Stærstu atvinnuvegir landsins eru byggðir á nýtingu auðlinda, en þeir geta ekki einir staðið undir auknum hagvexti og bættum lífskjörum til framtíðar. Til að skapa verðmæt störf og bæta lífskjör þurfum við að efla þekkingariðnað um land allt. Hækka þarf endurgreiðsluhlutfall rannsókna- og þróunarkostnaðar og afnema þak á endurgreiðslum, bæta starfsskilyrði lítilla og meðalstórra fyrirtækja með lækkun tryggingagjalds og styðja við þróun ferðaþjónustunnar um land allt með bættum innviðum.
Samfylkingin leggur áherslu á að á Íslandi verði mótuð atvinnustefna sem styður við þekkingariðnaðinn, um leið og við tryggjum sjálfbæran vöxt og samfélagslega sátt um grunnatvinnugreinar okkar sjávarútveg, ferðaþjónustu og orkuiðnaðinn. Lykilatriði í þeirri framþróun er að gera breytingar á menntakerfinu og leggja mun meiri áherslu á nýsköpun, skapandi greinar, teymisvinnu og tæknigreinar. Þessar áherslur þarf að leggja allt frá leikskóla upp í háskólana.
Við ætlum að beita okkur fyrir því að endurgreiðsla rannsóknar- og þróunarkostnaðar verði hækkuð úr 20 prósentum í 30 prósent og að þak á sjálfri endurgreiðsluupphæðinni verði aflagt. Þetta er nauðsynleg aðgerð til að tryggja að þekkingarfyrirtæki geti vaxið á Íslandi en keppt á alþjóðavettvangi. Í dag eru íslensk þekkingarfyrirtæki að flytja hluta rannsóknar- og þróunarstarfsemi sinnar til landa sem hafa afnumið þakið á endurgreiðsluupphæðinni.
Samfylkingin leggur sérstaka áherslu á að bæta starfsskilyrði lítilla og meðalstórra fyrirtækja, enda eru þau helsta uppspretta nýrra starfa. Ísland er land smáfyrirtækjanna en árið 2012 greiddu þau 44 prósent heildarlauna í atvinnulífinu. Sú aðgerð sem myndi einna helst bæta starfsskilyrði þessara fyrirtækja er lækkun tryggingagjalds, enda eru atvinnuleysistölur í dag allt aðrar en þegar gjaldið var hækkað og tímabært að endurskoða það.
Ferðaþjónustan verði miðlæg í atvinnustefnu
Fjöldi ferðaþjónustufyrirtækja um land allt er í uppbyggingu, þau byrja oftar en ekki sem lítil fjölskyldufyrirtæki en hafa mörg hver burði til að verða kjölfestufyrirtæki í íslensku atvinnulífi. Samfylkingin vill að ferðaþjónustan verði miðlæg í atvinnustefnu Íslands, enda er greinin og störfin sem henni fylgja lykillinn að því að byggð haldist um land allt. Þegar litið er til þess átaks sem þarf í uppbyggingu innviða er mikilvægt að forgangsraða verkefnunum og líta til þess að samgöngur, ástand vega og uppbygging ferðaþjónustu á landsbyggðinni eru nátengd mál. Þá þarf að ná sátt um gjaldtöku tengda ferðaþjónustunni. Ný könnun sýnir að 76 prósent aðila í ferðaþjónustu eru hlynntir aukinni gjaldtöku á ferðamenn, sem fari til uppbyggingar innviða. Sama könnun sýnir að 79 prósent aðila í ferðaþjónustu eru á móti hækkun virðisaukaskatts á greinina. Þessi mál þarf að klára, í samráði við aðila í ferðaþjónustunni.
Markaðssetjum köld svæði
Til að festa ferðaþjónustuna í sessi til framtíðar þarf að markaðssetja hin svokölluðu köldu svæði um land allt betur, enda heimsækja aðeins 8 prósent ferðamanna Vestfirði, 16 prósent Austfirði og 17 prósent Akureyri. Hlutfall erlendra ferðamanna í innanlandsflugi er aðeins 20 prósent og mikilvægt að leita leiða til að styðja við innanlandsflug, þá sérstaklega frá Keflavík til Akureyrar, Ísafjarðar og Egilsstaða.
Þegar vel árar eigum við að geta fjárfest í grunnstoðum samfélagsins; sterku menntakerfi, heilbrigðisþjónustu og velferðarkerfi sem virkar fyrir þá sem þurfa að nota það. Öflugt atvinnulíf er ein þessara grunnstoða og stjórnvöld þurfa hvoru tveggja, að skapa starfsskilyrði þar sem fyrirtæki geta vaxið og að móta atvinnustefnu til framtíðar sem er í takt við það samfélag sem við viljum búa í. Þannig byggjum við gott samfélag.
Höfundur er í 2. sæti á lista Samfylkingarinnar í Reykjavík suður.