóðsins. Þráhyggja Samfylkingarinnar um að troða Íslandi í Evrópubandalagið eitraði ríkisstjórnarsamstarfið og það reyndi rosalega á þingmenn og ráðherra VG. Katrín var menntamálaráðherra vinstri stjórnarinnar og tókst hávaðalaust, þrátt fyrir ömurlegar aðstæður, að efla menntakerfið, m.a. með menntunartilboðum fyrir atvinnulausa.
Það er ánægjulegt að sjá í skoðanakönnunum að meirihluti þjóðarinnar treystir nú á Vinstrihreyfinguna – grænt framboð. Kannanirnar gefa vísbendingar – og von – en úrslit kosninganna gilda. Vinstrihreyfingin hefur úr litlum fjármunum að spila til að kynna sín stefnumál, en félags- og stuðningsmenn gera allt sem þeir geta til að kosningarnar verði á sama veg og kannanirnar. Spennandi tími fram undan! Vonandi sér þjóðin til þess að allt fari vel og við fáum frábæra stjórn eftir kosningar.
Höfundur er líffræðingur og eftirlaunamaður, í stjórn VG á Suðurnesjum.