Tillögur Miðflokks Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar (SDG) í bankamálum eru miklar tálsýnir, já blekkingar. Þær byggja á svipaðri einfeldningshugsun og margt það annað sem frá þeim manni hefur komið; þeirri hugsun að hægt sé að fá mikið fyrir ekkert. Búa til auð úr engu. Svona leika loddarar sér að glapsýnum til að veiða fólk í net sín, fólk sem finnst það eðlilega heillandi að hægt sé að töfra fram úr erminni auðæfi til að deila til almennings án þess að nokkuð komi á móti.
Síðustu afrek Sigmundar eru tillögur í bankamálum. Hann vill m.a. taka hlutabréf í bönkum sem ríkið á og deila þeim meðal almennings. Blekkingin liggur í því að þetta virðist ekki þurfa að kosta neitt; peningar sem falla af himnum ofan. Það er blekking að um gjöf sé að ræða, því auðvitað kostar þetta ríkið svipað og tekið er út. Ríkið þarf að sama skapi að spara í útgjöldum sínum s.s. til heilbrigðis- eða annarra velferðarmála og það eru ekki góð skipti fyrir almenning, að fórna lífsnauðsynlegri velferðarþjónustu fyrir áhættusöm hlutabréf.
Höfundur er hagfræðingur.