Íslendingar búa við forréttindi. Í raun má kalla okkur einn mesta forréttindahóp veraldar. Hér á landi er mikil hagsæld, lítill launamunur kynja, innan við þriggja prósenta atvinnuleysi og við erum svo rík í auðlindum að það er lyginni líkast. Þegar talað er um forréttindi beinist umræðan oftar en ekki að því hvernig jafna skal stöðu þeirra sem hafa og þeirra sem hafa ekki. Þessi umræða fer ekki vel vel ofan í alla.
Stundum er talað um þann hóp sem harðast gengur fram í baráttu sinni til að jafna öll forréttindi sem „góða fólkið“ og „naivista“. Það kann að vera að þessi hópur muni þá tíma þegar allt var ekki í eins miklum blóma og finnist bara frekar notalegt að hafa það gott; finnist lítil dyggð í því að vilja gefa í burtu forréttindi sín og jafnvel bara heimska, sem aðeins þau sem eru vön að fá allt gefins, geti leyft sér. Svo er það orðræðan sem fær fólk til þess að forðast að tjá sig um þessi mál svo að það sé útmálað sem skrímsli fyrir að setja sjálfan sig, fjölskyldu og þjóð í forgang – sem er hvorki ný né sjaldgæfur mannlegur eiginleiki. Fólk þegir frekar og kýs frekar flokk sem setur sig ekki í stellingar til þess að dæma kjósendur sína. Mig langar samt að skoða innflytjendamál þar sem þessi umræða er skoðuð frá öðru sjónarhorni.
Oft er þeirri spurningu varpað fram hvers vegna við ættum að hleypa fólki inn í landið þegar við náum ekki að tryggja nægilega vel hag sjúklinga, öryrkja og aldraðra. Þessi kvíslgreining er samt sem áður ekki á rökum reist. Það sem samfélag þarf til þess að halda úti þjónustu við nokkurn hóp eru skattgreiðendur. Við vissulega sköpum skattgreiðendur með því að fjölga okkur sjálfum en startkostnaðurinn við slíkan skattgreiðanda er gígantískur því fyrstu átján til tuttugu árin er enginn skattahagnaður af þeim einstaklingi fyrir ríkið. Fullorðinn innflytjandi nær því miklu fyrr að verða skattborgari.
Eðlileg spurning í þessi tilliti gæti verið: „Allt í lagi, en það er margt sem stendur í vegi þeirra og hætta er á að þeir einangrist og nái ekki að blómstra – eru innflytjendur að fara að skila arðsemi í raun og veru?” Svarið við þessari eðlilegu spurningu er frekar afgerandi: Já. Innflytjendur færa okkur meiri fjölbreytileika en nokkur annar hópur; það er hellingur af tækifærum í hagkerfinu sem aðeins er hægt að spotta með augum þeirra sem koma úr öðrum menningarheimi, þekkja aðra siði og hugsunarhátt.
Þá má ekki horfa fram hjá því að oft eru þeir innflytjendur sem hafa vaðið eld og brennistein til að breyta aðstæðum sínum besta úrtakið af fólki; fólk sem er megnugt að reka fyrirtæki, fólk sem hefur sýnt fram á að það hefur drifkraft. Í Kvosinni, sem er eitt dýrasta fasta fasteignasvæði landsins, er að finna mörg fyrirtæki sem eru rekin af útlendingum, því þetta fólk er afskaplega samkeppnishæft.
Úttekt í Forbes frá því í fyrra leiðir í ljós að um fjörutíu prósent af fyrirtækjum á Forbes 500 listanum voru stofnuð af innflytjendum eða börnum innflytjenda.
Það tekur tíma að sjá almennilega hagnaðinn sem hlýst af fjölgun innflytjenda og í raun ættu þjóðir að berjast um að fá til sín innflytjendur í stað þess að loka á þá.
Byggingariðnaðurinn hér á landi er kominn á fulla ferð og verkefnin fleiri en hægt er að anna. Af þeim sökum dregur nú úr þeim vexti sem ætti að vera til staðar. Nú er fullkomið tækifæri til uppbyggingar og verðmætasköpunar sem við getum ekki nýtt til fulls því vinnuaflið er hreinlega ekki til staðar.
Bandaríkin hafa hvað lengsta og mesta reynslu í að taka við innflytjendum og er hagkerfi þeirra gott dæmi hver áhrifamáttur opinnar innflytjendastefnu hefur á arðsemi þjóðar.
Líkja má innflytjendum við pening sem liggur á götunni sem enginn vill taka upp vegna þess að fólk trúir því að einhver annar væri búinn að því ef peningurinn væri verðmætur. Það er samt hætta á að innflytjendur skapi útlendingaandúð. Fólk forðast breytingar og ef það sér samfélagið breytast of hratt þá hefur það ringlandi áhrif. Þegar umhverfi manns breytist frá því að allir þekkja hvorn annan í bænum yfir í samsuðu ólíkra menningarheima þá er fórnin sú að fólk veit ekki lengur jafnvel hvar það hefur hvort annað og traustið minnkar.
Af þeim ástæðum þarf innstreymi að vera með þeim hætti að samfélagið nái að aðlagast breyttum háttum og getið boðið innflytjendur velkomna, boðið þeim að verða hluti af því samfélagi sem er fyrir – ef það tekst ekki er hætta á glundroða og misbresti.
Upp úr stendur, þegar rýnt er í gögn, að innflytjendur styrkja hagkerfi þjóðarinnar þótt aðrar ástæður kunni að vera fyrir því að við flýtum okkur hægt.
Höfundur er í 20. sæti á lista Pírata í Reykjavík norður og er formaður hverfisráðs miðborgar.