Eftir níu daga kjósum við um það hvernig við viljum að samfélagið okkar sé. Viljum við byggja um samfélag til framtíðar með ábyrgum og skynsömum hætti, eða viljum við fara þá leið stöðnunar sem Sjálfstæðisflokkur, Viðreisn og Björt framtíð mörkuðu í fjárlagafrumvarpinu sem lagt var fram í haust. Það er mikilvægt að muna að fjárlagafrumvarpið var ekki frumvarp eins manns, fjármálaráðherra, heldur flokkanna þriggja sem allir samþykktu að leggja það fram.
Fjárlagafrumvarpið sprettur heldur ekki úr engu því það byggir á fjármálaáætlun til fimm ára og fjármálastefnu. Þar er tónninn sleginn, rammarnir settir um hvað eigi að verju miklu (eða öllu heldur litlu) til uppbyggingar í samfélaginu. Allir þingmenn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar samþykktu áætlunina og stefnuna, studdu þá sveltistefnu sem fjárlögin byggja á.
Af hverju er ég að rifja þetta upp núna? Jú, vegna þess að um þetta snúa kosningarnar að miklu leyti. Þær snúa að því að afnema leyndarhyggjuna sem er skjól fyrir kynferðisofbeldi, sérhyglina sem birtist í því að stjórnarflokkarnir skirrðust ekki við að koma á nýju dómstigi, Landsrétti, þannig að stór hluti þjóðarinnar telur að það hafi verið gert eftir pólitískum forsendum. Og þær snúast um það hvernig við byggjum upp samfélag til framtíðar, samfélag sem er samkeppnishæft í lífskjörum og tækifærum á við það sem best gerist eða samfélag stöðnunar sem mun fara halloka í allri samkeppni.
Fyrir síðustu kosningar lofuðu allir flokkar því að byggja hefja uppbyggingu í heilbrigðismálum, menntamálum, velferðarmálum, samgöngumálum, húsnæðismálum og öðrum málum sem eru forsenda forsenda þess að við gætum nýtt þau tækifæri sem framtíðin bíður upp á. Nú virðist sumir þeirra hafa gefist upp og eyða sínu púðri í að tala þá flokka niður sem vilja enn vilja ráðast ú uppbyggingu til að undirbúa samfélagið fyrir framtíðina.
Það er nefnilega hægt að sækja fram með ábyrgum og skynsömum hætti án þess að hækka skatta á almennt launafólk. Vinstri græn vilja auka arðgreiðslur úr ríkisbönkum um tugi milljarða á komandi kjörtímabili og nýta til að greiða niður skuldir þannig að afgangur ríkissjóðs fari í uppbygginguna. Við viljum auka skatteftirlit og draga úr undanskotum, sem getur skilað tugum milljarða á hverju ári. Við viljum hækka afkomutengd veiðigjöld á þau sem nýta sameiginlegar auðlindir þjóðarinnar. Við getum tekið upp hóflegan auðlegðarskatt á hreina eign yfir 200 milljónum og hátekjuskatt á tekjur yfir 25 milljónir á ári.
Ekkert af þessu var að finna í fjármálaáætlun Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar. Það að þessir fráfarandi stjórnarflokkarnir séu á harðahlaupum frá eigin fjármálaáætlun er í besta falli pínlegt. Það að Sjálfstæðisflokkurinn dúkki upp rétt fyrir kosningar og lofi 100 milljörðum úr bönkunum, nýbúinn að leggja fram og samþykkja ályktanir þar sem þetta var ekki að finna, er bara hefðbundið kosningahjal til að vinna atkvæði. Við í Vinstri grænum teljum að flokkar eigi að segja það sama fyrir kosningar og eftir þær, eigi m.ö.o. að standa við kosningaloforðin sín.
Og við viljum réttlátara skattkerfi.
Skattkerfi er nefnilega ekki bara excel-skjal, ríkisfjármál ekki bara fyrirtækjarekstur. Ríkisfjármál eru er ramminn utan um samneysluna, sjúkrahúsin okkar, vegina, menntunina, listirnar, samfélagið allt. Það er hægt að fjármagna þá nauðsynlegu uppbyggingu samfélagsins sem kallað hefur verið eftir undanfarin ár. Sem er afleiðing þess að síðustu ríkisstjórnir hafa svelt samneysluna og þannig tekið lán inn í framtíðina. Lán eru nefnilega ekki bara krónur og aurar í rafrænu kerfi. Að láta innviðina drabbast niður er svo mun dýrara en viðhalda þeim og byggja stöðugt upp – það er lán sem komandi kynslóðir borga.
Stjórnmálaflokkar þurfa að svara því hvað það kostar að byggja ekki upp innviðina, að láta vegakerfið drabbast niður, vanrækja opinbert heilbrigðiskerfi, menntakerfi. Að byggja ekki upp innviði fyrir ferðaþjónustuna, stærstu útflutningsgrein landsins? Að dragast aftur úr öðrum þjóðum í menntun og vísindum og hlúa ekki nóg að unga fólkinu okkar? Hvað kostar þetta allt saman? Hvaða tækifærum missum við af vegna þessa? Hafa stjórnmálaflokkarnir svarað því?
Vinstri græn vilja ná breiðri samstöðu um að blása til sóknar, byggja upp velferðarsamfélag, hafa öfluga samneyslu fyrir okkur öll. Kæri lesandi, taktu þátt í uppbyggingunni með okkur!
Höfundur er þingmaður Vinstri grænna.