Þegar fjármálaáætlun var kynnt í vor, voru viðbrögð mín við menntunarkaflanum sorg. Ég spurði Kristján Þór Júlíusson, mennta- og menningarmálaráðherra hvort ekki væri við hæfi að votta samúð vegna hans. Við önduðum bæði djúpt og vorum sammála um að fjármagnið til skólakerfisins var ekki nægjanlega mikið.
Þegar við í Bjartri framtíð gerðum samkomulag um ríkisstjórn og sömdum um menntamálin lögðum við ríka áherslu á menntun og menningu. Ég var ánægð að sjá að í öllum flokkum sem að ríkisstjórnarsáttmálanum komu var lögð áhersla á innspýtingu í menntakerfið. Ég trúði því að allir flokkar myndu tryggja að það yrði sett í forgang og framkvæmt.
Fjármálaáætlunin sem kom fram í vor endurspeglaði ekki þann vilja sem ríkisstjórnarsáttmálinn gaf fyrirheit um. Þar voru vissulega aðrar aðgerðir sem við höfðum sammælst um að væru mikilvægar líka en ég taldi verulega vanta upp á fjármögnun þeirra samt. Sem nýr þingmaður áttaði ég mig ekki á því þá að í stað þess að þegja við áfallið hefði ég átt að tjá mig un vonbrigðin varðandi fjármögnun menntamálanna.
Þegar ég kom heim úr sumarleyfi var ég ákveðin í að beita mér fyrir því að þrýsta á stefnu okkar í Bjartri framtíð og reyna að beita mér fyrir því að menntamálin yrðu betur fjármögnuð. Ég átti fund með ráðherra um hugmyndir sem ég hafði um þau loforð okkar í stjórnarsáttmálanum. Okkar fundur var stuttur og svar hans á þann veg að ekki væru til peningar til að gera það sem við höfðum sammælst um.
Í dag hef ég ný tækifæri sem fulltrúi Bjartrar framtíðar í framboði. Við vitum fyrir hvað við stöndum þegar kemur að menntun og tökum upp þráðinn að nýju við að tryggja það sem ekki birtist í fjármálaáætlun og fjárlögum. Okkar menntastefna snýst nefnilega um skapandi framtíð.
Í stutti máli hér er nokkra punktur úr stefnu Bjartri framtíð um menntamál.
Við viljum að fjármögnun og tekjuskipting ríkis og sveitarfélaga verði endurskoðuð, ekki síst varðandi leik- og grunnskóla. Ríkið leggi sveitarfélögunum til nýja eða aukna tekjustofna til að standa undir lögbundnum skyldum sínum og síauknum verkefnum á öllum skólastigum.
Björt framtíð vill styrkja rekstur framhaldsskóla landsins og grípa til aðgerða strax enda hlutfall útgjalda ríkisins til framhaldsskólastigsins undri meðaltali OECD ríkjanna. Við viljum búa til kerfi sem lagar sig að nemendum frekar en að nemendur þurfi að að laga sig að kerfinu. Nauðsynlegt er að fjölga nemendum sem taka þann valkost að skrá sig í verknámi. Til þess þurfa stjórnvöld að ráðast í metnaðarfulla stefnumótun á uppbyggingu iðnnáms, endurnýjun á tækjakosti í iðnmenntaskólum og kynningu á náminu.
Fjárframlög á hvern háskólanema á Íslandi eru líka lægri en að meðaltali í OECD-ríkjunum og mun lægri en annars staðar á Norðurlöndunum. Íslenskir háskólar hafa verið verulega vanfjármagnaðir og munu ekki standast samkeppni um starfsfólk, nemendur og getu til að afla styrkja með þessu áframhaldi. Háskólinn verða að njóta meira sjálfstæðis til þess að aðlagast breyttum tímum og tileinka sér nýsköpun af ýmsu tagi, í kennsluháttum og rannsóknum. Við viljum að fjárveitingar til háskóla endurspegli nemendafjölda og aukið fé sé sátt í samkeppnissjóði á sviði rannsókna og tækniþróunar.
Björt framtíð leggur mikla áherslu á að húsnæðismál Listaháskóla Íslands verði leyst til frambúðar eins fljót og unnt er, þar sem hann er án vafa hjartað í framþróun uppbyggingar skapandi greina.
Björt framtíð telur mikilvægt að efla kennaramenntun til að bregðast við fækkun kennara og minnkandi aðsókn í kennaranám fyrir leikskóla og grunn- og framhaldsskóla.
Við viljum einnig að gert verði átak í að hvetja karla til að stunda kennaranám og að mikilvægt er að stuðla að breyttu viðhorfi í samfélaginu gagnvart kennslustarfi.
Endurskoða þarf starfsemi LÍN. Flækjustig í umsóknar- og afgreiðsluferli er farið að hafa hamlandi áhrif á þjónustu þess og endurvekja þarf grunnhugsun LÍN sem er að styðja við bak einstaklinga. Við viljum blandað kerfi námsstyrkja og námslána. Ódýr lán ættu að standa öllum til boða og námsstyrkir ættu að nýtast sem hvatning til góðs árangurs og til að jafna félagslega stöðu stúdenta.
Skapandi framtíð felst meðal annars í því að efla listakennslu á öllum skólastigum, standa vörð um höfundarréttinn, lækka skatta á menningarstarfsemi, þar á meðal á bækur, stórauka fjárveitingar til skapandi greina á öllum sviðum um allt land og efla menningarsamstarf okkar við aðrar þjóðir. Einu gildir hvor mælistikan er notuð, efnahagsleg eða menningarleg, við græðum öll á því að virkja og örva enn betur sköpunargleðina og -kraftinn sem býr í þjóðinni og búa þannig til fjölbreyttara, skemmtilegra, manneskjulegra og auðugra samfélag.
Höfundur er þingmaður Bjartrar framtíðar og skipar oddvitasæti á lista flokksins í Reykjavíkurkjördæmi suður.