Björt Framtíð er ekki búin að gleyma af hverju ríkisstjórnin sprakk. Ríkisstjórnin sprakk út af sjálfkrafa leyndarhyggju og vinnubrögðum sem allt of lengi hefur þekkst í íslenskum stjórnmálum.
Samfélagið sjálft hefur verið á allt annarri vegferð. Með átökum á borð við Druslugönguna, #höfumhátt, #þöggun, #konurtala, o.fl. hafa þolendur gripið málin í eigin hendur og sagt kerfinu stríð á hendur. Ég þakka á hverju ári stofnendum Druslugöngunnar fyrir að hafa veitt mér þann styrk að segja bless við skömmina sem hafði fylgt mér í 10 ár í kjölfar nauðgunar. Allt í einu leið mér eins og ég væri ekki ein í heiminum, væri ekki lengur skítug og mætti tala um það sem hafði komið fyrir mig. Ég varð frjáls.
Miklar breyting hafa átt sér stað undanfarin ár í réttarvörslukerfinu til hins betra, t.d. með tilkomu Bjarkarhlíðar sem er miðstöð fyrir þolendur ofbeldis sem veitir stuðning og ráðgjöf en það þarf að gera betur. Ekki er öll brot kærð til lögreglu og aðeins brot af þeim sem eru kærð komast áfram í kerfinu. Björt framtíð vill sjá:
- Stafrænt kynferðisofbeldi / hrelliklám skilgreint í lögum.
Björt Framtíð hefur tvisvar lagt fram frumvarp þessi efnis og var það sérstaklega tekið fram í stjórnarsáttmála síðustu ríkisstjórnar en dómsmálaráðherra taldi óþarfi að standa við stjórnarsáttmálann. Ég er ekki sammála dómsmálaráðherra um að ákvæði hegningarlaga um blygðunarsemisbrot nái nægilega vel yfir þessi brot.
- Styrking á réttarstöðu brotaþola.
Í dag hafa brotaþolar einungis réttarstöðu vitnis í sakamálum. Því viljum við breyta.
Stytting á málsmeðferðartíma.
- Stytting á málsmeðferðartíma.
Það getur tekið mörg ár frá því kynferðisofbeldi er kært til lögreglu og þangað til dómur fellur í málinu. Það er að sjálfsögðu óviðunandi.
- Forvarnir og fræðsla
Við getum ekki látið eins og fjöldi kynferðisbrota sé bara eðlilegur fylgifiskur samfélagsins. Við þurfum að bæta okkur í forvörnum og fræðslu til að reyna koma í veg fyrir að brotin séu framin. Það þarf að gefa aðstandendum þolenda og gerenda verkfæri til að taka við upplýsingum um ofbeldi. Aðstandendur verða oft svo vanmáttugir og orðlausir þegar svona mál koma upp og þar að leiðandi verður skömm og þöggun ríkjandi.
- Umræða um refsingar og virk úrræði fyrir gerendur
Við þurfum líka að taka samtalið um tilgang refsinga og hverju við viljum að refsing skili inn í samfélagið. Við verðum að horfast í augu við að gerendur eru ekki alltaf skrímsli en þeir bera ábyrgð á sínum gjörðum, hana þarf að axla. Kerfið þarf svo að bjóða upp á virk úrræði fyrir gerendur sem vilja taka á sínum málum.
Ég er í framboði fyrir Bjarta Framtíð því það er flokkur sem leggur áherslu á heiðarleg vinnubrögð. Gerum fortíðinni heiðarleg skil og vinnum í átt að ofbeldislausri framtíð. Það eru ekki allir búnir að gleyma ástæðu þess að ríkisstjórnin sprakk, allavega ekki ég.
Höfundur er lögmaður og situr 2. sæti á lista Bjartrar framtíðar í Reykjavík norður.