Fyrir ári síðan sagði mér fyrrum alþingiskona að ég væri mætt í atvinnuviðtal hjá þjóðinni. Nú þegar ég er aftur komin á þann stað velti ég fyrir mér hvernig best er að undirbúa sig undir það. Sem leikskólastjóri tók ég oft á móti fólki í atvinnuviðtöl þar sem við fórum yfir styrkleika og veikleika, reynslu og þekkingu og hvaða framtíðarsýn umsækjendur höfðu um starfið.
Því miður hefur kosningabaráttan hingað til, minna snúist um þessi atriði en meira um leikendur og gerendur. Mig langar hins vegar meira að svara spurningum um það sem almenningur kallar eftir. Heiðarleg vinnubrögð og framlagið til starfsins á Alþingi.
Ég mætti til leiks í lok síðasta árs, stútfull af áhuga og metnaði til að standa mig vel og vissi að mikilvægasta verkefnið var að vera heiðarleg. Alveg sama hvað ég tæki mér fyrir hendur. Mér var falinn sá heiður að taka við formennsku í velferðarnefnd, varaformennsku í allsherjar- og menntamálanefnd og sem fjórði varaforseti þingsins. Ég mætti á 96 af 97 nefndarfundum auk fjölmargra annarra sem talsmaður barna á Alþingi og í þróunarsamvinnunefnd. Ég hef haft mikla ánægju af því að bæta við mig þekkingu um samfélagið og kerfin sem þjóna því á hverjum degi. Ég lagði mig fram um að eiga samtöl og afla þekkingar hjá frjálsum félagasamtökum og ríkisstofnunum til að skilja sem best kerfin og þau lög og reglur sem löggjafinn setur. Af þeim samtölum lærði ég mjög margt um það hvað betur má fara í samfélaginu. Ég viðurkenni líka að hafa lært að ég hafði stundum rangt fyrir mér. Ég hef því leyft mér að skipta um skoðun eftir að hafa hlustað á þá sem þekkingu hafa á þeim málum sem komu til umræðu. Slík þekking er mikilvægt veganesti sem ég tel nauðsynlegt að hafa að leiðarljósi við vinnslu mála.
Ég lærði líka að sjálf hef ég ýmsa styrkleika og veikleika. Margt af því hefur nýst mér í starfinu og ég hef líka lært að yfirstíga veikleika sem voru mér til trafala. Það er ekki alltaf styrkleiki að brenna af ástríðu fyrir því sem maður tekur sér fyrir hendur. Sérstaklega ekki í pólitík. Það kann að hljóma skringilega en í mínu tilfelli hefur sú ástríða leitt til þess að ég hef fellt tár og misst stjórn á tilfinningum mínum í ræðustól á Alþingi. Ég hef líka gerst sek um að láta fjölskyldu og vini gjalda fyrir það að ég hef lagt ofuráherslu á að vinna vinnuna mína og gera það vel. Þannig er hins vegar bara starf alþingismanna.
Ég tel að hagsmunir þeirra sem málefnin varða eigi alltaf að ráða för. Ég hef hins vegar fundið fyrir því að flokkspólitík og flokkslínur hafa gjarnan verið teknar fram fyrir þá hagsmuni. Einhverjir kunna að telja það veikleika í mínu fari að hafa ekki talað meira um flokkinn minn en þannig erum við nú bara gerð í Bjartri framtíð. Við berjum okkur ekki á brjóst og tölum um flokkinn því hagsmunir heildarinnar eru okkur einfaldlega ofar í huga en okkar eigin flokkur. Við tölum því oftar um jafnræði, mannréttindi, hagnýtingu á almannafé og manneskjulegra samfélag en Bjarta framtíð.
Mitt markmið var að hafa áhrif á bætt vinnubrögð á Alþingi og leggja áherslu á að þingmenn störfuðu af heilindum við það að setja lög og reglur til að fá bestu niðurstöðu fyrir almenning. Við það verkefni þurfum við ekki öll að vera sammála en við þurfum að bera virðingu hvert fyrir öðru og vinna saman að því verkefni. Í Bjartri framtíð lítum við á starf okkar stjórnmálamanna sem þjónandi hlutverk og að það sé okkar meginverkefni að hlusta á kjósendur okkar og vinna með það sem við heyrum. Það er því mitt markmið að halda áfram að vinna í þeim anda í þeim tilgangi að skapa samfélag fyrir alls konar. Samfélag þar sem allir fá tækifæri til að njóta lífsins og lifa með reisn á sínum forsendum. Björt framtíð var stofnuð til þess.
Ég tel Bjarta framtíð eiga mikilvægt erindi í stjórnmál þar sem ákall samfélagsins slær í takt við það sem við höfum að bjóða. Við höfum sýnt það í verki að við erum tilbúin til að taka erfiðar ákvarðanir, axla ábyrgð við stjórn og vinnslu mikilvægra mála, leita lausna þegar aðrir hafa ekki haft getu til að sýna sveigjanleika og síðast en ekki síst að standa í lappirnar þó það kostaði okkur eftirgjöf valda til að halda í heiðarleg gildi og prinsipp. Þau voru ekki og verða aldrei til sölu fyrir valdastóla þegar ekki er hægt að treysta samstarfsaðilum til að vera ærlegir í samstarfinu.
Hvað mig varðar er ég tilbúin til að halda áfram að vinna að bættum almannahag með gagnsæi, jafnræði og heiðarleika að leiðarljósi og mun hér eftir, sem hingað til, leggja mitt af mörkum við að bæta vinnubrögð í þinginu.
Höfundur er þingmaður Bjartrar framtíðar.