Stjórnmál eru heillandi í fjarlægð en fnykurinn verður fljótt yfirgnæfandi ef maður hættir sér nær. Mín fyrstu kynni voru þegar ég mætti í heimsókn til föðursystur minnar með símahulstur prýtt Coca-Cola merkinu. Þetta féll ekki vel í kramið á þeim bæ og var ég, 15 ára, húðskammaður og réttilega sakaður um að greiða úr eigin vasa fyrir að bera auglýsingu þeirra sem úthelltu Gvatemalablóðinu. Eftir það jós pabbi úr viskubrunni sínum eitthvað af þeirri stéttarvitund sem afi minn hafði hellt í hans. Ég var kominn í mitt lið. Sumir velja sitt lið en mér var beint í þetta. Ég byrjaði að kynna mér sögu þessa ágæta málstaðar og var tilbúinn að horfa á samfélagið með þessum vinkli. Ég fór í MH og kaus vinstrisinnaðan flokk í þingkosningum 2016, degi eftir að ég varð sjálfráða.
Eftir að hafa íhugað að gerast harður aktívisti og flokksmaður fór ég að efast um þetta allt saman. Hvernig getur það verið að Bjarna Benediktssyni og flokksfélögum hans sé svo innilega illa við þá sem minna mega sín? Allt sem ég las þeim viðkomandi virtist fjalla um aðgerðir sem sneru að því að takmarka aðgengi hinna ýmsu hópa að þjónustum samfélagsins. Getur í alvöru verið að í Sjálfstæðisflokknum þrífist svona rosalegt siðrof? Það var eitthvað off við þetta allt saman.
Bjarni og hans fjölskylda eru í valdastöðu. Þau hafa verið og verða áfram virkir þáttakakendur í viðskiptalífinu. Bjarni hefði auðveldlega getað haldið sig við stjórnarformannsstöðu í N1 með rúmlega þægileg laun og lifað á því, langt frá kastljósi þjóðarinnar. Eitthvað hlýtur að skýra hvers vegna viðskiptamanni í þessari stétt hugnast starf þar sem hann situr fundi fram á nætur með fólki sem er ósammála honum og tiltölulega stórum hluta þjóðarinnar er í þokkabót illa við hann.
Hann hlýtur þá að vera að gera þetta því hann er svo mikill hugsjónamaður. Stefnuskrá framboðsins virðist gefa það í skyn. Hann og hans fjölskylda eru svo þakklát fyrir þann stuðning sem hinn frjálsi og opni markaður hefur veitt þeim að hann sér sig knúinn til að viðhalda þeim markaði opnum og góðum. Þess vegna setur hann andlit sitt á strætóskilti. Þess vegna talar hann til mín og biður mig, plís, um að leyfa honum að sjá um viðhaldið á valdastiga samfélagsins. Hann gerir það svo börn ríkisstarfsmanna á meðallaunum, eins og ég, eigi kost á því að byggja upp stórveldi eins og hann.
Ég held að valdastöður og stjórnmál séu ekki heimavöllur hugsjónafólks. Marx var ekki í pólitík, Keynes, Friedman og Rand voru heldur aldrei í framboði. En Machiavelli hafði hins vegar áhuga á því. Voru þá Lenín og Reagan kannski sannir hugsjónamenn? Í ljósi sögunnar virðist áhugi þeirra á persónulegri hagsmunavörslu hafa verið álíka mikill ef ekki meiri en áhugi þeirra á félagshyggju eða markaðshyggju.
Ég sé Bjarna Benediktsson ekki sem mikinn hugsjónamann. Bjarni er í sínu liði sem honum var bent á af sinni fjölskyldu rétt eins og ég. Launatékkinn er án efa vel þeginn en ég held að flestir með bankareikninga á borð við Bjarna myndu segja sig frá þessu eftir eitt hneyksli á borð við Panamaskjölin eða það er varðaði hylmingu upplýsinga í máli uppreistar æru sakfelldra barnaníðinga. Þrátt fyrir það sækjast Bjarni og fleiri stöðugt eftir þessari vinnu. Ég tel þessa vinnuást sérstaklega einkennilega fyrir aðila sem er furðulega gleyminn þegar milljónir eru annars vegar. Pólitík virkar varla svona, það getur ekki verið að Bjarni sé að eltast við laun eða svölun hugmyndafræðilegs þorsta. Bjarni er ekki hugsjónamaður, hann er að vernda hagsmuni. Þessi skoðun er flestum kunnug.
En hvað þá með vinstriflokka? Þeir eru sjaldnar í hneykslum og virðast oftast bera mjög sanngjarna málstaði fyrir brjósti. Samt sem áður kemst ég líka í snertingu við innilega vanþóknun í garð þeirra. Margir halda því fram að vinstriflokkar séu andsnúnir hagvexti og vilji helst arðræna alla þá sem hafa unnið sér inn einhvern eyri. Það er ekki gott, hingað til hefur styrking krónunnar, aðstæður á vinnumarkaði og hagvöxturinn komið sér vel í mínum útlandaferðum og innkaupum. Svo eru vinstriflokkar kenndir við aumingjavæðingu, sólundun á skattpeningum, stuðning við stóriðju (þrátt fyrir stefnumál sem tala gegn henni), og almennt reynslu- og getuleysi. Þetta eru ásakanir sem ég heyri á förnum vegi, í sundlaugum Garðabæjar, á fésbókarveggjum fræðimanna, gufuböðum Seltjarnarness og kommentakerfum. Fólk sem heldur slíku fram virðist hneykslað á því að stór hluti þjóðarinnar kjósi fulltrúa sem hafa ekki hundsvit á því hvernig stjórnsýsla gengur fyrir sig. Ákveðinn prófessor hefur brugðið á það ráð að líkja þingkonu við geimveru, ásakanir þess efnis að hennar flokkur hafi enga stefnu, nenni ekki að mæta á þingfundi og hélt því fram að vinstri stjórn með téðum flokki myndi strax binda enda á góðærið. Sami prófessor er fyrstur á vettvang að fordæma illsku og hatur fjölmiðla sem gagnrýna Bjarna og talar um „ofsafengnar árásir vinstrimanna“ á hann.
Eftir þessar vangaveltur sá ég tvö lið í samfélaginu, bæði tvö álíka hneyksluð á hvort öðru. Vinahópur foreldra minna hættir ekki að vera hissa á því að fólk kjósi yfir sig íhaldið og svo virðast leikmenn í hinu liðinu álíka gáttaðir á þeim sem dettur í hug að láta völd í hendur þessara skattsugna. Er skipting samfélagsins raunverulega svona? Tveir hópar fólks sem líta á hvort annað sem hálfvita? Svo horfi ég til Bandaríkjanna og sé nákvæmlega það sama. Sama með Brexit, Frakkland og Enska boltann. Sem polli sá ég Manchester United-menn á sama hátt og ég sá Sjálfstæðismenn seinna. Einhverjir toppkallar sem hafa völdin en vita ekki hvað þeir eru vondir og vitlausir. Þetta er kennisetningakenndur hugsunarháttur og mér finnst erfitt að sjá hann sem persónubundinn þegar ég heyri um fleiri nýnasista en frjálshyggjufólk í skólanum mínum.
Stjórnmál snúast um völd. Endalaus dæmi má finna um fólk sem svífst einskis til að fá þau. Lygar, skoðanakúgun, hylming á upplýsingum og morð eru dæmi um aðgerðir sem valdagráðugt fólk hefur gripið til. Þetta þrífst auðvitað í samtímanum eins og aðgerðir Pútíns í vefhernaði sýna þar sem hæfustu hakkarar Rússlands eru ráðnir í að ýta undir djúpstæðan klofning og grafa undan trausti í vestrænum lýðræðisríkjum. Nú verð ég aftur ringlaður, af hverju nennir Pútín að standa í því stórkostlega veseni að gera Rússland að stórveldi? Hann gæti orðið hálfgerður óligarki núna, keypt fótboltalið og notið ávaxta spillingar í rólegheitum eftir 17 ára forsetatíð. Í staðinn er hann að standa í allskonar veseni að stýra umfjöllun um sig, reyna að grafa undan lýðræði á vesturlöndum og passa að Norður-Kórea haldi áfram að kaupa olíu af Rússum. Góð pólitík virðist ekki samsvara góðmennsku, því miður. Þessu hefur verið haldið fram í tæplega 500 ár. Stjórnvöld í Norður Kóreu halda þegnum sínum í fjötrum hungurs, það virkar. Að tala gegn því að veita fólki sem flýr borgarastyrjöld hæli virkar líka. Þá er alltaf einhver tilbúinn að taka það á sig.
En Ísland er ekki þannig. Bjarni, Sigmundur, Logi, Þorgerður, Sigurður, Helgi og Katrín eru varla þannig. Ég þekki fullt af fólki sem þekkir þau og segir að þetta sé fínasta fólk. Þau eru samt óneitanlega í sama geira og valdafólk úti í heimi þó það sé á öðrum skala. Þau hafa völd og virðast sum hver gera hvað sem þau geta til að halda þeim um leið og þau fá nasaþefinn. Bjarni og fleiri hafa allavega leyft sér ýmislegt í þeim hneykslismálum sem komið hafa upp á síðustu árum. En myndu þau hin ekki gera það sama ef þau fyndu þefinn? Eru þau skepnur af öðru tagi?