„Við þurfum að fara að hlúa betur að unga fólkinu okkar.“
„Við þurfum að huga að málefnum unga fólksins.“
„Unga fólkið heimtar svör.“
Rétt upp hönd sem hefur heyrt þetta endurtekið margoft í þessari kosningabaráttu án þess að hafa heyrt svo hver málefni ungs fólks eru og af hverju þau skipta ungt fólk máli?
Rétt upp hönd sem finnst frambjóðendur bara tala og tala og tala um hin og þessi málefni og ætlast til þess að ungt fólk sem er að kjósa í kannski fyrsta skiptið, skilji af hverju þessi málefni skipta það máli?
Rétt upp hönd ef þú flokkast sem ungt fólk og hefur ekki hugmynd um hvað þú ætlar að kjósa, stjórnmálaumræða ruglar þig í hausnum og þú næstum því nennir þessum kosningum ekki.
Ef þú réttir upp hönd að minnsta kosti einu sinni, þá er þessi grein fyrir þig.
Stuttur listi (og rökstuddur) yfir hluti sem ættu að skipta ungt máli og af hverju:
Húsnæðismál
Að búa hjá mömmu og pabba er geðveikt næs. Að vera neyddur til að búa hjá mömmu og pabba vegna þess að maður hefur ekki efni á neinu öðru er ekki næs.
Hvað kemur ungum kjósendum vel í húsnæðismálum?
Lækkun vaxta. Af hverju? Eins og staðan er núna erum við að borga húsnæðið okkar að meðaltali 2-3svar sinnum þegar Norðurlöndin borga bara 1,5 sinnum. Við erum að borga hærri afborganir af háum vöxtum án þess að auka eignarhlut okkar í húsnæðinu samkvæmt því.
Geðheilbrigðisþjónusta
Vitundarvakning um geðsjúkdóma hefur nú þegar bjargað lífum. Það þarf að bjarga fleirum.
Hvað kemur ungum kjósendum vel í geðheilbrigðismálum?
Aukið aðgengi, forvarnir og niðurgreiðsla.
Af hverju? Eins og staðan er núna tekur vikur að fá tíma hjá geðlækni og sálfræðingi. Fyrsti tíminn hjá sálfræðingi kostar oft um og yfir 10.000 krónur og ungt fólk hefur ekki efni á því (ekkert frekar en margt annað fólk). Sjálfsvíg er helsta dánarorsök ungra karlmanna á Íslandi og það er eitthvað sem við þurfum sem þjóð að bregðast við.
Geðheilbrigðisþjónusta á að falla undir almennt réttindi en ekki vera forréttindi útvaldra.
Jafnrétti á vinnumarkaði
Jafnrétti á vinnumarkaði útrýmir launamismun kvenna og karla auk þess sem það tryggir grunnþjónustu.
Hvað kemur ungum kjósendum vel í jafnréttismálum?
Að útrýma launamisrétti á atvinnumarkaðinum með því að leiðrétta laun svokallaðra „kvennastétta“ á Íslandi. Þannig er hægt að tryggja að fólk sem hefur áhuga á að vinna í þessum stéttum geti séð fyrir sér og sínu með mannsæmandi launum, sem eru metin út frá menntun.
Við viljum hafa menntað fólk með ástríðu fyrir vinnunni sinni á leikskólum, í grunnskólum, á hjúkrunarheimilum og í öllum þessum störfum þar sem er unnið með viðkvæmasta fólkið okkar. Börnin okkar, ömmur okkar og afa.
Lenging fæðingarorlofs. Fyrir utan hvað það er gott fyrir barnið að hafa tíma til að tengjast foreldrum sínum lengur þá gerir lengra fæðingarorlof ungum foreldrum auðveldara með að vera á atvinnumarkaðinum. Ungt fólk er oft á viðkvæmum stað á vinnumarkaðinum, í byrjunarstöðum, og að þurfa að brúa bil milli fæðingarorlofs með dýrum úrræðum, til þess eins að halda vinnunni og koma í veg fyrir uppsöfnun skulda, er í einu orði: kjaftæði.
Mig langar að koma með dæmi hérna:
Nýútskrifaður ungur kjósandi fær vel launaða vinnu eftir nám (hvort sem það er iðnnám eða annað nám). En hann á ungt barn sem þarf að komast á leikskóla. Barnið kemst ekki inn á leikskóla eða til dagmömmu þar sem mikil mannekla ríkir og erfitt er að fá fólk til starfa. Ungi kjósandinn þarf því að hefja nýju vinnuna sína með því að taka sér ólaunað leyfi þangað til að barnið kemst inn á leikskóla. Fyrir utan hvað það er ömurleg byrjun á flottum starfsferli þá er það ógeðslega dýrt fyrir þessa ungu fjölskyldu.
Uppbygging á landsbyggðinni
Ungt fólk vill hafa val um hvar það býr og við hvað það vinnur og hvar það vinnur. Val sem er ekki skert vegna skorts á sjálfsögðum hlutum eins og vel mannaðri heilsugæslu, öruggum samgöngum og framboði á menntun.
Hvað kemur ungum kjósendum vel í landsbyggðarmálum?
Að viðhaldi vega sé sinnt eftir þörfum og að fólk hætti ekki við að sækja sér þjónustu, skemmtun og heimsækja ættingja. Eins og staðan er núna kemur viðhald vega og skortur á öruggum samgöngum í veg fyrir uppbyggingu og fólksaukningu úti á landi.
Að heilsugæslan úti á landi sé efld til muna. Að fólk, hvort sem það er ungt eða ekki, þurfi ekki að ferðast hundruð kílómetra og leigja sér húsnæði í viku til þess eins að fara til læknis. Það er til dæmis ekkert eðlilegt við það að barnshafandi konur í Vestmannaeyjum (og fleiri stöðum úti á landi) þurfi að eyða síðasta mánuði meðgöngunnar í leiguhúsnæði eða hjá ættingjum í Reykjavík til þess eins að tryggja að nauðsynleg læknisþjónusta sé til staðar þegar fæðingin fer af stað.
Mig langar að taka annað dæmi hér:
Þú færð frábært vinnutilboð. Draumajobbið er þitt en þú þarft að flytjast út á land. Þér finnst tilhugsunin um að búa úti á landi bara mjög fín. Svo ferðu að skoða málið. Það er skortur á húsnæði í hentugri stærð. Það er er mjög oft ófært þangað svo ef eitthvað skyldi koma fyrir ættingja þína í annars staðar á landinu þá áttu mjög erfitt með að komast þangað. Það er enginn grunnskóli á staðnum en það er rúta yfir í næsta bæjarfélag, klukkutími aðra leið á hverjum morgni. Það er engin heilsugæsla fyrir utan einn lækni sem kemur einu sinni í mánuði og næsti sjúkrabíll er klukkutíma á leiðinni, ef hann er ekki í öðrum útköllum. Frábært.
Það leiðinlega er að þetta dæmi er samantekt á því sem fólk úti á landi þarf í alvörunni að glíma við. Árið 2017. Á Íslandi.
Jöfn tækifæri til menntunar
Þegar námsmaður tekur ákvörðun um námið sitt, á hann að gera það á sínum eigin forsendum ekki á forsendum peninga sem hann á ef til vill ekki.
Ungt fólk á að geta sótt jafnt í iðngreinar sem og háskólamenntun án þess að þurfa að verja sína ákvörðun.
Hvað kemur ungum kjósendum vel í menntunarmálum?
Kerfisbreyting á LÍN (Lánasjóði íslenskra námsmanna) svo LÍN geti komið betur til móts við fjölbreyttan hóp námsmanna. Af hverju? Svo námsmenn þurfi ekki að laga sig að LÍN og taka ákvarðanir um námið sitt út frá fjárhagslegum ástæðum. LÍN er verkfæri sem á að tryggja það að allir geti sótt sér nám óháð efnahagi og samfélagslegri stöðu. Úthlutunarreglur LÍN í dag gera hins vegar mörgum erfitt fyrir enda strangar, ósveigjanlegar og í mörgum tilfellum ósanngjarnar.
Að gera iðngreinum hærra undir höfði. Af hverju? Það er skortur á iðnmenntuðu fólki í landinu okkar og þeim skorti þarf að mæta með uppbyggingu og innspýtingu í iðnnám á landinu. Það er fullt af fólki fast í háskólanámi sem það hatar vegna þess eins að samfélagið sagði þeim að það væri besta leiðin til öruggs starfsframa. Eins og staðan er í dag eru tækifærin í iðnmenntun og þangað eigum við að horfa.
Endurskoðun á verkferlum og refsingum í kynferðisbrotamálum
Ungt fólk hefur skilað skömminni til geranda. Því miður eru enn mörg fórnarlömb sem hafa ekki enn fengið að sjá réttlæti og það þarf að laga.
Hvað kemur ungum kjósendum vel í refsimálum?
Þetta mál tengist í raun öllum kjósendum, ekki einungis ungum.
Kynferðisafbrot eru með ógeðslegustu afbrotum sem til eru og það þarf að refsa fyrir þau sem slík. Það er ekki verið að gera núna. Lögregluna skortir fjármagn til rannsókna og saksóknari þarf bæði fjármagn og réttarheimildir til að geta verndað brotaþola og sótt að meintum geranda. Tafir á afgreiðslu mála af þessu tagi koma verst niður á þeim sem síst þurfa að þola meira og það er samfélaginu til góðs ef hægt er að taka betur á þessum málum.
Það þarf að endurskoða refsingar í þessum málum svo refsingarnar hafi meiri fælingarmátt en þær gera núna.
Umhverfismál
Ungt fólk er fólkið sem mun taka við þessari jörð og þarf að varðveita hana fyrir næstu kynslóðir. Þetta er gömul klisja en skiptir samt svo miklu máli. Við viljum geta andað að okkur fersku lofti á meðan við lifum og við viljum að börnin okkar geti það líka.
Hvað kemur ungum kjósendum vel í umhverfismálum?
Það er engin ein rétt lausn þegar kemur að umhverfismálum. Við þurfum að menga minna, eyða minna, nota minna og taka upplýstar ákvarðanir um eigin neyslu.
Hvernig við förum að því er útfærsluatriði. Það sem við þurfum hins vegar er fólk í forystu sem þorir að taka ákvarðanir með framtíð jarðarinnar að leiðarljósi. Fólk sem þorir að gera breytingar, þó þær geti verið óvinsælar, til þess að við getum lifað á þessari jörð til framtíðar.
Að lokum
Það er eflaust hægt að bæta við þennan lista endalaust. Það er eflaust einnig hægt að koma með endalaus mismunandi dæmi og rökstyðja allt á einhvern annan hátt. Það verða ekki allir sammála þessum lista og það er bara allt í lagi. Þessi listi verður þó vonandi til þess að frambjóðendur fari að tala betur til ungs fólks, með útskýringar en ekki bara staðhæfingar og loforð að vopni. Þá verður þessi listi líka vonandi til þess að vekja unga kjósendur til umhugsunar um það hvað skiptir það máli og hversu mikilvægt er að mæta á kjörstað og kjósa. Ekki láta eldri kynslóðir með önnur vandamál og sjónarhorn vera ein um að marka stefnu landsins næstu fjögur árin. Spyrjum spurninga, leitum svara, veljum okkur framtíð og KJÓSUM.