Björt framtíð hefur átt fulltrúa á Alþingi síðan vorið 2013. Í rúmlega fjögur ár. 2013-2016 voru þingmenn flokksins sex. Síðan í janúar 2017 hafa þeir verið fjórir, þ.a. tveir ráðherrar.
Á þessum stutta tíma hafa þingmenn flokksins verið afar ötulir við vinnuna sína, svo ekki sé meira sagt. Þau taka ákaflega virkan þátt í þing- og nefndastörfum, mæta betur en flestir á fundi og skila góðu dagsverki. Oftast fer hins vegar ekki mikið fyrir þeim. Þau hlusta meira en þau tala. Þau standa ekki í ræðustól Alþingis og öskra sig hása í þeirri von að rata í kvöldfréttirnar. Þau taka hagsmuni almennings alltaf fram yfir eigin hagsmuni eða hagsmuni flokksins. Þau vita að þau eru þjónar umbjóðenda sinna, kjósenda, og nálgast verkefni sín af hógværð, auðmýkt og virðingu. Þingmenn Bjartrar framtíðar ákváðu að hætta samstarfi sínu innan ríkisstjórnar Íslands nýverið vegna trúnaðarbrests, leyndarhyggju og hylmingar. Vegna þess að samstarfsflokkur þar leit svo á að fara mætti með upplýsingar og völd eins og best þjónaði flokknum eða foringja hans. Björt framtíð gefur aldrei afslátt af gildum sínum. Fulltrúar flokksins stóðu því upp og gengu út og gáfu þar með eftir verkefni sem við brennum fyrir og hefðum viljað ljúka. 59 aðrir þingmenn höfðu þá tækifæri til að mynda nýja ríkisstjórn. Það tókst ekki. Það segir meira um samstarfsflokkinn en Bjarta framtíð.
Hvað höfum við gert á þessum árum í þinginu?
Við eigum met hvað varðar meðflutning á frumvörpum og þingsályktunartillögum. Hvað þýðir það? Við látum málefnalega nálgun ráða því hvort við styðjum mál en ekki flokkapólitík. Okkur er alveg sama hvaðan góðar hugmyndir koma. Við töluðum að vísu ekki jafnmikið og Píratar og Vinstri græn á síðasta kjörtímabili. En við hlustuðum þeim mun betur.
Hvar slær hjarta okkar?
Í mannréttindamálum höfum við lagt fram 15 frumvörp og þingsályktunartillögur og lagt fram 19 fyrirspurnir. Má þar nefna bann við stafrænu kynferðisofbeldi, bann við mismunun, mál sem varðar jafnt búsetuform barna sem búa á tveimur heimilum, notendastýrða persónulega aðstoð, skráningu um umgengnisforeldra, afnám laga um mannanöfn og aukna fræðslu til að auka lýðræðisvitund barna og ungmenna. Við höfum rætt um endurskoðun á reglugerðum sem eru úr sér gengnar og barist fyrir manneskjulegri kerfum. Kerfum sem sum hver virðast helst þjóna sjálfum sér. Öðrum sem eru löngu úr sér gengin.
Við höfum lagt okkar af mörkum við að bæta vinnubrögð Alþingis og stjórnsýslunnar allrar og höfum lagt fram 7 frumvörp og þingsályktunartillögur sem lúta að betri vinnubrögðum og meiri sátt og rætt þau mál svo klukkustundum skiptir. Frá hruni er búið að skrifa um 200 skýrslur um hvað fór úrskeiðis og hvað er rétt að gera. Margar góðar. Stefnumörkun er fyrir hendi og mikil rýnivinna búin. Enn hafa þingmenn, fulltrúar þjóðarinnar þó ekki náð að stilla saman strengi. Við höfum hins vegar lagt til og haft frumkvæði að málum sem lúta að gagnsæi, að hagsmunaskráningu þingmanna og siðareglum fyrir alþingismenn, að bættri ásýnd þingsins, að skúffufé ráðherra, að viðbrögðum stjórnvalda við skattaskjólum um skýringar forsætisráðherra á aflandsfélagi, um rannsóknarnefndir, um vinnubrögð í nefndum þingsins, um framgöngu einstakra þingmanna við embættismenn og þannig mætti lengi telja. Við höfum virkilega verið með hugann við það að auka fagmennsku, samstarf og það að reyna að bæta þingið. Við höfum vandað okkur í öllu samstarfi innan þings og utan. Þau vinnubrögð hafa reyndar ekki vakið mikla athygli út á við. Vinsældir þingmanna virðast stundum hanga saman við fjölda desibila sem rata úr barka þeirra.
Björt framtíð er græn framtíð. Við höfum lagt okkar af mörkum til umræðu um náttúruvernd og umhverfismál á Alþingi. Rætt um plastúrgang, vistvæna vottun matvæla, um vistvæn ökutæki, umhverfisvæna orkugjafa í íslenskra skipaflotanum, hvalveiðar, Drekasvæðið, aðgerðir gegn matarsóun, búvörusamninga, hvernig draga megi úr notkun á skaðlegum efnum í neysluvörum, um Parísarsamkomulagið, loftslagsmál, Mývatn, um súrnun sjávar á norðurslóðum, um sjálfbærni og líftíma jarðgufuvirkjana, hæfisskilyrði leiðsögumanna og styrkingu hjólreiða á Íslandi svo eitthvað sé nefnt. Okkur er ekkert óviðkomandi þegar kemur að náttúruvernd, loftslagsmálum og að vinna gegn hvers konar sóun.
Björt framtíð vill meiri stöðugleika. Ein besta leiðin til þess er upptaka annars gjaldmiðils. Við höfum lagt fram þingsályktunartillögu um mótun stefnu í gjaldmiðilsmálum. Af hverju? Af því kostnaðurinn við að halda í íslensku krónuna gagnast bara örfáum sem græða á því á kostnað venjulegs launafólks. Það er tómt mál að tala um niðurfellingu verðtryggingar. Hún er bara einkenni á undirliggjandi ástandi. Við þurfum að ráðast á rót vandans. Við teljum að nærtækast sé að horfa til Evrunnar en viljum þverpólitíska sátt um stefnumótun í gjaldmiðilsmálum. Þá verða þessi mál loksins skoðuð af heilum hug og dregnar fram í dagsljósið upplýsingar, greiningar og skýringar sem gagnast hinum venjulega launamanni og kjósanda til að mynda sér skoðun og taka afstöðu til málsins. Eins og við gerðum í stjórnarskrármálinu. Höldum þjóðfund um gjaldmiðilinn.
Telja mætti upp alls konar önnur mál sem varða lýðheilsu, menningu, einföldun kerfa, réttlæti, umbætur á ýmsum sviðum, forvarnir, alþjóðamál, fjölbreytni á öllum sviðum og umfram allt aukið jafnrétti, mannréttindi, meiri sátt og minna vesen.
Okkar fólk í heilbrigðisráðuneyti og umhverfisráðuneyti hefur heldur ekki setið auðum höndum.
Í heilbrigðisráðuneytinu hefur frá fyrsta degi verið unnið að heilbrigðisstefnu undir stjórn Óttars Proppé. Stefna í heilbrigðismálum er mikilvægt plagg sem leggur línur um hvernig nýta skal um fjórðung af skattpeningunum fyrir heilbrigði þjóðarinnar, gott starfsumhverfi fyrir heilbrigðisstarfsmenn og skilvirkt kerfi þar sem skýrt er hver veitir hvaða þjónustu. Þegar þessar línur eru skýrar skapast tækifæri til að veita enn betri þjónustu og tryggja enn betri nýtingu fjármuna. Sérstök áhersla hefur verið lögð á þjónustu við aldraða, bæði með aukinni þjónustu heim og nú með nýrri áætlun um fjölgun hjúkrunarrýma. Heilsugæslan hefur verið efld með þjónustu fleiri faghópa, bættu aðgengi að upplýsingum um heilbrigðismál og geðheilbrigðisþjónusta á vettvagni heilsugæslu verið styrkt verulega. Unnið hefur verið að aukinni skilvirkni í kerfinu, meiri samvinnu og búnir til sameiginlegir ferlar til að nýta betur mannauð og fjármuni. Lögð hefur verið áhersla á að vanda undirbúning að endurskoðun samninga Sjúkratrygginga Íslands. Fjármagn hefur verið tryggt til að efla mönnun á heilbrigðisstofnunum. Verklag og vinna við lyfjainnkaup hefur verið bætt í samstarfi við nágrannalöndin til að stuðla að góðu aðgengi að lyfjum og hagkvæmari nýtingu fjármuna. Unnið hefur verið ötullega að fjarheilbrigðisþjónustu til að auka aðgengi að þjónustu, ekki síst til þeirra sem búa á landsbyggðinni og afskekktari svæðum. Síðast en ekki síst hafa stofnanir verið styrktar, samvinna þeirra aukin og fjárhagslegur grundvöllur tryggður fyrir nýjan Landspítala og nýtt sjúkrahótel á Landspítalalóðinni.
Í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu hefur Björt Ólafsdóttir látið mjög til sín taka. Drög að aðgerðaráætlun í loftslagsmálum til ársins 2030 voru í vinnslu, í samstarfi við fimm annarra ráðherra. Í nýbirtri samantekt, gefin út af henni er sett fram sviðsmynd um hvernig við getum dregið úr losun um milljón tonn CO2 fyrir 2030, en það er einmitt viðmiðið sem við þurfum að ná til að standast skuldbindingar okkar innan Parísarsamningsins. Björt hefur einnig lagt til breytingu á byggingarreglugerð sem kveður á um að allar nýbyggingar hafi tengi fyrir rafbíla. Björt hefur líka unnið hratt að náttúruverndarmálum síðustu mánuðina. Hún hefur unnið ötullega að aukinni vernd miðhálendisins og fjölgað friðlýstum svæðum landsins. Hún friðaði Jökulsárlón og nágrenni (Fell), hún stækkaði friðland Þjórsárvera fjórfalt með friðlýsingu fyrir skemmstu og stofnun Þjóðgarðsstofnunar er í undirbúningi. Björt hefur lagt sérstaka áherslu á að tími mengandi stóriðju sé liðinn og ekki í boði að stjórnvöld veiti fleiri ívilnanir til slíkra verkefna. United Silicon er nærtækasta dæmið um af hverju svo er. Hún hefur líka lagt áherslu á að landbúnaðarkerfið sé úrelt. Við eigum að hætta að styrkja framleiðslu og styðja þess í stað fjölbreytta nýsköpun til sveita. Bændur geti þannig framleitt eins mikið og þeir kæri sig um en greiðslur frá ríkinu taki ekki mið af magninu, eins og nú er. Gamla framleiðsluhvatningin er einmitt það sem hefur búið til kjöt- og smjörfjöll í áranna rás auk þess sem taka þarf tillit til ástands lands og forðast ofbeit á viðkvæmum landsvæðum.
Með öðrum orðum.
Við höfum verið mjög dugleg en höfum ekki haft hátt um það. Við erum óhrædd við að bretta upp ermar og láta verkin tala. Við hikum ekki við að taka óþægilegar ákvarðanir. Við látum almenning og náttúruna alltaf njóta vafans. Við viljum búa til betra samfélag, sanngjarnara, manneskjulegri kerfi og umfram allt ástunda heiðarleg stjórnmál þar sem allt er uppi á borðum og þar sem allar okkar gjörðir þola dagsljósið. Við hikum ekki við að byggja brýr milli hægri og vinstri, framtíðin liggur á miðjunni.
Nú bjóðum við fram úrval fólks í öllum kjördæmum sem á þann sameiginlega draum að til verði betra samfélag fyrir okkur öll. Af sex oddvitum eru fjórar konur og í framvarðarsveitinni eru tvær konur á móti hverjum karli. Við erum jafnréttis- og breytingarafl og sýnum það í verki.
Höfundar eru oddvitar Bjartrar framtíðar.