Ekki þarf að fjölyrða um jákvæð áhrif ferðaþjónustunnar á efnahag þjóðarinnar síðustu ár. Atvinnugrein sem áður var talin aukabúgrein og áhugamál er orðin stærsta atvinnugrein landsins. Þessum vexti hafa fylgt mikil hagsæld en einnig áskoranir og álitamál:
Náttúruvernd – hvernig eigum við að tryggja að með aukinni ferðaþjónustu verði ekki gengið á mestu auðæfi þjóðarinnar, íslenska náttúru?
Við hjá Bjartri framtíð teljum að þjóðgarðavæðing sé sterkasta svarið við auknum gestakomum í náttúru Íslands. Þjóðgarðar snúast um skipulag og utanumhald á ábyrgri náttúruvernd og ábyrgri nýtingu. Mikilvægasta verkefnið sem vel er á veg komið er að gera miðhálendið að þjóðgarði en síðan þurfa að fylgja friðlandið á Hornströndum og fleiri viðkvæm svæði. Þjóðgarðar, ráða fagfólk, fjárfesta í innviðum og geta tekið hóflegt gjald fyrir veitta þjónustu.
Samfélagið – hvernig ætlum við að tryggja að ferðaþjónustan geti starfað í sátt og samlyndi við þjóðina?
Þegar vel er að gáð erum við öll hluti af ferðaþjónustunni með einum eða öðrum hætti. Jákvætt viðhorf til ferðaþjónustunnar er skilyrði fyrir langtíma uppbyggingu og árangri greinarinnar. Björt framtíð vill tryggja góð rekstrarskilyrði ferðaþjónustunnar um land allt og styðja betur við innri markaðssetningu ferðaþjónustunnar og markaðsfærslu landshlutanna. Auka þarf markaðssókn í þeim löndum þar sem auðveldast er fá landsbyggðaferðamenn og selja landið allt. Flestar gistinætur á landsbyggðinni koma frá Miðevrópu, þar þarf að gefa í en ekki draga úr markaðssókn eins og gert hefur verið síðustu ár.
Efnahagsmál – hvernig ætlum við að tryggja heilbrigt rekstrarumhverfi og jákvæð áhrif ferðaþjónustunnar á íslenskt efnahagslíf til framtíðar? Ferðaþjónustan þarf að verða undirstaða stöðugleika og langtíma uppbyggingar traustra innviða, ekki bóla sem springur á næstu árum.
Vanda þarf ákvarðanir sem snerta rekstrarskilyrði ferðaþjónustunnar. Við viljum ekki gera vanhugsaðar tilraunir með fjöreggið okkar. Tökum góðar ákvarðanir með góðum fyrirvara á grundvelli faglegra greininga og samráðs við greinina. Ríkissjóður er stærsti einstaki hagsmunaaðilinn í ferðaþjónustunni, tryggja þarf sveitarfélögunum tekjur af ferðaþjónustunni. Stórauka þarf útgjöld til rannsókna í ferðaþjónustunni en í dag er þau mál í miklum ólestri.
Nýtum þetta einstaka tækifæri sem við höfum núna með langtímahugsun að leiðarljósi.
Höfundur er í 6. sæti á lista Bjartrar framtíðar í Suðvesturkjördæmi.