Í samfélaginu virðist algengt viðhorf að menn eigi að ganga menntaveginn áður en þeir fara að vinna fyrir sér. Menn eru ekki taldir hæfir til margra starfa án þess að ganga þann veg og vissulega má færa rök fyrir í einhverjum tilfellum. Þá er það viðhorf algengt að hærra menntunarstig geri menn verðmætari en þá sem eru af lægra menntunarstigi. Þetta viðhorf endurspeglast að einhverju leiti í því hvernig samfélagið verðlaunar menn fyrir hærra menntunarstig með hærri launum. Þetta er vissulega réttlætanlegt í þeim tilfellum þar sem námið er nauðsynlegur undirbúningur fyrir starfið. En það er ekki alltaf svo að námsleiðin öll geri menn betur undirbúna.
Menntaminnimáttarkennd
Er ekki betra að verða álitinn snillingur og útskrifast úr virtri menntastofnun á „háu“ skólastigi frekar en „lágu“? Meira að segja nafnið „háskóli“ eða „háskólanám“ gefur til kynna að þetta sé æðra nám heldur en annað. Sá sem hættir við að læra iðngrein og ákveður að fara frekar háskólaleiðina vegna slíkra viðhorfa má segja að sé haldinn „menntaminnimáttarkennd“. Hann óttast álit annarra og velur því mögulega nám og frama í grein og starfi sem höfðar síður til hans.
Iðnnám er fyrsta flokks nám
Verkmenntun og iðnnám er ekki annars flokks nám og myndi ég ganga svo langt að segja að þetta sé fyrsta flokks nám á Íslandi. Í iðnnámi eru strangar reglur um hvað meistarar þurfa að hafa til að bera til að mega taka nema í starfsþjálfun. Mikil áhersla er lögð á að iðnnemar læri á alla verkþætti og jafnvel rekstur vinnustaða. Iðnmeistarar þurfa jafnramt að læra kennslufræði til að mega kalla sig slíka. Hér á landi er rík hefð fyrir að þjálfa menn til starfa. Það á reyndar við jafnt í háskóla eða framhaldsskóla. En er endilega mikill munur þarna á milli? Er háskólanám flóknara eða tímafrekara heldur en iðnnám? Ég tók saman tölfræði um þetta efni.
Stúdentspróf ofmetið
Á þessum samanburði sést glögglega hvernig hefðin fyrir kröfu á stúdentspróf hefur áhrif á háskólagreinarnar. Það má leiða líkur að því að eftir stúdentspróf séu menn engu hæfari til að starfa sem tannlæknar en rafvirkjar, enda er gerð krafa um að ljúka fagtengdu bóknámi í báðum greinum. Stuðningsmenn óbreytts fyrirkomulags gætu etv. sagt á móti að stúdentsprófið undirbúi menn vel fyrir háskólanám án þess þó að útskýra frekar hvernig nám í viðskiptafræði sé frábrugðið faglegu bóknámi vélstjóra í framhaldsskóla. Er stúdentspróf virkilega nauðsynlegur undirbúningur fyrir aðra greinina en ekki hina?
Framtíðartónlist
Við hjá Miðflokknum viljum opna á umræðu um að stytta nám til súdentsprófs verulega eða slaka á kröfum um stúdentspróf til inngöngu í háskóla. Krafan um ófagtengt bóknám er ekki komin frá atvinnulífinu, það sést best í iðngreinunum, þar sem fagfélög út atvinnulífinu eiga ríkan þátt í að móta námsskránna. Við hjá Miðflokknum viljum að ríkið taki aukinn þátt í að styðja fjárhagslega við iðnnám svo að fleiri, bæði nemendur og skólar, sjái sér hag í að fara þá leið.
Á Íslandi er brennandi þörf fyrir
fleira iðn- og starfsmenntað fólk, sérstaklega í byggingar- og tæknigeiranum.
Við höfum ekki efni á menntaminnimáttarkennd.
Jafnfram viljum við stuðla að því að fleiri velji sér þá leið að fara í nám í því fagi sem þeir nú þegar
starfa við og er raunfærnimat góður kostur til að auðvelda þá leið. Nú þegar hafa um 2000 iðnnemar
fengið raunfærni sína á vinnumarkaði metna til styttingar á bóknámi með tilstuðlan af raunfærnimati
Iðunnar. Við viljum margfalda þessa tölu og stuðla þannig að því að auka færni og menntun allra
greina. Opnum á þessa umræðu og þorum að sjá tækifærin.
Ef mennt er máttur, þá er færni vald.
Höfundur er verðandi rafvirkjameistari og frambjóðandi fyrir Miðflokkinn í Reykjavík Suður.