Kosningar eru eitt helsta tæki almennings til að hafa áhrif á þróun og skipulagningu samfélagsins, en þær snúast líka um mismunandi hugmyndir ólíkra hópa um hvernig stjórna eigi landinu, hvað leggja eigi áherslu á og hvernig dreifa eigi lífsgæðunum. Ekki kemur því á óvart að stjórnmálamenn keppist um að sannfæra kjósendur um hversu vel þeirra flokkur hafi staðið sig í stjórn eða stjórnarandstöðu, hversu vel hann muni hugsa um hag okkar allra ef við kjósum rétt, og jafnvel hversu ómögulegt samfélagið yrði ef aðrir héldu völdum eða öðluðust þau. Fulltrúar flokkanna leggja áherslu á þau sjónarmið flokksins sem líkleg eru til að hafa hljómgrunn meðal almennings.
Að loknum kosningum standa einhverjir uppi sem sigurvegarar en aðrir sitja eftir með sárt ennið. Í fullkomnu lýðræðisríki myndu þeir eðlilega vinna kosningar sem ætla sér að móta samfélagið í samræmi við vilja meirihluta kjósenda. En raunveruleikinn er ekki alltaf þannig. Kjósendur geta orðið fyrir vonbrigðum ef og þegar í ljós kemur gjörðir stjórnmálaflokksins sem þeir kusu endurspegla ekki vilja þeirra. Þrátt fyrir loforð stjórnmálaflokkanna um að starfa í þágu allra þá er það ekki alltaf raunin.
Ísland tekur reglulega þátt í alþjóðlegu viðhorfakönnuninni (ISSP). Könnunin er samstarfsverkefni vísindamanna og stofnanna í rúmlega 40 löndum og fylgir framkvæmdin ströngustu gæðakröfum. Könnunin var lögð fyrir á Íslandi á tímabilinu febrúar til maí 2017. Dregið var tilviljanaúrtak úr Þjóðskrá. Eins og í flestum könnunum mætti svarhlutfall vera hærra (47%) en unnið er úr gögnum þannig að þau endurspegla viðhorf Íslendinga sem best.
Þessi nýja könnun er sérstaklega áhugaverð með tilliti til komandi kosninga þar sem hún sýnir okkur væntingar Íslendinga til hlutverks stjórnvalda. Könnunin leitaði álits svarenda á því 1) hvert hlutverk stjórnvalda eigi að vera; 2) hvert rekstrarform veigamikillar almannaþjónustu eigi á að vera; 3) hvernig verja skuli sameiginlegum sjóðum; og 4) hvaða árangri stjórnvöld hafa náð í ákveðnum málaflokkum.
Hvert er hlutverk ríkisins?
Mynd 1 – Hlutverk
Mynd 1 sýnir hlutfall svarenda sem að telur að stjórnvöld eigi að bera ábyrgð á mismunandi málaflokkum og eru teknir saman þeir sem að segja að þau eigi örugglega eða sennilega að bera ábyrgð. Niðurstöður sýna að Íslendingar eru almennt sammála um að stjórnvöld eigi að gegna mikilvægu hlutverki í veigamiklum málaflokkum. Í nær öllum málaflokkum segja um og yfir 80% að þau eigi að vera ábyrg. Sérstaklega má nefna að yfir 90% eru sammála um ábyrgð þeirra í fjórum málaflokkum: að veita öldruðum viðunandi lífsskilyrði, að veita veiku fólki heilbrigðisþjónustu, að setja ströng lög sem lágmarka skaðleg áhrif iðnaðar á umhverfið og á því að stuðla að jafnrétti milli karla og kvenna. Því virðist skoðun yfirgnæfandi meirihluta Íslendinga vera sú að stjórnvöld eigi beri ábyrgð á þessum málaflokkum.
Væntingar um ábyrgð stjórnvalda virðast vera skýrar í hugum landsmanna en uppfylla má þessa ábyrgð á ýmsa vegu. Stjórnvöld geta til dæmis rekið ríkisstofnanir eða gert samninga við einkaaðila sem reka stofnanirnar í hagnaðarskyni. Auk þess geta sjálfstæðar stofnanir sinnt þjónustu án þess að slíkt sé gert í hagnaðarskyni. Til að fá skýrari mynd af hvaða rekstrarform Íslendingar vilja helst var spurt að því hver ætti að sjá um að reka grunnskóla, heilbrigðisþjónustu og umönnun fyrir aldraða.
Mynd 2 – Rekstrarform
Mynd 2 sýnir niðurstöður fyrir hundraðshlutfall svarenda sem telja að ríkið eigi að veita þjónustuna. Fram kemur yfirgnæfandi vilji til þess að stjórnvöld veiti þjónustuna, en 97% telja að þau eigi að sjá um grunnskólamenntun, 94% að þau eigi að veita heilbrigðisþjónustu og 84% að þau eigi að annast umönnun aldraðra. Niðurstöður benda því til þess að mjög lítill hluti þjóðarinnar vilji eitthvað annað rekstrarform en ríkisrekna þjónustu. Áhugavert er að nánast engin stuðningur er við að einkafyrirtæki eða samtök sem eru rekin í hagnaðarskyni sinni þjónustunni. Aðeins 1% svarenda telja við hæfi að heilbrigðisþjónusta og gunnskólamenntun séu rekin á slíkan hátt.
Hvernig á að verja sameiginlegum sjóðum?
Sú niðurstaða að almenningur telji að stjórnvöld eigi að bera meginábyrgð í mörgum málaflokkum þarf ekki að þýða að almenningur vilji eyða miklum peningum í þessa sömu málaflokka. Til að meta það var spurt hvort fólk vildi eyða meira, minna eða um það bil því sama og nú er gert í sjö málaflokkum. Á mynd 3 má sjá hlutfall svarenda sem vilja eyða meira eða miklu meira í hvern málaflokk.
Mynd 3 – Eyðsla
Afstaðan til þess hvort auka eigi útgjöld til heilbrigðismála sker sig úr, en 93% vilja að meiru sé eytt í heilbrigðismál. Þar á eftir koma lögregla og löggæsla, menntakerfið og eftirlaun, en á bilinu 70-80% svarenda vilja sjá meiri fjármuni fara í þessa málaflokka. Um það bil helmingur svarenda vill verja miklu meiri fjármunum í heilbrigðismálin en um fjórðungur vill verja miklu meiri fjármunum í lögreglu, menntun og eftirlaun. Sérstaklega var tekið fram við svarendur að ef þeir veldu að eyða miklu meira gæti það þýtt að hækka yrði skatta. Niðurstöður benda þannig til þess að um það bil helmingur þjóðarinnar sé tilbúinn til þess að samþykkja hærri skatta ef það þýði meiri útgjöld til heilbrigðismála.
Hafa stjórnvöld staðið sig vel?
Að lokum bjóða gögnin upp á þann möguleika að skoða álit almennings á árangri stjórnvalda. Mynd 4 sýnir niðurstöður fyrir þrjá málaflokka, en þær benda til þess að almenningur gefi stjórnvöldum falleinkunn þegar kemur að því að vernda sjúka og aldraða. Nær tveir þriðju aðspurðra telja að stjórnvöld hafi staðið sig nokkuð eða mjög illa í að veita eldri borgurum viðunandi lífsskilyrði og 54% telja slíkt hið sama þegar kemur að heilbrigðisþjónustu. Svarendur eru ánægðari með frammistöðu stjórnvalda í að takast á við öryggisógnir, en einungis 19% telja að stjórnvöld hafi staðið sig mjög eða frekar illa. Þessu má snúa við og skoða hversu margir telja að ríkisstjórnin hafi staðið sig vel eða mjög vel í að sinna sjúkum og öldruðum. Aðeins 15% telja að stjórnvöld hafi náð frekar eða mjög miklum árangri í að veita heilbrigðisþjónustu og einungis 10% telja að það sama varðandi það að tryggja eldri borgurum viðunandi lífsskilyrði.
Mynd 4 – Árangur
Hvernig samfélag viljum við árið 2017?
Þjóðin er nokkuð sammála um að ríkið eigi að bera mikla ábyrgð í mikilvægum málaflokkum og að sjá um rekstur á mikilvægum grunnstoðum samfélagsins. Sú samstaða sem fram kemur í könnuninni virðist vera í mótsögn við það hvernig margir upplifa íslenskt samfélag í dag og við það hvernig umræðan er oft og tíðum, þar sem oft er nefnt að það búi nú orðið tvær þjóðir í landinu. Hvaða skipting er notuð fer eftir tilefninu. Við höfum til dæmis heyrt um landsbyggðina á móti höfuðborginni, 1% á móti öllum hinum, gamla varðhunda á móti þeim sem vilja breytingar, eða jafnvel þá sem versla í Costco og þá sem versla í Melabúðinni. En þessar niðurstöður sýna að við eigum sameiginlega grundvallarsýn á það hvernig samfélag við viljum, og rétt eins og við komum saman sem þjóð þegar íþróttaliðunum okkar gengur vel á stórmótum, þá er spurning hvernig okkur tekst að koma saman til að byggja hér það samfélag sem meirihlutinn vill sjá. Samkvæmt könnuninni er það samfélag þar sem stjórnvöld hafa það lykilhlutverk að bera ábyrgð á og veita grunnþjónustu velferðarkerfisins, tryggja jöfnuð í landinu og vernda umhverfið. Það kemur líka í ljós að almenningur er ekkert sérstaklega ánægður með hvernig stjórnvöld hafa staðið sig í veigamiklum málaflokkum og því stöndum við á ákveðnum tímamótum núna þegar ríkisstjórn á Íslandi hefur hrakist frá völdum í þriðja sinn á innan við 10 árum. Þessi tímamót fela í sér tækifæri til þess að skoða vandlega hvað það er sem flokkarnir hafa upp á að bjóða og þá sérstaklega hverjum má treysta best til að standa vörð um veigamikla málaflokka. Við þeirri spurningu er hvorki einfalt né rétt svar, en það sem þessar niðurstöður sýna er að í grunninn eru Íslendingar nokkuð sammála um að þeir vilja sterkt velferðarsamfélag.