Fyrr á árinu gerði Þjóðskrá greiningu á húsnæðismarkaðnum. Sú greining byggist á sviðsmyndagreiningu; hversu margir búa í hverri íbúð að meðaltali. Niðurstaðan sýnir að það vantar á bilinu 5.000 - 11.000 íbúðir. Það þýðir að það þarf að byggja heilan Garðabæ eða Hafnarfjörð til þess að ná jafnvægi í fjölda íbúða.
Á sama tíma lætur samband sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu taka saman upplýsingar um íbúðaþörf. Niðurstaðan hjá SSH er að það vanti bara 1.700 íbúðir. Það fá þeir út með því að reikna með rétt rúmlega 2.4 íbúum í hverri íbúð sem væri fækkun frá núverandi ástandi. Miðað við þær upplýsingar sem ég fékk þegar ég hafði samband við SSH þá tekur SV-hornið til sín um það bil 80% húsnæðisvandans. Þannig munar samt rúmlega 2.000 íbúðum á milli þess sem SSH er að reikna með og Þjóðskrá tók saman.
Hvor hefur rétt fyrir sér? Því er ekki auðvelt að svara en miðað við fjölda á biðlista, bara í Reykjavík, eftir félagslegu húsnæði þá er erfitt að sjá hvernig 1.700 íbúðir komi til með að laga vandann. Á meðan býr fólk í tjaldi. Það á enginn að búa í tjaldi, tjaldvagni, hjólhýsi eða bíl á Íslandi. Þak yfir höfuðið eiga að vera réttindi sem við víkjum ekki frá.
Við búum við framboðsvandamál, það er einfaldlega allt of lítið af íbúðum í boði. Hverjar eru afleiðingarnar? Húsnæði hækkar í verði og lántaka eykst. Um leið og framboðið verður lagað þá hættir íbúðaverð að hækka og lækkar jafnvel sem leiðir til þess að eitthvað af heimilum verða yfirskuldsett. En það er annað hvort það eða áframhaldandi bólumyndun vegna skorts á íbúðum. Það er mögulega hægt að ná upp í skortinn smá saman og hleypa þannig úr blöðrunni hægt og rólega. Það væri óskandi ef það væri hægt. Á meðan býr fólk hins vegar í tjöldum og biðlistarnir eru allt of langir. Það verður að laga bráðavandann strax.
Það er markmið Pírata að það verði byggðar 1.500 íbúðir strax á næsta ári til þess að mæta bráðavandanum. Það væru litlar og ódýrar íbúðir sem henta þeim hópi sem er á biðlistum. Ólíkt sjöllum þá er Pírötum alveg sama hverjir eru í borgarstjórn eða bæjarstjórn. Það verður einfaldlega að leysa þetta vandamál.
Höfundur þingmaður Pírata og í framboði fyrir flokkinn.