Við sem búum á Íslandi erum mörg hver með einhverskonar fötlun í farteskinu, ýmist mikla eða smáa eða þekkjum einhvern sem búa við þá skerðingu sem fötlun felur í sér. Sum erum við þunglynd eða með aðra geðsjúkdóma, með gigt, sykursjúk, lesblind, lömuð, ofvirk, á einhverfurófinu, spastísk, heyrnarskert eða sjónskert. Ef allt það fólk sem býr við einhvers konar skerðingar vegna fötlunar sinnar væri tekið af vinnumarkaði yrðu þar ansi fáir eftir.
Sem betur fer eru flest okkar, þrátt fyrir þessar fatlanir eða frávik, fær um að starfa á vinnumarkaði og vinnumarkaðurinn gerir ráð fyrir þátttöku okkar. Engu að síður er hluti okkar með skerta starfsgetu og getur aðeins tekið takmarkaðan þátt í atvinnulífinu.
Fyrir þann hóp getur lífið á vinnumarkaði verið erfitt og ósanngjarnt. Skerðingar í örorkubótakerfinu halda mörgum vinnufærum manneskjum utan vinnumarkaðar.
Skerðingar í kerfinu eins og hin svokallaða og margumrædda krónu á móti krónu skerðing og afnám heimilisuppbótar við ákveðnar tekjur, leiðir til þess að fólk sem er vel vinnufært að hluta og vill gjarnan vinna, sér hag sínum og fjölskylda sinna betur borgið með því að fara ekki út á vinnumarkaðinn. Ráðstöfunartekjur fólks með skerta starfsorku geta hreinlega lækkað ef það þiggur vinnu í samræmi við starfsgetu sína. Það er út í hött að ráðstöfunartekjur heimilisins lækki við það að fólk sæki sér vinnu sem það vill sækja og ræður við og með þessari krónu á móti krónu skerðingu stuðlar kerfið að því að einstaklingar og fjölskyldur einangrist og lendi í fátæktargildru.
Auðvitað á ekki að þurfa að rökræða þá staðreynd að það hefur slæm áhrif á heilsu fólks með vinnuþrek að sitja heima og rannsóknir sýna að það leiðir í mörgum tilfellum til enn frekari veikinda og vanheilsu.
Ágætt dæmi um það hvernig kerfið getur virkað er saga vinar míns sem er á örorkubótum og eftir skelfilega langa bið fékk hann úthlutaðri félagslegri íbúð. Hann fékk þá snilldarhugmynd að fara að bera út blöð á morgnana. Blaðburðurinn hafði mjög góð áhrif og þol hans og þrek jókst, lundin léttist og hann fann aukinn tilgang í lífi sínu með því að vakna á morgnana og fara út úr húsi til vinnu. Auk þessa sá hann fram á að ráðstöfunartekjur hans myndu aukast eitthvað smávegis sem væri nú aldeilis búbót. En nei, frumkvæði vinar míns þýddi einfaldlega að tekjuviðmið hans fyrir félagslegt húsnæði færðist að efri mörkum og hann óttaðist að sér yrði sagt upp leigunni, þrátt fyrir að nær hver einasta króna skertist sem hann fékk fyrir blaðburðinn. Auðvitað hætti maðurinn að mæta í vinnuna, hann sá engan tilgang með því lengur.
Sú augljósa staðreynd blasir við okkur öllum, sem viljum sjá og heyra, að með því að gefa sem allra flestum tækifæri á vinnumarkaði mun það skila sér margfalt til baka. Ég er ekki að finna upp hjólið hér, ótalmargar rannsóknir sýna okkur þessa staðreynd svart á hvítu.
Það er kristalstært í mínum huga að breyting á skerðingu örorkubóta er nauðsynleg því hún er mannúðleg, skynsamleg og kemur í veg fyrir að fólk lendi í fátæktargildrum sem því miður eru allt of algengar í okkar annars ágæta samfélagi.
Til viðbótar þessum orðum vil ég benda á að það er verulegur skortur á hlutastörfum á Íslandi því það eru hlutastörfin sem fólk með skerta starfsorku getur nýtt sér. En aðeins þegar skerðing örorkulífeyris verður afnumin og krónu á móti krónu fyrirbærið verður lagt af fyrir fullt og allt. Það er einfaldlega engin sanngirni í öðrum valkosti.
Við getum gert betur.
Höfundur er lögreglufulltrúi og skipar 4. sæti á framboðslista VG í Suðvesturkjördæmi.