Er spilling alls staðar? Viðhorf Íslendinga til stjórnmálamanna

Íslendingar telja stjórnmálin mun spilltari eftir Hrun heldur en fyrir það, að stjórnmálatengsl séu mikilvæg fyrir hvernig manni gengur í lífinu og verulegur hluti telur að stór hluti stjórnmálamanna tengist spillingu.

Auglýsing

Sennilega hafa fá orð verið meira notuð í stjórnmálaumræðunni undanfarin áratug en orðið spilling. Það má jafnvel ganga svo langt að segja að stjórnmálalegar og menningarlegar afleiðingar Hrunsins hafi varað lengur en þær efnahagslegu, þar sem Hrunið neyddi okkur, sem þjóð, til að horfast í augu við að spilling og stjórnmálasambönd hafa sennilega alltaf skipt meira máli í íslensku samfélagi en flestir höfðu talið. Það sem vakti kannski helst ugg var að margir þóttust sjá að ákveðnir aðilar innan íslensks samfélags höfðu fengið tækifæri til að auðgast af því að þeir höfðu “réttu” samböndin. Óháð þeim einstaklingum sem eru við völd á hverjum tíma fela slík sambönd í sér þá hættu að mörk um hvað er eðlilegt að gera fyrir þá sem þú tengist fjölskyldu- og/eða vinaböndum verða óljós og því geta vaknað spurningar um hvenær einstaklingur er kominn í þá stöðu í íslensku samfélagi að slík hjálpsemi, jafnvel þó hún sé lögleg, telst ekki við hæfi. Þetta er mikilvægt þar sem upplifun einstaklinga á spillingu, hvort sem hún er réttmæt eða ekki, grefur undan lýðræðinu og helstu stofnunum samfélagsins. Að auki er líklegt og eðlilegt að kröfur um aukið gegnsæi í ákvarðanatöku og stjórnmálum almennt verði háværari. Slíkar kröfur sem og efasemdir um lýðræði og spillingu hafi verið gegnumgangandi í umræðunni undanfarin áratug og verið í sviðsljósinu undanfarnar vikur. Í upphafi voru mismunandi skoðanir um hvort eðlilegt hefði verið að forsætisráðherra fengi upplýsingar um bréf föður síns og í framhaldinu hvort viðbrögð hans, sem sumir kölluðu þöggun, væru eðlileg. Og slíkar umræður hafa haldið áfram síðustu vikur og hápunkturinn var kannski lögbann á umfjöllun Stundarinnar um málefni tengd Glitni og viðskiptum forsætisráðherra og fjölskyldu hans. 

Það er því lítill vafi á því að umræðan um spillingu hefur verið mikil í íslenskum fjölmiðlum síðustu ár og menn skiptast í ólíkar fylkingar varðandi eðlileg mörk á milli viðskipta og stjórnmála. En veruleikinn sem birtist í fjölmiðlum endurspeglar ekki alltaf hvað hinum almenna borgara finnst, en vísindaleg gögn geta fært okkur nær þeim veruleika. Til að varpa ljósi á það eru til gögn frá Félagsvísindastofnun sem uppfylla ströngustu gæðakröfur alþjóðlegra kannana. Hér er um að ræða: 1) Alþjóðlegu Viðhorfakönnunina (ISSP) frá 2009 og 2017; 2) Íslensku kosningarannsóknina frá 2003, 2009 og 2017; og 3) Þjóðmálakönnun Félagsvísindastofnunar í kjölfar Panamamótmælanna 2016. Þær spurningar sem þessi gögn geta svarað eru: 

Auglýsing
  1. Hefur hlutfall Íslendinga sem telja að stjórnmálamenn séu spilltir aukist síðan fyrir Hrun?
  2. Telja Íslendingar spillingu meira vandamál heldur en frændur okkar á Norðurlöndunum?
  3. Eru kjósendur ákveðinna flokka í kosningunum 2016 líklegri en kjósendur annarra flokka til að telja að stjórnmálamenn séu viðriðnir spillingu?  

Viðhorf til spillingar yfir tíma og á milli landa

Mynd 1 sýnir hlutfall Íslendinga 2003, 2009, 2016 og 2017 sem telja að spilling sé frekar eða mjög útbreidd á meðal stjórnmálamanna. Þar sjáum við að Hrunið hefur haft langvarandi áhrif á viðhorf Íslendinga. Árið 2003 taldi innan við þriðjungur svarenda að spilling væri frekar eða mjög útbreidd en sex árum seinna, í kjölfar Hrunsins, er það hlutfall komið í 77% og er síðan örlítið hærra strax í kjölfar Panamamótmælanna 2016. Nýjustu mælingarnar á vormánuðum 2017 sýna að eitthvað hefur dregið úr hlutfalli þeirra sem telja spillingu frekar eða mjög útbreidda, en er samt mun hærri en við sáum fyrir tæpum 15 árum. Því benda gögnin til þess að áhyggjur um spillingu séu mun útbreiddari eftir Hrun, óháð því hvort umræðan á hverjum tíma sé sérstaklega um spillingu eins og í kjölfar Panamamótmælanna eða þegar engin áberandi umræða er um slík mál eins og á vormánuðum 2017.

Mynd 1: Áætlað hundraðshlutfall svarenda sem telur spillingu meðal stjórnmálamanna „frekar“ eða „mjög“ útbreidda.Umræða á Íslandi er ekki einangruð heldur hluti af alþjóðlegri umræðu. Líkt og á Íslandi höfum við séð aukna umræðu í öðrum löndum um hvernig stjórnmálastefnur hafi verið notaðar til að skapa hina ofurríku (oft nefndir 1%) sem hefur leitt til orðræðu um að ekki sé hægt að treysta stjórnmálamönnum sökum spillingar og áhrifa frá auðvaldinu. Því er áhugavert að skoða hvernig viðhorf Íslendinga eru í samanburði við önnur lönd, en það var skoðað í alþjóðlegu viðhorfakönnuninni árið 2009. Á mynd 2 má sjá viðhorf á Íslandi í samanburði við þau lönd sem eru næst okkur, Norðurlöndin, en einnig við Ítalíu sem er það Evrópuland sem oft er tengt við mikla spillingu í stjórnmálum. Hér var spurt hvort að mikilvægt sé að hafa stjórnmálatengingar til að komast áfram í lífinu. Það sem vekur athygli er að töluvert mikið hærra hlutfall Íslendinga er sammála þessari staðhæfingu en á hinum Norðurlöndunum, og það er í raun minna bil á milli Íslendinga og Ítala heldur en Íslendinga og Svía, Finna eða Dana. Þannig telur helmingur Íslendinga að það sé mikilvægt að hafa stjórnmálatengingar til að komast áfram í lífinu, í samanburði við 36% í Noregi, 24% í Svíþjóð og Finnlandi og einungis 18% í Danmörku. Í landi “spillingarinnar” sem við berum okkur kannski sjaldan saman við telja 68% almennings að það sé mikilvægt að hafa stjórnmálatengingar.Mynd 2: Áætlað hundraðshlutfall svarenda sem telur að það þurfi „pólitísk sambönd til að komast lengra í þjóðfélaginu“ (alþjóðleg viðhorfakönnun frá 2009-2010) 

Eru kjósendur ákveðinna flokka líklegri til að sjá spillingu en kjósendur annarra flokka?

Alþjóðlega viðhorfakönnunin var síðast lögð fyrir á vormánuðum 2017 og mynd 3 sýnir hversu hátt hlutfall Íslendinga telur stjórnmálamenn vera viðriðna spillingu. Þar sjáum við að langflestir Íslendingar sjá einhverja spillingu meðal stjórnmálamanna og verulegur hluti telur að hún sé mjög mikil. Einungis 7% telja nánast enga stjórnmálamenn viðriðna spillingu, 21% telja að það séu fáeinir, 38% nokkrir, 29% margir og 5% nánast allir. Mynd 3: „Hversu margir stjórnmálamenn á Íslandi eru viðriðnir spillingu?“ Mat svarenda í könnun frá 2017.

Á mynd 4 eru teknir saman þeir sem telja að margir eða nánast allir stjórnmálamenn séu viðriðnir spillingu (34%) og skoðað hversu líklegir svarendur eru til að telja að að margir eða nánast allir stjórnmálamenn séu viðriðnir spillingu eftir því hvaða flokk svarendur kusu 2016. Þar kemur í ljós að kjósendur Sjálfstæðisflokksins eru síst líklegir til að sjá spillingu (og marktækt síður líklegir til að sjá hana en kjósendur Bjartrar Framtíðar, Samfylkingar, Vinstri Grænna og Pírata) en kjósendur Pírata eru líklegastir til að sjá spillingu. Þannig eru 18% líkur á að kjósandi Sjálfstæðisflokks telji marga eða nánast alla stjórnmálamenn viðriðna spillingu, um fjórðungur kjósenda Framsóknar og Viðreisnar, 35% kjósenda Bjartrar Framtíðar og Samfylkingar, 40% kjósenda Vinstri Grænna og nær helmingur kjósenda Pírata. Ef við bætum við þeim sem svara að nokkrir séu viðriðnir spillingu kemur í ljós að á bilinu 75-88% kjósenda Bjartrar framtíðar, Samfylkingar, Vinstri Grænna og Pírata telja að nokkrir, margir, eða nánast allir stjórnmálamenn séu viðriðnir spillingu.Mynd 4: Áætlað hundraðshlutfall svarenda sem telur „flesta“ eða „nær alla“ stjórnmálamenn viðriðna spillingu, eftir því hvaða flokk þeir kusu í kosningunum árið 2016.

En hvaða máli skipta viðhorf almennings?

Eftir að skoða þessi gögn er augljósasta spurningin kannski sú hvort að það sé raunverulega svona mikil spilling í íslenskum stjórnmálum. Þó að það sé mikilvæg spurning þá geta þessi gögn ekki svarað því, þau geta einungis svarað því hvernig stjórnmálin horfa við hinum almenna borgara. Og það er ekkert sérstaklega falleg mynd. Íslendingar telja stjórnmálin mun spilltari eftir Hrun heldur en fyrir það, hærra hlutfall þeirra telur að stjórnmálatengsl séu mikilvæg fyrir hvernig manni gengur í lífinu heldur en á hinum Norðurlöndunum og verulegur hluti telur að stór hluti stjórnmálamanna tengist spillingu. Þetta rennir stoðum undir þá fullyrðingu að afleiðingar Hrunsins hafi jafnvel verið meiri fyrir stjórnmálin og menninguna heldur en efnahaginn og tengist umræðum um að lýðræðið sé í hættu. Þetta getur jafnvel gengið svo langt að hinn almenni borgari upplifi að engu skipti hvað kosið sé, það séu allir stjórnmálamenn hvort sem er á kafi í spillingu. Samfara þessu höfum við einnig séð minnkandi traust til stofnanna, þar með talið til Alþingis. Óháð því hvort að við teljum að spilling sé raunveruleg eða ekki, þá er greinilegt að stór hluti Íslendinga upplifir hana sem hluta af stjórnmálunum og því má segja að eitt stærsta verkefni þeirra 63 einstaklinga sem setjast á þing í næstu viku sé að koma þannig fram í störfum sínum að hinn almenni borgari geti farið að trúa því aftur að stjórnmálamenn vinni í þágu almennings en ekki sér- eða eiginhagsmuna. Þróun síðustu 10 ára sýnir okkur að Íslendingar vilja heiðarlega stjórnmálamenn sem vinna í þágu alls almennings. 

Höfundur er prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Steinar Frímannsson
Hver er stefna stjórnmálaflokkanna í umhverfismálum?
Kjarninn 16. september 2021
Halldóra Mogensen, þingflokksformaður Pírata, í forystusætinu á RÚV í gærkvöldi.
Boðuð útgjaldaaukning Pírata er ekki fullfjármögnuð
Staðreyndavakt Kjarnans skoðar fullyrðingu Halldóru Mogensen um að kosningaloforð Pírata séu fullfjármögnuð með nýjum tekjuöflunarleiðum.
Kjarninn 16. september 2021
Jón Steindór Valdimarsson
Drifkraftur nýrra lausna í loftslagsmálum
Kjarninn 16. september 2021
Mikil skekkja er í útreikningum Pírata á helstu tekjuöflunarleiðinni sem flokkurinn sá fyrir að fjármagna kosningaloforð sín með.
Tugmilljarða skekkja í útreikningum Pírata á helstu tekjuöflunaraðgerð þeirra
Þingmaður Pírata segir að flokkurinn sé að endurskoða útreikninga sína á áhrifum 3,75 prósentustiga hækkunar efsta þreps tekjuskattskerfisins, eftir að bent var á að þar skeikaði tugmilljörðum.
Kjarninn 16. september 2021
Jóhann S. Bogason
Vesalings Færeyingarnir
Kjarninn 16. september 2021
Kolefnisgjald leggst meðal annars á bensín og dísil olíu.
Meirihluti stjórnmálaflokka vill hækka kolefnisgjald
Passa verður að kolefnisgjald leggist ekki þyngst á þau sem minnst hafa á milli handanna að mati þeirra flokka sem vilja hækka kolefnisgjald. Útblástur frá vegasamgöngum er helsta uppspretta losunar sem er á beinni ábyrgð Íslands.
Kjarninn 16. september 2021
Liðin tíð að Bandaríkin veiti Íslandi aðstoð „vegna góðvildar“
Íslendingar þurfa tromp á hendi til að vekja áhuga Bandaríkjanna til að styðja landið diplómatísk í alþjóðasamfélaginu og veita viðskiptalegar eða efnahagslegar ívilnanir, að því er fram kemur í þættinum Völundarhús utanríkismála Íslands.
Kjarninn 16. september 2021
Völunarhús utanríksmála Íslands
Völunarhús utanríksmála Íslands
Völundarhús utanríkismála Íslands – Þáttur 3: Áhugi Bandaríkjanna á Íslandi
Kjarninn 16. september 2021
Meira úr sama flokkiAðsendar greinar