Ísland er land tækifæra í sjálfbærri nýtingu hreinnar náttúru, t.d. í framleiðslu heilnæmra matvæla, virkra lífefna og jákvæðri upplifun af neyslu íslenskra matvæla. Hjá Matís er unnið að fjölbreyttum verkefnum í matvælaiðnaði þar sem áhersla er lögð á nýsköpun og verðmætaaukningu og hefur fyrirtækið verið í fararbroddi aukinnar verðmætasköpunar úr sjávarfangi. Verðmæti úr hverju veiddu tonni af fiski hafa aukist um 145% frá árinu 2003 fram til 2016. Sú aukning gerðist ekki af sjálfu sér, heldur með því að tengja saman vísindi, atvinnulífið, frumkvöðla og menntasamfélagið. Matís hefur, í samstarfi við Háskóla Íslands og aðra háskóla, tengt vísindi og dagleg viðfangsefni fyrirtækja í 23 doktorsverkefnum og 64 meistaraverkefnum sem liði í stærri rannsóknaverkefnum.
Sérfræðingar Matís auðvelda hagnýtingu niðurstaðna vísindarannsókna og brúa bil á milli fyrirtækja og háskóla. Það er sama hvernig við lítum á málin, lykilatriði í verðmætasköpun samtímans og til framtíðar er samspil vísinda og praktískra áskorana fyrirtækja. Samvinnan hefur skilað okkur miklum þjóðhagslegum ávinningi, hún hefur verið að styrkjast og hefur alla burði til að styrkjast enn meira.
Fjárfestum í framtíðinni
Fæðuöryggi og betri lýðheilsa eru með stærstu áskorunum nútímans. Matvælarannsóknir eru lykillinn að lausninni, en til að takast á við vandann þarf fjárfestingu. Það skýtur því skökku við að í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2018 er áætlað að lækka fjármögnun matvælarannsókna (Matís) um 51 milljón frá árinu 2017 til ársins 2019, úr 441 milljón í 390 milljónir.
Rekstur Matís hefur gengið vel og skilað samfélaginu ríkulegri ávöxtun. Að frádregnum skattgreiðslum er fjármögnun ríkisins á matvælarannsóknum einungis um 80 milljónir á ári. Hún er nauðsynleg til móts við fjármögnun samkeppnissjóða og oft á tíðum forsenda. Fyrir hverja krónu sem ríkið leggur til matvælarannsókna sækir starfsfólk Matís 2,6 krónur í sértekjur, mest í erlenda samkeppnissjóði eins og Horizon 2020, sem skiluðu Matís 481 milljón á árinu 2016 og íslensku nýsköpunarsamfélagi enn meiru.
Aðstoð – samstarf – árangur
Matís aðstoðar viðskiptavini við að auka verðmæti, bæta matvælaöryggi og lýðheilsu. Samstarf er þar lykilorð. Fjölmörg öflug fyrirtæki tengd sjávarútvegi hafa „komið við hjá Matís”, tekið þátt í rannsókna- og nýsköpunarverkefnum og kafað í þekkingarbrunn starfsmanna Matís. Þar má nefna Marel, Skagann 3X, Iceprotein, Kerecis, Codland, Grím kokk, Lýsi og Margildi, sem í dag vinnur að þróun omega-3 olíu úr uppsjávarfiski í húsnæði Matís og nýtir þannig nálægð við vísindasamfélagið Matís. Sem dæmi um árangursríkt samstarf má nefna að niðurstöður doktorsverkefna vörðu útflutning á íslenskum saltfiski þegar til greina kom á árunum 2010-2012 að banna þá vinnsluaðferð sem íslenskir saltfiskframleiðendur nýttu.
Annað dæmi um slíkt samstarf og samtal er frá árinu 2016 þegar íslensk viðskiptasendinefnd heimsótti Nígeríu undir forystu Lilju Alfreðsdóttur, þáverandi utanríkisráðherra. Að hennar sögn komst samtal við nígerísk stjórnvöld um tollamál á skrið vegna tækifæra í tengslum við mennta- og rannsóknasamstarf um nýtingu auðlinda sjávar, sem Matís og Sjávarútvegsskóli háskóla Sameinuðu þjóðanna hafa lagt grunn að. Núverandi utanríkisráðherra, Guðlaugur Þór Þórðarson, fylgdi þessu eftir í haust við komu sendinefndar þaðan og horfir nú betur með tollamál þurrkaðra afurða í Nígeríu.
HM eða héraðsmót?
Íslendingar eru sú þjóð sem nær mestum verðmætum úr hverju veiddu kílói af þorski. Ástæðan er markaðsdrifin virðiskeðja og rannsóknir og þróun innan hennar sem auka verðmætasköpun, en frá 2003 hafa innlendir og erlendir rannsóknasjóðir fjármagnað mörg rannsóknaverkefni sem eru, auk fjárfestinga íslenskra fyrirtækja í útkomu þeirra, grunnur þessa árangurs.
Tæknilegar umbyltingar munu breyta matvælaframleiðslu um allan heim á næstu árum. Fjárfesting í matvælatengdri nýsköpun í Japan er þreföld á við Evrópu. Suður-Kórea setur nýtingu hafsins sem forgangsatriði í nýsköpunarstefnu og hyggur á stofnun alþjóðlegs háskóla í málefnum hafsins. Íslendingar þurfa að þora að fjárfesta af alvöru og setja markmið: Að verða heimsins fremsta nýsköpunarland í nýtingu auðlinda hafsins og stórauka verðmætasköpun í íslenskum landbúnaði.
Sú staða verður aldrei uppi að vísindi, þróun og nýsköpun komist á einhverja endastöð. Það felst einfaldlega í orðunum. Ef íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu hefði talið það „duga“ að komast á EM í Frakklandi árið 2016, væri það ekki á leið til Rússlands árið 2018. Við verðum alltaf að halda áfram; gera betur í dag en í gær, svo hægt verði að gera enn betur á morgun.
Sveinn er forstjóri Matís og Sjöfn stjórnarformaður.