Um daginn var félagi minn að pæla í því hvers vegna frjálshyggjufólk væri ekki duglegra að refsa stjórnmálaflokkum á sama hátt og það gerir á opnum markaði. Skiptir ekki öllu. Alla vega, það er þessi pæling: „Pólitík eins og fyrirtæki.“ Að hugsa um stjórnvöld, ríkið og stofnanir á sama hátt og fyrirtæki. Þetta virkar stundum. En stundum gengur pælingin ekki upp.
Afsakið fyrir fram en þetta verður smá langloka. Verður frekar þurrt í byrjun en verður gott í lokin. Svona eins og frönsk pylsa.
Alla vega, Fyrirtæki geta verið flókin en þau geta líka verið einföld. Að hugsa um þau. Ekki að reka þau. Það er hægt að hugsa um þau á einfaldan hátt. Markmið fyrirtækja er að skapa verðmæti. Búa til pening. Fyrirtæki í rekstri geta það annað hvort með því að auka tekjur eða minnka kostnað. Þegar fyrirtæki minnkar kostnað telst það hafa aukið framleiðni sína. Gott og vel.
Flestir sem rekið hafa fyrirtæki – og margir aðrir líka – vita hversu mikilvægt það er að hafa rétta fólkið innan þess. Eitt af því sem rétta fólkið getur gert innan fyrirtækisins er að finna sniðugar leiðir til að minnka kostnað. Með öðrum orðum: að auka framleiðni fyrirtækisins. Fólk innan fyrirtækja hefur í gegnum tíðina fundið ótalmargar aðferðir til að minnka kostnað. Allt frá því að búa til flóknar hugbúnaðarlausnir yfir í að skipta um salernispappír. Sem sagt fólk hefur verið að finna sniðugar leiðir til að minnka kostnað innan fyrirtækja og mun halda áfram að gera það töluvert inn í framtíðina.
Þegar fólk innan fyrirtækja tekst að finna sniðuga leið innan fyrirtækja til að lækka kostnað, þá hagnast fyrirtækið á því og á beinan og óbeinan hátt vænkast hagur starfsmannsins samhliða því. Þetta er að sjálfsögðu ekkert algilt lögmál og það er örugglega hægt að telja til einhverjar undantekningar; en þetta er að mestu leyti satt. Og það dugar. Sem sagt: Þegar starfsmanninum tekst að minnka kostnað innan fyrirtækisins þá græðir hann sjálfur á því.
Inn kemur ríkisstarfsmaðurinn. Úúúúúúú… Nú ætlum við að hugsa um ríkið eins og fyrirtæki. Við getum hugsað íslenska ríkið sem móðurfélagið og einstakar stofnanir eins og dótturfélög. Þegar ég segi einstakar stofnanir þá á ég við hluti eins vegagerðina, spítalann, háskólann, umhverfisstofnun, fjármálaráðuneytið o.s.frv. O.s.frv.
Hér vandast málið. Hver stofnun er nefnilega ekki rekin á sama hátt og fyrirtæki. Þau fá peningana sína ekki frá viðskiptavinum heldur fá þau með fjárlögum. Eins og áðan, þá er þetta ekki algilt lögmál. Sumar stofnanir fara einhverskonar blandaða leið. Þar sem þau fá bæði fé frá ríkinu (okkur skattgreiðendum) og „kúnnunum“. Við skulum ekkert vera að flækja þetta neitt mikið en gera okkur grein fyrir því að mestu leyti fá stofnanir peningana sína úr fjárlögum. Að mestu leyti. Og að mestu leyti dugar.
Það er nefnilega þannig með fjárlög að stofnanir þurfa að keppa um athygli. Öll hagræðing gengur til móðurfélagsins (ríkisins) og það er ekkert víst að stofnunun njóti góðs af hagræðingunni. Það er nefnilega þannig að ef eitthvert ríkisfyrirtækið lækkar kostnað, þá þýðir það ekkert endilega að það njóti góðs af því líkt og hefðbundin fyrirtæki heldur getur það beinlínis þýtt það að það fái minna úr fjárlögum á næsta ári. Ef það heldur áfram að minnka kostnað þá minnka umsvif þess og vald.
Það vill enginn (fáir?) missa völd. Við mannfólkið erum valdasjúk. Það er ríkisstarfmanninum ekki í hag að minnka kostnað. Þess þá heldur. Það mætti alveg færa rök fyrir því að það væri honum frekar í hag að auka kostnað í sumum kringumstæðum. Þetta er ástæðan fyrir því að stofnanir minnka sjaldan. Þetta er ein ástæðan fyrir því að sumar stofnanir þurfa sífellt meira og meira fjármagn. Man einhver eftir því að forstöðumaður einhverjar stofnanar hafi sagt eitthvað á þessa leið? „Nei, veistu við erum algjörlega ósammála fjárlögunum í ár. Við teljum að okkar stofnun hafi fengið allt of miklu úthlutað.“ Já, nei?
Allt í lagi.
Hér er vandamálið: „Það er ríkisstarfsmönnum oft ekki í hag að draga úr kostnaði“.
Hér er ein lausn: „Ríkisstarfsmenn ættu að vera verðlaunaðir fjárhagslega eftir að hafa komið með skapandi lausnir til að draga úr kostnaði.“
Þetta virkar kannski í einkageiranum en er töluvert flóknara í framkvæmd. Aðalega út af því að það getur verið erfitt að mæla en líka út af fullt af öðrum ástæðum sem ég læt liggja milli hluta því að ég er með betri lausn á vandamálinu.
Trommuslátt takk fyrir…
Ég kynni til leiks: Hagræðingarverðlaun íslenskrar stjórnsýslu!
Þau virka þannig að hvert fyrirtæki, afsakið stofnun, tilnefnir þá starfsmenn sem sýnt hafa dug í verki og náð að lækka kostnað með nýrri aðferð, tækni eða þess háttar. Við getum litið á þetta sem Nóbelsverðlaun íslenskra ríkisstarfsmanna.
Þau sem tilnefnd eru er síðan boðið til Bessastaða, þar sem Forseti Íslands heldur tölu og þakkar þeim fyrir framtakið og býður þeim til alsherjar veislu. Forsetafrú skenkir svo vínið ofan í liðið. Ekkert merlot sull. Góða stöffið. Bubbi Morthens tekur síðan lagið. Ekkert af nýja efninu. Bara gamla slagara. Tilnefningarnir (er það orð?) fá svo að taka selfí með öllum í landsliðinu og fá ársmiða á völlinn og þurfa aldrei að standa í röð. Ásdís Rán flýgur síðan með liðið í Biskupstungur þar sem Kári Stefánsson tekur á móti þeim, knúsar og gefur hamborgara. Forsætisráðherra veitir þeim síðan nýja orðu. Arnarorðuna, sem er bæði stærri og fínari en fálkaorðan. Loks tekur öll ríkisstjórnin og aðstoðarmenn hennar víkingaklappið og fólk er tollerað ef það svo kýs.
Möguleikinn á því að fá klapp á bakið er alltaf betri en að fá spark í sköflunginn.
Höfundur er heimspekingur, frumkvöðull og faðir.