Engin leið er til að líta fram hjá þeirri staðreynd að lögreglumenn á Íslandi eru allt of fáir og stjórnvöld verða að bregðast við manneklunni. Lögreglumönnum hefur stórfækkað undanfarinn áratug á meðan verkefnum, Íslendingum og ferðamönnum hefur fjölgað mikið og hratt. Yfir 200% fjölgun ferðamanna undanfarinn áratug og bifreiðum á vegum landsins, fjölgað um 50% en á sama tíma hefur lögreglumönnum fækkað um 11%. Til að öryggi íbúa landsins sé tryggt verða stjórnmálamenn að bregðast við þessu og það strax. Samkvæmt löggæsluáætlun sem nær til ársins 2012 hefði æskilegur fjöldi lögreglumann það ár átt að vera 804 en nú, fimm árum síðar, eru einungis 646 lögreglumenn á Íslandi. Það sér hver einasti maður að þetta getur engan veginn gengið upp lengur.
Lögreglan á að vera ofmönnuð því starf lögreglunnar er ekki ólíkt starfi slökkviliðs, alla daga verður að vera hægt bregðast við hverju sem er. Eina leiðin til þess að ráða við stóra og óvænta atburði er að lögreglan hafi yfir nægum og vel þjálfuðum mannafla að ráða.
Á undanförnum misserum hefur lögreglna, þrátt fyrir mikla manneklu, sýnt styrk sinn á mörgum ólíkum sviðum, m.a. leyst flókin og erfið sakamál og vakið athygli fyrir átak í heimilofbeldismálum svo að tvö atriði séu nefnd. Þegar fámennt lögreglulið beinir kröftum sínum í eina átt þá verða aðrir þættir óumflýjanlega út undan, hjá því verður einfaldlega ekki komist. Það krefst mannskaps og tíma að rannsaka sakamál. Útkall vegna
heimilisofbeldis tekur iðulega margar klukkustundir ef veita á aðilum málsins þá þjónustu sem þeir þurfa og eiga rétt á. Rannsókn á kynferðisbrotum krefst mikillar kunnáttu og reynslu og er afar tímafrekt verk. Að upplýsa fjármunabrot, sem oft hefur verið stundað og skipulagt árum saman, er einnig mjög seinlegt í rannsókn. Þess vegna nægir engan veginn að fjölga einungis lögreglumönnum sem sinna útköllum heldur er brýn nauðsyn að fjölga þeim einnig sem vinna að rannsóknum sakamála. Það er skýlaus réttur bæði brotaþola og geranda að mál séu unnin hratt og örugglega og niðurstaða í málum liggi fyrir sem allra fyrst.
Ýmsir hafa lýst áhyggjum af auknum vopnaburði lögreglunnar en þeir aðilar ættu sérstaklega að styðja fjölgun lögreglumanna og aukið fjármagn til lögregluembætta.
Lögreglan verður alltaf að vera í stakk búin að bregðast við og ef mannskap vantar þá er eðlilegt að litið sé til annarra valkosta til að tryggja öryggi borgara og lögreglumanna. Vinstrihreyfingin grænt framboð leggur ríka áherslu á fjölgun lögreglumanna í umræðunni um öryggi í samfélaginu. Lögreglan er ein að grunnstoðum samfélags og allir íbúar landsins eiga að geta fengið viðeigandi þjónustu lögreglu hvenær sem er sólarhringsins með stuttum fyrirvara því þannig tryggjum við velferð og öryggi fólksins okkar.
Með auknum gestakomum til landsins hefur verkefnum lögreglu fjölgað enn frekar. Miðað við síðustu löggæsluáætlun má áætla að lögreglumönnum hefði að lágmarki átt að fjölga um hundrað fram til dagsins í dag. Það hefur ekki verið gert og því vil ég breyta. Vinstri græn vilja mæta þörfum samfélagsins og er umhugað um öryggi og velferð íbúanna.
Höfundur er lögreglumaður og situr í 4. sæti á framboðslista VG í Suðvesturkjördæmi.