Ef yfirmaðurinn minn kæmi inn hvern dag og segði „Tralala, ég er leiðtoginn þinn og í dag er ég fullkomlega stöðug! Ég er svo stöðug, foringinn þinn er í algjöru andlegu jafnvægi“ myndi ég prísa mig sælan fyrir núverandi skotvopnalöggjöf og svo tala við trúnaðarmann. Ef foreldrar mínir hringdu daglega bara til að segja „Þú ert frjáls“ og skella á myndi ég leita eftir myndavélum í íbúðinni og gúgla nálgunarbann.
Frá hruni hefur ýmist Sjálfstæðisflokknum eða Framsóknarflokknum verið lýst sem áfengissjúkum feðrum, ofbeldisfullum eða þvíumlíkt á veggjum fésbókar-kverúlanta. Missmekklegar líkingar geta farið fyrir brjóstið á fólki sem lifa hefur þurft þannig aðstæður. En hugmyndin um fjórflokkinn sem foreldri hefur aldrei verið sannari enda líkist þessi kosningabarátta meira erfiðri rimmu um umgengnisrétt heldur en einhverju pólitísku.
Sjálfstæðisflokkurinn vill ekkert kannast við að neitt hafi nokkurn tímann verið að. Þau meira að segja lofa ferð í Legoland þegar þetta er búið, nei var það ekki þar seinast? Ferð sem síðar kom í ljós að var „fjölskyldur ómöguleiki“.
Á meðan segjast Vinstri Græn hafa reynt allt til að hjálpa börnunum en verið bjargarlaus, jafnvel þessi fjögur ár sem þau höfðu fullt forræði.
En hvort svo sem ekkert var að eða boðinn er faðmur verndar er mikilvægast fyrir alla að klæðast sínu fínasta og skælbrosa framan í allt og alla á meðan dómarinn er enn að störfum.
Þetta er uggvænlega ljóðrænt.
Katrín svífur yfir umræðunni göfugar en nokkur valkyrja. Hennar er náttúran. Hlýr faðmur sem lofar að hlúa að öllum. Hún er umhyggjusama móðurgyðjan Gaia; Þórsmóðir og andi hinnar heilögu þrenningar.
Bjarni kemur inn með ægishjálm feðraveldisins; hann er fjársterka fyrirvinnan og óbilandi festan. Aftan úr tímamóðunni stendur Krónos með veraldlega aflsmuni og vílar sér ekki fyrir að éta hvað svo sem sprettur undan honum eða öðrum, ógni það ríki hans yfir goðunum. Í hinni heilögu þrenningu er pabbastrákurinn orðinn faðirinn.
Frelsi til jafnaðar. Stöðugleiki í lýðræði. Leiðtogar fyrir forystu. Amen.
Þegar ég var í unglingadeild fékk ég í jólagjöf frá frændfólki mínu „Bókina um Che“. Þetta var yfirgripsmikil ævisaga Che Guevara. Hún hafði mikil áhrif á mig, sérstaklega þegar kom að tálsýninni sem er hetjudýrkun. Eftir lesturinn lofaði ég sjálfum mér að fylgja aldrei neinum sem krafðist þess að vera leiðtogi fyrst og síðan gefa af ávöxtum frelsis.
Því af öllu því fólki sem ég hef litið á sem leiðtoga, hvort sem það er í pólitík, starfi, námi eða hversdagsleika, hefur enginn komið upp að mér og tilkynnt mér stöðugildið. Allt það fólk sem ég leit upp til lagði fyrir mig vegi og gildi og bað ekki um neitt í staðinn.
Og í hvert sinn sem einhver hefur spurt mig „Viltu samþykkja X sem leiðtoga lífs þíns?“ hef ég svarað „Sorrý, þakka áhugann en ég er þegar með dominatrix útí Vesturbæ.“
Mér mislíkar þegar reynt er að heilla mig með persónutöfrum, veraldlegum stöðutáknum eða notaðir eru peningar og völd til að lumbra á heilanum mínum með markaðsrannsökuðum áróðri. Glys, hvort sem það eru gullúr, kökur eða háfleyg orð, er ekki notað til að sannfæra neinn heldur ginna athygli. Þetta eru reyksprengjur á hugann.
Því miður gerir fólk sér oft ekki grein fyrir afleiðingum þess að fylgja þannig forystufé fyrr en í sjálfheldu er komið.
Mig langar að enda þetta á því hvað rollur eru yndislegar. Þær eru skemmtilega kjánalegar og helst til góðar með sig, en líka ótrúlega harðar af sér og aðlagast hratt. Svona eins og við Íslendingar.
En það er grundvallar munur á þessum sambýlistegundum. Kindur geta ekki gert að því að fylgja hrútnum sem stangar fastast. Þær hafa engar hugmyndir um hrútaveldi, hjarðræði eða peningana sem kaupa heilsíðu jarm í Fréttablaðinu.
Sauðkindin er kannski lukkudýr landsins, en Íslendingar eru menn, ekki kindur.
„Hið mest óviðeigandi starf nokkurs manns, jafnvel dýrlinga (sem þó voru yfirleitt hikandi til að taka því), er að ráðskast með aðra menn. Ekki einn af milljón er hæfur til þess, og síst af öllu þeir sem falast eftir tækifærinu.“
-J.R.R. Tolkien
Höfundur er stuðningsfulltrúi og í 6. sæti á lista Pírata í Norðvesturkjördæmi.