Er líður að kosningum er tínt til það sem talið er að virki til að afla atkvæða, og kannski ekki síst nú, þegar margir flokkar róa lífróður fyrir tilveru sinni á þingi. Undanfarin ár hefur verðtryggingin verið vinsælt skotmark og er enn, þótt hækkandi húsnæðisverð hafi gert að verkum að fólk á meira hlutfallslega í íbúðum sínum en það átti fyrir hrun og það þótt það sé með verðtryggð lán. Verðtryggingunni hefur verið kennt um ýmislegt og margt, ef ekki flest af því, á hún ekki skilið. Það er kannski ekki stórmál í sjálfu sér, nema hvað þessi umræða hefur kostað íslenska lántakendur mikið fé og aukið nokkuð gróða bankanna.
Hvað varðar meintar ávirðingar verðtryggingarinnar, þá er vinsælast er að kenna henni um hve margir fóru mjög illa í hruninu. Sem er vafasamt, vandi fólks stafaði af fasteignabólu sem sprakk og afleiðingarnar urðu þær sömu í Madríd, Dublin og í Reykjavík. Ekki var nein verðtrygging í þeim tveimur fyrrnefndu. Víða í Evrópu féll fasteignaverð um 50%, hér féll það um nær 30% í krónum talið, en krónan rýrnaði svo að niðurstaðan varð sú sama. Ef krónan hefði ekki rýrnað hefði lækkunin verið meiri í krónum talið. Niðurstaðan var sú að í Madríd, Dublin og Reykjavík lenti fólk í vanda þar sem það sat uppi með allt að 20-30% yfirveðsett húsnæði.
Þá er algengt viðkvæði að verðtryggingin valdi því að lánveitandinn taki enga áhættu, hún lendi öll á lántakandanum. Það er líka rangt, verðtryggingin fjarlægir aðeins einn áhættuþátt lánveitanda, þátt sem bankar í nágrannalöndum búa ekki við, sem er óstöðugleiki vegna örmyntar og möguleikans á óðaverðbólgu. Lánveitendur á Íslandi búa nokkurn veginn við sömu áhættu og lánveitendur í nágrannalöndunum.
Fjandskapurinn við verðtrygginguna skapaði markað fyrir óverðtryggð fasteignalán eftir hrun sem bankarnir voru fljótir að bregðast við. Fjöldi Íslendinga fór að taka óverðtryggð lán til íbúðakaupa á breytilegum vöxtum, en föstum til nokkurra ára. Fyrst eftir hrun voru þau tiltölulega hagstæð, svona til að koma fólki á bragðið, en síðan tóku þau að hækka. Árið 2013 voru þau komin upp í 7-8%. Þetta þýðir að fólk sem tók lán á þessum tíma hefur verið að borga í kringum 6% raunvexti síðan þá. Algengir raunvextir á verðtryggðum lánum á sama tíma hafa verið rúmlega 4%. Hér erum við að tala um prósentustig – prósentuhækkunin á hagnaði bankans er mun meiri, hagnaður hans frá 4% upp í 6% raunvexti er 50% hækkun.
Setjum upp dæmi um tvo einstaklinga sem tóku 25 milljón króna lán árið 2013, annar óverðtryggt og hinn verðtryggt. Sá sem tók verðtryggða lánið ákveður að borga jafn mikið inn á sitt og sá sem er að greiða af óverðtryggðu láni, þ.e. hann borgar inn á höfuðstólinn umfram það sem bankinn krefur hann um. Þeir greiða því nákvæmlega jafn mikið inn á lánin, en fjórum árum síðar skuldar sá sem tók verðtryggða lánið um tveimur milljónum minna en sá sem tók það óverðtryggða.
Það er dálítið kaldhæðnislegt að þeir sem hafa hrópað hæst gegn verðtryggingunni undanfarin ár í nafni almennings í landinu og mótmælt græðgi bankanna, hafi með því skapað stemningu fyrir óverðtryggðum lánum sem hafa gert bönkum landsins kleift að stórauka hagnað sinn á kostnað þessa sama almennings.
Til að gæta allrar sanngirni, þá sá enginn fyrir þá atburðarás sem hefur haldið verðbólgunni niðri undanfarin ár og stuðlaði að þessum raunvaxtamun. Hvert á fætur öðru; lækkun eldsneytisverðs, styrking krónunnar með auknum fjölda ferðamanna, koma Costco til Íslands – allt hefur þetta lagt sitt af mörkum og unnið á móti hækkandi fasteignaverði og launum í vísitölunni. En almennt séð þýðir meiri áhætta hærri vextir og óverðtryggð lán eru meiri áhætta fyrir lánveitendur. Til lengri tíma munu þau alltaf verða dýrari kostur.
Öll þessi umræða um verðtrygginguna, kosti eða galla, er hins vegar absúrd í stóra samhenginu, bollaleggingar um veltuvörn og stöðugleika á smábát úti á alþjóðlegum hafsjó á meðan eigendur mun stærri báta hafa lagt þeim og komið sér þægilega fyrir á stórum farþegaskipum.
Höfundur er framkvæmdastjóri Múltikúlti íslensku, stundar meistaranám í heimspeki og er Pírati.