Ójafnvægi og gengisfellingar. Kreppa og verðbólguskot. Öfgar og forsendubrestir. Allt er þetta kunnuglegur hluti af raunveruleika okkar. Og öll vötn renna til íslensku krónunnar. En áfram skal Ísland þrjóskast við að halda úti minnsta sjálfstæða gjaldmiðli heims. Okkar eigin fljótandi örmiðli, korktappa í ólgusjó alþjóðafjármálakerfisins. Með tilheyrandi sveiflum, sem við munum áfram búa við að óbreyttu.
Töpum á óbreyttu ástandi
Sumir mæra þetta ástand. Það er svo frábært að vera sjálfstæð og búa við þetta umhverfi, alltaf hægt að fella krónuna! „Það er gott að búa við óstöðugleika“, sagði enginn, aldrei. Sambúð við krónuna er eins og að búa með virkum alkóhólista. Jú, það getur alveg verið stundargaman þegar partíið er að ná hámarki og allir í fjörinu, en það er ekki eins gaman í þynnkunni þegar takast þarf á við afleiðingar. Og allt okkar efnahagsumhverfi líður fyrir ástandið. Krónan hefur áhrif á afkomu fyrirtækja, atvinnuvegir sem byggja á gjaldeyristekjum búa við óvissu og vextir á öllum lánum okkar t.d. húsnæðislánum eru hærri og sveiflukenndari vegna áhættunnar.
Hver hin eina rétta lausn er erfitt að segja. Í lífinu er það þannig að sú lausn er vandfundin og oftast þarf að gera málamiðlun, en þegar hugvitið er nýtt farsællega má alltaf finna lausn. Í mínum huga er ljóst að ekki er annað en tapað á því að halda krónutilrauninni áfram. Það hefur sagan sýnt og sýnir enn. Það er vont fyrir íslenskan almenning og atvinnulíf að búa við ástand þar sem ekki er hægt að gera skynsamlegar áætlanir og líta til framtíðar með nokkurri vissu. Þó lífið sé aldrei í kyrrstöðu og taki örum breytingum á það bara að vera frekari hvatning til að ná fram stjórn á því sem hægt er að stjórna.
Fíllinn í stofunni
Gjaldmiðlamálin eru bleiki fílinn í stofunni. Saga íslensku krónunnar er eins og ört hjartalínurit. Langvarandi efnahagslegur stöðugleiki verður aldrei með gjaldmiðil í þessari stöðu. Í landi allsnægta auðlinda er hin flöktandi króna eitt aðalvandamálið, hún er örlagavaldur og Þrándur í Götu þess að Íslendingar nái þeim lífsgæðum sem möguleg eru. Enda höfum við alla burði til að vera eitt besta land í heimi, félagslega og efnahagslega. Markmið okkar á ekki að vera rjúkandi uppgangur með djúpum kollsteypum inn á milli, heldur jöfn, þétt og sjálfbær kjarabót fyrir alla. Til þess þurfum við stöðugan gjaldmiðil og ábyrga efnahagsstjórn, bæði betra. Sígandi lukka er jú best.
Við í Samfylkingunni höfum lengi talað fyrir upptöku evru með inngöngu í ESB. Við erum hins vegar opin fyrir því að skoða aðrar lausnir með opnum huga og hefja samtal um lausnina með almannahagsmuni að leiðarljósi. Þetta er eitt stærsta neytendamál samtímans. Og á næsta kjörtímabili er vonandi hægt að stíga skref að lausn.
Höfundur situr í 3. sæti á framboðslista Samfylkingarinnar í Reykjavík norður.