Íslenska hagkerfið lýtur lögmálum markaðarins og viðskipti með vinnuafl eru þar engin undantekning. Atvinnurekendur eru þar í hlutverki kaupanda en launafólk í hlutverki seljenda og markaðsöflin – framboð og eftirspurn – ráða ferðinni í stórum dráttum. Vissulega er vinnumarkaðurinn þó miklu flóknari en þessi einfaldaða mynd gefur til kynna og hann tekur stöðugum breytingum eins og rætt verður nánar í þessari grein.
Tímar hnattvæðingar og hraðfara tæknibreytinga
Hnattvæðing og tæknibreytingar eru nátengd fyrirbæri og gætu ekki án hins verið. Tækniþróun í fjarskiptum og samgöngum er forsenda hnattvæðingar sem meðal annars birtist í breyttum framleiðsluháttum og sem lýsir sér í því að neysluvarningur er gjarnan framleiddur í löndum þar sem launakostnaður og annar tilkostnaður er til muna lægri en þar sem varningurinn er seldur og notaður og minni kröfur gerðar um vinnu- og umhverfisvernd. Hnattvæðingin birtist á margan hátt og hefur margþætt áhrif, sum til hins betra en önnur mjög til hins verra.
Hnattvæðingin er neysluhvetjandi og einkennist af miklum flutningum á hráefni og vörum milli heimshluta. Hvorugt er hollt umhverfinu. Enn fremur getur hnattvæðing orðið til þess að rýra kjör launafólks og stuðla að ýmiss konar misneytingu, svo sem launastuldi og mansali.
Alþjóðleg fjármálastafsemi er einnig hluti hnattvæðingarinnar og í skjóli hennar geta undanskot og sviksamlegt athæfi þrifist eins og dæmin sanna. Misskipting blasir við hvarvetna í heiminum, fer vaxandi með framgangi kapítalismans og markaðshyggjunnar og ber hvorugu gott vitni.
Örar tæknibreytingar valda hröðum breytingum á vinnumarkaði. Sjálfvirkni eykst og störf sem áður þurfti mikinn mannafla til að sinna eru nú unnin af vélum. Þessi þróun er að sjálfsögðu jafngömul iðnbyltingunni og kemur ekki á óvart en mikill hraði er á breytingunum um þessar mundir og meiri en oft áður.
Vinnumarkaðsbreytingar og berskjaldaðir hópar
Þensla hefur ríkt á vinnumarkaði hérlendis á undanförnum árum. Atvinnuleysis hefur ekki gætt að neinu ráði en fjöldi framleiðslustarfa hefur horfið til annarra landa eða eru unnin af vélum í stað fólks og vélarnar hafa einnig útrýmt mörgum þjónustustörfum sem áður þóttu trygg, svo sem í bankageiranum.
Tengsl einstaklinganna við vinnumarkaðinn hafa breyst í mörgum tilvikum og hið þríþætta skipulag sem einkennir norrænan vinnumarkað þar sem samtök atvinnurekenda og launafólks og ríkisvaldið ráða kjaramálum til lykta í sameiningu stendur veikara nú en oft áður gagnvart undirboðum.
Hluti launafólks á Vesturlöndum hefur reynst berskjaldaður gagnvart þeim vinnumarkaðsbreytingum sem átt hafa sér stað og þessa gætir einnig hér á landi. Fólk missir störf sem það hafði gengt og á í sumum tilvikum ekki kost á öðrum eða þá aðeins tímabundnum störfum. Hin berskjölduðu eru langt frá því einsleitur hópur; þar er fólk á öllum aldri og með ólíkan bakgrunn, menntun og starfsreynslu. Fólk sem býr við lítið starfsöryggi og ótryggar tekjur, hefur gjarnan litla trú á samfélagi sínu og getur hneigst til fylgni við einfaldar og jafnvel öfgakenndar hugmyndir í von um að bæta hag sinn sem sjaldnast gengur þó eftir. Eru kosningaloforð núverandi forseta Bandaríkjanna um að endurreisa vinnumarkað þar í þeirri mynd sem hann var um miðja síðustu öld þegar verksmiðjustörf voru mörg og hagvöxtur ör stundum tekin sem dæmi um skrum sem ætlað er að höfða til þessa hóps.
Hvað með velferð og verkalýðsfélög?
Engar leiðir sem farnar hafa verið hingað til hafa reynst haldbetri eða árangursríkari til að bæta kjör almennings heldur en velferðarsamfélagið og kjarabarátta öflugra verkalýðsfélaga. Styrk staða kjarasamninga sem gerðir eru af aðilum vinnumarkaðarins er afgerandi fyrir kjör og stöðu launafólks. Hvorki velferðarhugsjónin né verkalýðsfélögin eru úrelt né aðferðir þeirra haldlausar til að takast á við áskoranir samtímans. Þvert á móti er ástæða til að styrkja og efla þessa þætti í íslensku samfélagi gegn háskalegum fylgifiskum hnattvæðingar og markaðsskipulags á borð við mansal, misnotkun á vinnuafli og félagsleg undirboð. Og það er auðvitað ávallt verkefni velferðar- og verkalýðssinna að stuðla að því að fólk hljóti þannig laun fyrir vinnu sína að þau dugi til sómasamlegrar framfærslu og að almenningur njóti allra kosta velferðarinnar án tillits til búsetu. Vinstrihreyfingin – grænt framboð vinnur að því. Gerum betur.
Höfundur er alþingismaður, og skipar 2. sætið á lista VG í Norðausturkjördæmi.