Forsætisráðherra Bjarni Benediktsson, ritaði grein og birti í Fréttablaðinu mánudaginn 9. október sem hann kallaði, „Var allt betra hér áður fyrr?“
Þar sem ég lít Íslandssöguna sennilega á nokkuð annan hátt en forsætisráðherra, langar mig til að koma mínum sjónarmiðum á framfæri þannig að lesendur geti borið saman sjónarmið elítunnar og pöpulsins og velt framtíðinni fyrir sér með samanburði á þessum tveim sjónarmiðum.
Forsætisráðherra segir. Næst þegar við mætum neikvæðni og bölmóði um okkar góða land ættum við að spyrja.
Ef þú gætir valið einhvern tíma frá landnámi til að setjast að á Íslandi, hvaða tíma myndir þú þá velja.
Síðan spyr hann: Hvenær var langlífi meira, heilbrigðiskerfi betra og geta okkar ríkari til að glíma við sjúkdóma, halda úti þéttriðnu velferðarkerfi og hjálpa þeim sem á þurfa að halda. Síðan telur hann upp nánast allt sem gefur lífi okkar nú á dögum þann ljóma sem það svo sannarlega hefur.
Hann lýkur svo grein sinni á því að svara spurningu sinni um val á jarðvistartíma hér á landi, með því að velja nútímann. Verum jákvæð og bjartsýn.
Ég er líka sammála forsætisráðherra.
Grípum tækifærin. Ég er svo sem einnig sammála honum þar, þó með þeim formerkjum að halda sig við lög og reglur.
Það er mín skoðun að ég hafi lifað besta tímabil Íslandssögunnar, fortíðin var almennum Íslendingum erfið og að mínu mati stefnir í það að framtíðin verði það einnig.
En forsætisráðherra getur þess ekki , hvað hefur búið okkur þessa góðu tíma.
Landnemar Íslands, uppflosnaðir smákóngar frá Noregi litu hýru auga norður til Íslands og bjuggu skip sín til ferða.
Margir þeirra komu við á bretlandseyjum og rændu þar fólki. Það þurfti jú vinnukraft (þræla), til að byggja upp framtíð í nýju, ónumdu landi.
Og allar götur fram á nítjándu öld var þessi misskipting, húsbændur og hjú, við líði.
Skúli Magnússon landfógeti stofnaði til iðnaðar í Reykjavík. Fyrsta skrefið var stigið, stéttaskipting fór að riðlast. Svo var það Ameríka. Íslendingar, eins og lágstéttir annarra Evrópuríkja uppgötvöðu Ameríku. Þangað leiti margur efnismaðurinn.
Frakkar og Norðmenn hófu fiskveiðar við íslandsstrendur. Þá vantað vinnuafl.
Þorp tóku að myndast, vistarbönd stórbændanna héldu ekki lengur.
Frelsið blasti við, Innlend stjórnmál tóku kipp, íslensk atvinnustarsemi jókst.
Fiskveiðar og vinnsla iðnaður og verslun.
En launakjör starfsmanna voru lág og auðvelt að halda þeim niðri, þar til verkalýðurinn fór að mynda samtök til að verja lífsviðurværi sitt.
Alþýðusamband Íslands var stofnað. Það barðist fyrir kjörum almennings og smátt og smátt kom góður árangur þessarar baráttu í ljós. Hann hélst vel fram yfir miðja öld.
Þetta er ástæðan fyrir góðum og batnandi lífsskilyrðum almennings á tuttugustu öldinni.
Eftir tímabil Guðmundar J. Guðmundssonar (Gvendar Jaka) í forystu alþýðunnar, fór kraftur ASÍ að dvína. Og nú stefnir aftur í verri tíð. Grúppur auðmanna og samsteypur s.s. Búnaðarfélög og fyrirtæki, húsaleigufyrirtæki, stórútgerð og auðmenn virðast nú vera að ná þeirri stöðu sem stórbændur og embættismenn höfðu áður. Erlendir aðilar eru farnir að stinga nefinu í auðlindir okkar, laxveiðiár, virkjanakosti, ferðamannastaði o.fl.
Ef ekki verður tekið í taumana gæti almenningur fallið niður á gamla vistabandakerfið og þrældóm.
Og Já, það er rétt hjá forsætisráðherra. Við lifum á bestu tímum Íslandssögunnar fyrr og síðar og það er að mestu leyti verkalýðshreyfingunni á fyrri hluta 20. aldarinnar að þakka. En, nú virðist vera farið að halla undan fæti. Vonandi að við Íslendingar siglum fram hjá þeim hættulegu boðum.
Höfundur er rafmagnsiðnfræðingur.