Ég var að klára við hljóðbók. Það væri síður en svo í frásögur færandi, nema vegna þess að ýmislegt í henni vakti mig til umhugsunar, talaði til mín í íslenskum samtíma. Bókin hefur þó ekkert með Ísland að gera, hennar söguheimur er allt annar. Um er að ræða bók eftir Al Franken, Giant of the Senate, en í henni fer hann yfir það hvað varð til þess að hann, sem hafði gert garðinn frægan í Saturday Night Live, hætti uppistandi, handritaskrifum, framkomu í sjónvarpi og bíómyndum, og sóttist eftir því að verða Öldungadeildarþingmaður Minnesota. Hin skemmtilegasta bók, enda skemmtilegur maður, en í lok hennar fór hann yfir stöðuna í umræðunni þar vestra, í því síðsannleikssamfélagi sem hefur myndast þar síðustu árin.
Um það leyti sem ég lauk við bókina bárust mér fregnir af því að sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu hefði sett lögbann á umfjöllun Stundarinnar og Reykjavík Media upp úr gögnum innan úr Glitni heitnum, sem miðlarnir voru með undir höndum. Sýslumaður mætti inn á ritstjórn og gáfu nokkurra mínútna frest til andmæla áður en lögbanni var skellt á. Og á sirka hálftíma var tjáningarfrelsi þessara tveggja fjölmiðla takmarkað – afnumið þegar að þessu tiltekna efni kom.
Ég vann lengi í fjölmiðlum, það er raunar það starf sem ég hef lengst starfað við á minni starfsævi. Á þeim tíma upplifði ég ýmislegt, bæði persónulega og í kringum mig. Fjölmiðlasamfélagið á Íslandi er lítið og fólk í stéttinni fylgist vel með því sem er að gerast. Ég þurfti oft og tíðum að bera hönd fyrir höfuð mér vegna þess sem ég upplifði sem tilhæfulausar árásir.
Ég hef upplifað það að vera kallaður Baugspenni, Baugsdindill. Fyrrverandi ráðherra kallaði dálk sem ég skrifaði reglulega í Húskarlahornið, þar sem þar birtust skrif húskarla Jóns Ásgeirs Jóhannessonar. Ég hef líka upplifað það að gagnrýna umræddan Jón Ásgeir og lenda í ritdeilu við hann, vegna þeirrar gagnrýni.
Ég hef upplifað það að þingmenn skrifuðu um skrif mín og rangtúlkuðu. Ég hef upplifað það að þingmenn hafa veifað Fréttablaðinu í pontu Alþingis og gagnrýnt forsíðufréttina, sem ég skrifaði. Ég hef upplifað það að valdamikill stjórnmálamaður sagði mér á göngum þinghússins að ég blandaði mínum persónulegu skoðunum í fréttaskrif mín. Tók fyrir að hann væri að rugla fréttaskrifum saman við leiðara mína og annað ritstjórnarefni og sagðist eiga stabba af fréttum eftir mig sem sönnuðu mál hans. Vildi þó ekki setjast með mér yfir þann stabba, þó ég hafi boðið það.
Ekkert af því sem ég upplifði kemst þó í hálfkvisti við það sem ég hef horft upp á fyrrum kollega mína í blaðamannastéttinni upplifa undanfarin ár. Þeir mega sitja undir opinberum ásökunum þingmanna og ráðherra um að ganga annarlegra erinda. Heilu fjölmiðlarnir, Kjarninn og Stundin til dæmis, eru dæmdir óalandi og óferjandi og ýjað að annarlegum hvötum. Fréttastofa Rúv er sögð ómarktæk og í pólitík, án þess að nokkrar sannanir fylgi enda eru þær ekki til. Stjórnmálamenn sniðganga fjölmiðla. Fordæma þá. Hóta þeim málssókn, sem er bein leið til að hafa áhrif á fjölmiðlafólk. Gera það hrætt.
Á sama tíma fer hópur fólks eins og eldur um sinu internetsins með sömu ásakanir. Tekur undir ásakanir leiðtoganna. Segir fréttastofu Rúv hóp kommúnista í eineltisherferð. Stundin sé drasl. Kjarninn snepill. Þessi fjölmiðill í þessari herferðinni, hinn í hinni. Umfram allt eitthvað óeðlilegt á seyði, ekki fólk að vinna vinnuna sína samviskusamlega.
Þessi söngur hefur víðtækari áhrif en að vera árásir á einstaka fjölmiðla. Samradda kórinn gerir það nefnilega að verkum að þetta grefur undan fjölmiðlum almennt, undan trausti á þeim. Og það er grafalvarlegt mál.
Og samhliða því að markvisst er grafið undan trausti á fjölmiðlum, fjölgar nafnlausum greinum, athugasemdum, myndböndum, gröfum. Áróðri. Heilu síðurnar setja fram áróður sinn undir nafnleysi og fólk dreifir, sumt vitandi hvaðan er sprottið, annað í hugsunarleysi. Það er orðið erfitt að sjá hvaðan hlutirnir koma, hvar þeir eiga uppruna sinn. Öllu er deilt á netinu og fyrir allt of mörgum er þetta allt jafn gilt. Frétt sem blaðamaður Mbl.is, Vísis, Fréttablaðsins, Rúv, Stundarinnar, Stöðvar 2, Kjarnans, svo dæmi séu tekin, hafa eytt tíma í að vinna, skoða heimildir og gögn, tala við fólk (oft bara til að fá bakgrunn) og vinna úr gögnum – að gera það sem góðir blaðamenn gera – slíkar fréttir verða í hugum fólks jafngildar og nafnlaus skrif kosningaáróðurssíðu með grafi sem sýnir að þessi eða hinn flokkurinn jafnist á við aflátssölumenn eða landníðinga. Öllu ægir saman. Ekkert er öðru réttara.
Ég man eftir því að hafa rætt við félaga mína á Fréttablaðinu á sínum tíma að það væri að færast í aukana að stjórnmálamenn létu gögn ekki lengur hafa áhrif á sig. Maður gat verið að ræða við þingmann um nýja skýrslu Seðlabankans og viðkomandi sagði hana einfaldlega ranga, að skýrsla Hagstofunnar um hitt eða þetta væri vitlaus. Ekki að þessar úttektir væru ekki nógu víðfeðmar, það hefði átt að skoða fleira með, að niðurstöðuna mætti túlka á marga vegu. Nei, þetta væri bara rangt. Og ég man að ég velti því fyrir mér hvort afnám Þjóðhagsstofnunar á sínum tíma hefði gert það að verkum að það vantaði miðlæga greiningaraðilann sem við öll treystum. Framboðið á skýrslum og úttektum, ýmist frá fyrirtækjunum, samtökum eða stofnunum, varð sífellt meira. En alltaf var bara hægt að segja að þetta væri rangt. Ekki man ég eftir slíku um skýrslur Þjóðhagsstofnunar, án þess að ég ætli að gera þær skýrslur að óskeikulu guðs orði.
Þetta hefur bara aukist. Það þykir ekkert tiltökumál lengur að afneita gögnum, staðreyndum jafnvel. Þingmenn og ráðherrar geta logið tiltölulega óáreittir. Standi árvakurt fjölmiðlafólk þá að lyginni, segja þeir ýmist eitthvað sniðugt, að þeim hafi nú verið sagt þetta, biðjast afsökunar EN (setjið inn viðeigandi ummæli stjórnmálamanns sem ákveður að snúa vörn í sókn) eða neita því einfaldlega að það sem þeir segi sé rangt. Og tala þess á milli um nauðsyn þess að auka traust almennings á Alþingi.
Bjarni Benediktsson svarar ekki endurteknum fyrirspurnum Stundarinnar, dögum eða vikum saman, en segist síðan alltaf hafa verið tilbúinn til að ræða sín mál við fjölmiðla. Og tekst að halda andlitinu á meðan. Þegar ég var blaðamaður tókum við upp þá reglu að ef stjórnmálamaður var ekki búinn að svara þegar augljóst átti að vera að viðkomandi vissi að væri verið að reyna að ná í hann, sögðum við viðkomandi hafa neitað að svara. Ekki að náðst hafi í, heldur neitað að svara. Ég er ekki viss um að það mundi skipta miklu máli í dag, nú þykir bara allt í lagi að svara ekki fjölmiðlum, að velja fjölmiðlana sjálfur.
Þá komum við aftur að lögbanninu. Ég þekki ekki lögfræðina á bak við ákvörðun sýslumanns um lögbann, hef bara hlustað á virta lögfræðinga draga hana og framkvæmdina í efa. Ég held hins vegar að sú staðreynd að lögbannið hafi komið fram þegar það kom fram segi mikið um það samfélag sem fjölmiðlar landsins mega búa við. Það þykir bara eðlilegt að fara fram á að gengið verði á rétt þeirra til tjáningarfrelsis, með jafn grófum hætti og um ræðir.
Því við skulum ekki fara í neinar grafgötur með það; umrætt lögbann er gróf aðför að lýðræðislegri umræðu í landinu.
Það sem ég hef farið yfir hér á hundavaði segir mér hins vegar að beiðnin um lögbanni spretti af sama meiði og hefur því miður orðið æ gildari og fyrirferðameiri. Nefnilega því að sannleikurinn sé afstæður. Að leitin að sannleikanum hljóti að vera af annarlegum hvötum. Að staðreyndir séu valkvæðar.
Stjórnmálamenn láta ekki ná í sig, rengja staðreyndir, neita raunveruleikanum, segja fréttir falskar. Nafnlausir aðilar bera fram rangfærslur í árásum á þá sem þeir skilgreina sem pólitíska andstæðinga sína. Fjölmiðlafólk situr undir ámæli um að ljúga (því það er það sem ásökun um falskar fréttir er í raun; ásökun um lygar) og starfa af annarlegum hvötum. Fjölmiðlar fá á sig lögbann fyrir að sinna lýðræðislegu hlutverki sínu sem aðhald á stjórnmálin. Minnir þetta á eitthvað? Kleppur er víða, sagði skáldið, og bandarískt post-truth umhverfi er víða.
Al Franken lauk bók sinni á bjartsýnum nótum. Þrátt fyrir allt ætlaði hann að trúa því að með sannleikann að vopni væri hægt að ná til fólks, blekkingin og ruglið gætu ekki haldið til lengdar. Mig langar að vera eins bjartsýnn og hann, því trúin á hið góða i manninum er einn af hornsteinum minnar sjálfsmyndar. En stundum er það erfitt, stundum efast maður um að bjartsýnin sé verðskulduð. Þá er bara að hrista það af sér og berjast áfram fyrir opnu og lýðræðislegu samfélagi, sama hve valdhöfum kann að finnast það óþægilegt.
Fjölmiðlafólki sem berst áfram í þessu umhverfi, fær yfir sig skít og skömm, lifir oftar en ekki á lúsarlaunum, því færi ég mínar þakkir og óskir um að það gefist ekki upp í baráttunni.
Höfundur er þingmaður Vinstri grænna.