Hvernig samfélag vilja Íslendingar?

Sigrún Ólafsdóttir, prófessor við félags- og mannvísindasvið Háskóla Íslands, skrifar um niðurstöður alþjóðlegrar viðhorfskönnunar um þjónustuhlutverk ríkisins.

Auglýsing

Kosn­ingar eru eitt helsta tæki almenn­ings til að hafa áhrif á þróun og skipu­lagn­ingu sam­fé­lags­ins, en þær snú­ast líka um mis­mun­andi hug­myndir ólíkra hópa um hvernig stjórna eigi land­inu, hvað leggja eigi áherslu á og hvernig dreifa eigi lífs­gæð­un­um. Ekki kemur því á óvart að stjórn­mála­menn kepp­ist um að sann­færa kjós­endur um hversu vel þeirra flokkur hafi staðið sig í stjórn eða stjórn­ar­and­stöðu, hversu vel hann muni hugsa um hag okkar allra ef við kjósum rétt, og jafn­vel hversu ómögu­legt sam­fé­lagið yrði ef aðrir héldu völdum eða öðl­uð­ust þau. Full­trúar flokk­anna leggja áherslu á þau sjón­ar­mið flokks­ins sem lík­leg eru til að hafa hljóm­grunn meðal almenn­ings.

Að loknum kosn­ingum standa ein­hverjir uppi sem sig­ur­veg­arar en aðrir sitja eftir með sárt enn­ið. Í full­komnu lýð­ræð­is­ríki myndu þeir eðli­lega vinna kosn­ingar sem ætla sér að móta sam­fé­lagið í sam­ræmi við vilja meiri­hluta kjós­enda. En raun­veru­leik­inn er ekki alltaf þannig. Kjós­endur geta orðið fyrir von­brigðum ef og þegar í ljós kemur gjörðir stjórn­mála­flokks­ins sem þeir kusu end­ur­spegla ekki vilja þeirra. Þrátt fyrir lof­orð stjórn­mála­flokk­anna um að starfa í þágu allra þá er það ekki alltaf raun­in.

Ísland tekur reglu­lega þátt í alþjóð­legu við­horfa­könn­un­inni (IS­SP). Könn­unin er sam­starfs­verk­efni vís­inda­manna og stofn­anna í rúm­lega 40 löndum og fylgir fram­kvæmdin ströng­ustu gæða­kröf­um. Könn­unin var lögð fyrir á Íslandi á tíma­bil­inu febr­úar til maí 2017. Dregið var til­vilj­ana­úr­tak úr Þjóð­skrá. Eins og í flestum könn­unum mætti svar­hlut­fall vera hærra (47%) en unnið er úr gögnum þannig að þau end­ur­spegla við­horf Íslend­inga sem best.

Auglýsing

Þessi nýja könnun er sér­stak­lega áhuga­verð með til­liti til kom­andi kosn­inga þar sem hún sýnir okkur vænt­ingar Íslend­inga til hlut­verks stjórn­valda. Könn­unin leit­aði álits svar­enda á því 1) hvert hlut­verk stjórn­valda eigi að vera; 2) hvert rekstr­ar­form veiga­mik­illar almanna­þjón­ustu eigi á að vera; 3) hvernig verja skuli sam­eig­in­legum sjóð­um; og 4) hvaða árangri stjórn­völd hafa náð í ákveðnum mála­flokk­um.

Hvert er hlut­verk rík­is­ins?

Mynd 1 – Hlut­verk

Mynd 1

Mynd 1 sýnir hlut­fall svar­enda sem að telur að stjórn­völd eigi að bera ábyrgð á mis­mun­andi mála­flokkum og eru teknir saman þeir sem að segja að þau eigi örugg­lega eða senni­lega að bera ábyrgð. Nið­ur­stöður sýna að Íslend­ingar eru almennt sam­mála um að stjórn­völd eigi að gegna mik­il­vægu hlut­verki í veiga­miklum mála­flokk­um. Í nær öllum mála­flokkum segja um og yfir 80% að þau eigi að vera ábyrg. Sér­stak­lega má nefna að yfir 90% eru sam­mála um ábyrgð þeirra í fjórum mála­flokk­um: að veita öldruðum við­un­andi lífs­skil­yrði, að veita veiku fólki heil­brigð­is­þjón­ustu, að setja ströng lög sem lág­marka skað­leg áhrif iðn­aðar á umhverfið og á því að stuðla að jafn­rétti milli karla og kvenna. Því virð­ist skoðun yfir­gnæf­andi meiri­hluta Íslend­inga vera sú að stjórn­völd eigi beri ábyrgð á þessum mála­flokk­um.

Vænt­ingar um ábyrgð stjórn­valda virð­ast vera skýrar í hugum lands­manna en upp­fylla má þessa ábyrgð á ýmsa vegu. Stjórn­völd geta til dæmis rekið rík­is­stofn­anir eða gert samn­inga við einka­að­ila sem reka stofn­an­irnar í hagn­að­ar­skyni. Auk þess geta sjálf­stæðar stofn­anir sinnt þjón­ustu án þess að slíkt sé gert í hagn­að­ar­skyni. Til að fá skýr­ari mynd af hvaða rekstr­ar­form Íslend­ingar vilja helst var spurt að því hver ætti að sjá um að reka grunn­skóla, heil­brigð­is­þjón­ustu og umönnun fyrir aldr­aða.

Mynd 2 – Rekstr­ar­form

Mynd 2

Mynd 2 sýnir nið­ur­stöður fyrir hund­raðs­hlut­fall svar­enda sem telja að ríkið eigi að veita þjón­ust­una. Fram kemur yfir­gnæf­andi vilji til þess að stjórn­völd veiti þjón­ust­una, en 97% telja að þau eigi að sjá um grunn­skóla­mennt­un, 94% að þau eigi að veita heil­brigð­is­þjón­ustu og 84% að þau eigi að ann­ast umönnun aldr­aðra. Nið­ur­stöður benda því til þess að mjög lít­ill hluti þjóð­ar­innar vilji eitt­hvað annað rekstr­ar­form en rík­is­rekna þjón­ustu. Áhuga­vert er að nán­ast engin stuðn­ingur er við að einka­fyr­ir­tæki eða sam­tök sem eru rekin í hagn­að­ar­skyni sinni þjón­ust­unni. Aðeins 1% svar­enda telja við hæfi að heil­brigð­is­þjón­usta og gunn­skóla­menntun séu rekin á slíkan hátt.

Hvernig á að verja sam­eig­in­legum sjóð­um?

Sú nið­ur­staða að almenn­ingur telji að stjórn­völd eigi að bera meg­in­á­byrgð í mörgum mála­flokkum þarf ekki að þýða að almenn­ingur vilji eyða miklum pen­ingum í þessa sömu mála­flokka. Til að meta það var spurt hvort fólk vildi eyða meira, minna eða um það bil því sama og nú er gert í sjö mála­flokk­um. Á mynd 3 má sjá hlut­fall svar­enda sem vilja eyða meira eða miklu meira í hvern mála­flokk.

Mynd 3 – Eyðsla

Mynd 3

Afstaðan til þess hvort auka eigi útgjöld til heil­brigð­is­mála sker sig úr, en 93% vilja að meiru sé eytt í heil­brigð­is­mál. Þar á eftir koma lög­regla og lög­gæsla, mennta­kerfið og eft­ir­laun, en á bil­inu 70-80% svar­enda vilja sjá meiri fjár­muni fara í þessa mála­flokka. Um það bil helm­ingur svar­enda vill verja miklu meiri fjár­munum í heil­brigð­is­málin en um fjórð­ungur vill verja miklu meiri fjár­munum í lög­reglu, menntun og eft­ir­laun. Sér­stak­lega var tekið fram við svar­endur að ef þeir veldu að eyða miklu meira gæti það þýtt að hækka yrði skatta. Nið­ur­stöður benda þannig til þess að um það bil helm­ingur þjóð­ar­innar sé til­bú­inn til þess að sam­þykkja hærri skatta ef það þýði meiri útgjöld til heil­brigð­is­mála.

Hafa stjórn­völd staðið sig vel?

Að lokum bjóða gögnin upp á þann mögu­leika að skoða álit almenn­ings á árangri stjórn­valda. Mynd 4 sýnir nið­ur­stöður fyrir þrjá mála­flokka, en þær benda til þess að almenn­ingur gefi stjórn­völdum fall­ein­kunn þegar kemur að því að vernda sjúka og aldr­aða. Nær tveir þriðju aðspurðra telja að stjórn­völd hafi staðið sig nokkuð eða mjög illa í að veita eldri borg­urum við­un­andi lífs­skil­yrði og 54% telja slíkt hið sama þegar kemur að heil­brigð­is­þjón­ustu. Svar­endur eru ánægð­ari með frammi­stöðu stjórn­valda í að takast á við öryggisógn­ir, en ein­ungis 19% telja að stjórn­völd hafi staðið sig mjög eða frekar illa. Þessu má snúa við og skoða hversu margir telja að rík­is­stjórnin hafi staðið sig vel eða mjög vel í að sinna sjúkum og öldruð­um. Aðeins 15% telja að stjórn­völd hafi náð frekar eða mjög miklum árangri í að veita heil­brigð­is­þjón­ustu og ein­ungis 10% telja að það sama varð­andi það að tryggja eldri borg­urum við­un­andi lífs­skil­yrði.

Mynd 4 – Árangur

Mynd 4

Hvernig sam­fé­lag viljum við árið 2017?

Þjóðin er nokkuð sam­mála um að ríkið eigi að bera mikla ábyrgð í mik­il­vægum mála­flokkum og að sjá um rekstur á mik­il­vægum grunn­stoðum sam­fé­lags­ins. Sú sam­staða sem fram kemur í könn­un­inni virð­ist vera í mót­sögn við það hvernig margir upp­lifa íslenskt sam­fé­lag í dag og við það hvernig umræðan er oft og tíð­um, þar sem oft er nefnt að það búi nú orðið tvær þjóðir í land­inu. Hvaða skipt­ing er notuð fer eftir til­efn­inu. Við höfum til dæmis heyrt um lands­byggð­ina á móti höf­uð­borg­inni, 1% á móti öllum hin­um, gamla varð­hunda á móti þeim sem vilja breyt­ing­ar, eða jafn­vel þá sem versla í Costco og þá sem versla í Mela­búð­inni. En þessar nið­ur­stöður sýna að við eigum sam­eig­in­lega grund­vall­ar­sýn á það hvernig sam­fé­lag við vilj­um, og rétt eins og við komum saman sem þjóð þegar íþrótta­lið­unum okkar gengur vel á stór­mót­um, þá er spurn­ing hvernig okkur tekst að koma saman til að byggja hér það sam­fé­lag sem meiri­hlut­inn vill sjá. Sam­kvæmt könn­un­inni er það sam­fé­lag þar sem stjórn­völd hafa það lyk­il­hlut­verk að bera ábyrgð á og veita grunn­þjón­ustu vel­ferð­ar­kerf­is­ins, tryggja jöfnuð í land­inu og vernda umhverf­ið. Það kemur líka í ljós að almenn­ingur er ekk­ert sér­stak­lega ánægður með hvernig stjórn­völd hafa staðið sig í veiga­miklum mála­flokkum og því stöndum við á ákveðnum tíma­mótum núna þegar rík­is­stjórn á Íslandi hefur hrak­ist frá völdum í þriðja sinn á innan við 10 árum. Þessi tíma­mót fela í sér tæki­færi til þess að skoða vand­lega hvað það er sem flokk­arnir hafa upp á að bjóða og þá sér­stak­lega hverjum má treysta best til að standa vörð um veiga­mikla mála­flokka. Við þeirri spurn­ingu er hvorki ein­falt né rétt svar, en það sem þessar nið­ur­stöður sýna er að í grunn­inn eru Íslend­ingar nokkuð sam­mála um að þeir vilja sterkt vel­ferð­ar­sam­fé­lag.

Fyrir einu ári síðan: „Við eigum Ísland, það eina sem við eigum eftir að gera er að taka það“
Lífeyrissjóðir landsins eiga stóran hluta af íslensku atvinnulífi. Hávær krafa hefur lengi verið um að þeir verði virkari eigendur og nýti sér þau völd sem í því felast til að beita sér fyrir lífsgæðum sjóðsfélaga í nútíð ekki síður en í framtíð.
Kjarninn 21. september 2019
Bólusótt í hættu
Er réttlætanlegt að geyma veirur eins og bólusótt, sem geta valdið jafnmiklum mannskaða og raun ber vitni?
Kjarninn 21. september 2019
Tæknivarpið
Tæknivarpið
Tæknivarpið – Uppfærðar græjur, Sambandið og Apple Arcade
Kjarninn 21. september 2019
Birgir Birgisson
Reið hjól
Kjarninn 21. september 2019
Þjálfa þarf peningahund til að berjast gegn peningaþvætti
Embætti tollstjóra skortir bæði þekkingu og úrræði til að geta almennilega haft eftirlit með smygli á reiðufé til Íslands. Á meðal þeirra úrræða sem lagt er til að ráðist verði í er að þjálfa peningahund.
Kjarninn 21. september 2019
Klikkið
Klikkið
Klikkið - Að iðka mannréttindi
Kjarninn 21. september 2019
Athuga hvar eftirlitsaðilar gera ónauðsynlegar kröfur til matvæla
Umhverfisráðherra hefur hrundið af stað aðgerðum til að vinna gegn matarsóun á Íslandi. Meðal annars verður gerð athugun á því hvar eftirlitsaðilar gera mögulega ónauðsynlegur kröfur til matvælaöryggis sem ýtt gætu undir matarsóun.
Kjarninn 21. september 2019
Brim-flétta KS fagnaðarefni fyrir Skagfirðinga
Eftir að hafa keypt hlutabréf í Brimi, og selt nokkrum vikum síðar, hefur Kaupfélag Skagfirðinga styrkt stöðu sína.
Kjarninn 21. september 2019
Meira úr sama flokkiAðsendar greinar